Hálslón er um 63 km2 að stærð og nær inn að Brúarjökli. Upphaflega var gert ráð fyrir að Hálslónið yrði 57 km2 en þar sem Brúarjökull hefur hopað hefur lónið stækkað. Um 32 km2 af grónu landi hefur verið sökkt undir lónið og þannig eðilagt. Í úrskurði umhverfisráðherra frá 2001 kemur m.a. fram (á bls. 77) að „Svæðið hefur sérstöðu að því leyti að það er stærsta samfellda gróðurlendi hálendisins sem nær niður á láglendi og allt niður að sjó.“ Og einnig „Mikil hætta er á auknu áfoki frá gróðurlendum sem fara á kaf en koma upp úr við lægri vatnsstöðu í Hálslóni. Þetta belti er víða 0,6-1,2 km breitt meðfram austurströnd lónsins með um 2,5 m þykkum jarðvegi að jafnaði.“
Á meðfylgjandi mynd má sjá hversu stór hluti lónbotnsins er á þurru í meðalári, í byrjun júní þegar vatnsborð lónsins er lágt. Það eru að meðaltali um 36 km2.
Mynd 1: Vatnsborð Hálslóns er breytilegt eftir árstíma
Það er erfitt að hugsa til þess að þessu fallega gróna landi sem hýsti fjölbreytt líf og merkilegar jarðmyndanir hafi verið breytt af mannavöldum í eyðimörk og lón. Til að átta sig á ásýnd svæðisins og magni sands og leirs sem liggur laus í kringum Hálslónið koma hér nokkrar myndir sem voru teknar þann 5. júní sl. á austurströnd lónsins. Myndirnar sýna svæðin sem eru á kafi þegar Hálslón er fullt en eru á þurru fyrri part sumars. Á myndum 2- 15 sést vel hversu mikið af lausu efni liggur á svæðinu og á myndum 13 – 15 eru m.a. gróðurleifar vistkerfanna sem þar voru áður.
Það segir sig sjálft að þetta efni fýkur burt, sérstaklega í þurri suðvestanátt. Síðdegis þann 5.6., þegar myndirnar voru teknar, var ekki hvasst – vestanátt um 6 m/s en fór upp í 9-12 m/s í hviðum. Samt var töluvert sand- og leirfok á svæðinu, augun fylltust af sandi og ryk var í lofti. Aftur og aftur fauk upp úr svæðunum eins og sjá má á eftirfarandi myndum.
Mynd 16: Horft af austurbakka yfir Hálslón og í Kringilsárrana þar sem lausa efnið fýkur.
Mynd 17: Horft af Hálsvegi austan lónsins inn að jökli. Rykmistur liggur yfir svæðinu fjær.
Landsvirkjun er með ýmsar mótvægisaðgerðir í gangi eins og sandgildrur ofan efri marka lónsins austanmegin. Mikill sandur safnast í gildrurnar sem þarf að moka reglulega upp úr. Nú er bara byrjun sumarsins og foktímabilsins og sumar gildrurnar voru að verða fullar af sandi.
Mynd 18: Þessi sandgildra er að verða full af sandi.
Í úrskurðarorði umhverfisráðherra frá 2001 eru gerðar ýmis skilyrði og m.a. þetta (bls 122):
„Aðgerðir framkvæmdaraðila til að minnka jarðvegsrof og áfok úr Hálslóni skulu miðast við að hvergi myndist áfoksgeirar meðfram jöðrum Hálslóns í hönnunarstormi með 50-100 ára endurkomutíma.“
Landsvirkjun hefur látið vakta áfokið í Kringilsárrana og á austurströnd lónsins og gripið til ýmissa mótvægisaðgerða auk sandgildranna. M.a. hafa verið settar upp sandgirðingar á álagssvæðum, gróðurinn ofan Hálsvegar hefur verið styrktur með vægri áburðargjöf svo að hann sé betur í stakk búinn til þess að taka við áfoki og einnig hefur verið reynt að moka upp litlum hluta sandsins sem hefur fokið á gróið land og hann fluttur aftur ofan í lónið.
Veðurfarsskilyrði í ár eru mjög óheppileg með tilliti til áfoks þar sem snjór er farin af Kárahnjúkasvæðinu og þurrt hefur verið í veðri. Það er afar sorglegt að sjá hversu mikið áfok hefur myndast ofan Hálsvegar á grónu landi nú þegar í byrjun júní. Enn eru nokkrar vikur þar til lónið fyllist og mikið fok getur bæst við.
Eftirfarandi myndir nr. 19 – 28 sýna áfokið þann 5. júní á grónu landi ofan Hálsvegar.
Rykmökkur hefur legið yfir Héraði í nokkur skipti nú í byrjun júní. Þó að hluti hans – og jafnvel stór hluti – komi m.a. af Dyngjusandi þá bætist efnið frá Hálslóni við. Og staðbundin áhrif áfoks á gróður og dýralíf á Vesturöræfum og í Kringilsárrana getur orðið töluvert. Hvernig líður t.d. fuglunum sem liggja á hreiðri í rykmekki frá Hálslóni þegar okkur mannfólki finnst varla líft að vera á svæðinu í stuttan tíma?
Það er alltaf jafn niðurdrepandi að koma á Kárahnjúkasvæðið eftir að náttúran þar var eyðilögð. Ekki síst fyrir fólk sem hefur séð hversu miklum vist- og jarðfræðilegum verðmætum hefur verið sökkt ofan í lónið. Og eitt er víst að þó að ýmsar mótvægisaðgerðir gagnist að einhverju leyti til að minnka neikvæð áhrif þessa mikla inngrips í vistkerfin þá er ýmislegt sem maðurinn getur ekki stjórnað og komið í veg fyrir. Og varla er hægt að sjá fyrir sér langtímaáhrifin af eyðileggingu náttúrunnar vegna Kárahnjúkavirkjunar.