Að breyta framtíðarsýn í veruleika

Framtíðarsýn fólk og sól landvernd.is
Það eru til margar mögulegar framtíðir.
Guðrún Schmidt skrifar um draumaheim, þar sem mannkynið hefur náð að afstýra verstu afleiðingum loftslagsbreytinga og minnir á að þegar hafa verið settar upp vörður af alþjóðasamfélaginu sem eiga að leiða okkur þangað.

Guðrún Schmidt
sérfræðingur hjá Landverndar skrifar

Drauma­heimur

Ímynd­aðu þér drauma­heim þar sem umgengni og nýt­ing á nátt­úr­unni er með sjálf­bærum hætti, þar sem rétt­læti og jafn­rétti ríkir milli manna, þar sem fátækt, hungur og stríð heyrir sög­unni til. Það ríkir frið­ur, lýð­ræði er við völd alls stað­ar, náðst hefur að skipta gæðum Jarðar jafnt milli manna og þær eru sam­eign. 

Virð­ing er borin fyrir öllum líf­verum og dýra­níð heyrir sög­unni til. Vist­kerfi jarðar eru í jafn­vægi og auð­lindir eru not­aðar á skyn­saman hátt og unnið er stöðugt að því að vernda líf­fræði­lega fjöl­breytni á Jörð­inni. Ímynd­aðu þér að í þess­ari fram­tíð­ar­sýn hefði mann­kyn­inu tek­ist að halda hlýnun Jarðar innan við 1,5 gráður og þar með náð af afstýra verstu afleið­ingum lofts­lags­breyt­inga og hruni vist­kerfa. 

Afleið­ingar lofts­lags­breyt­inga voru samt tölu­verðar með til­heyr­andi mann­falli og eyði­legg­ingu en mann­kynið tókst á við málin í sam­ein­ingu með rétt­læti og sam­kennd að leiðar­ljósi. Náðst hefur ákveðið jafn­vægi í nátt­úr­unni og líf­ríkið hefur aðlag­ast breyttu lofts­lagi. Notkun jarð­efna­elds­neytis er úr sög­unni.

Ímynd­aðu þér lífið í þessum drauma­heimi. Hvernig líður þér? Hvað gerir þú og fjöl­skylda þín á hverjum degi? Hvernig er lífið í nær­sam­fé­lagi, í land­inu, heims­álf­unni og í heim­inum öll­um?

Raun­veru­leik­inn

Kannski nærð þú í smá­tíma að ímynda þér slíkan heim en svo nær raun­veru­leik­inn þér aftur niður á jörð­ina og þú hugsar þér að þetta sé bara ein­hver útópía sem verði varla hægt að ná. En nú er mik­il­vægt að staldra við.

Hvernig á að vera hægt fyrir mann­kynið að leysa úr stóru áskor­unum sam­tím­ans ef það hefur enga fram­tíð­ar­sýn, drauma, ímynd­un­ar­afl og er kjarklaust? 

Sá sem býr til fram­tíð­ar­sýn er ekki ein­ungis draum­óra­mann­eskja. Því fram­tíð­ar­sýnin er leið­ar­ljós sem gefur okkur einnig sýn á vanda­mál sam­tím­ans og hug­myndir um breyt­ingar til að raun­gera fram­tíð­ar­sýn­ina. 

Ef fólk getur ímyndað sér betri heim og hefur trú á því að slíkur heimur gæti orðið að veru­leika verður til stað­föst von, þá fæð­ast hug­mynd­ir, bar­áttu­and­inn og kjarkur verða dríf­andi og breyt­ingar ger­ast. 

Að búa til fram­tíð­ar­sýn, hafa trú á henni og taka þátt í að stuðla að henni er því mjög öfl­ugt tæki til að koma af stað umbreyt­ing­um, til að vald­efl­ast og til að hafa trú á fram­tíð­inni frekar en að kvíða fyrir henni. Þannig verður ókomin tíð full af von­um, vænt­ingum og tæki­færum og ætti því að vera til­hlökk­un­ar­efni.

Fram­tíð­ar­sýn alþjóða­sam­fé­lags

Alþjóða­sam­fé­lagið er búið að móta sína fram­tíð­ar­sýn sem ein­kenn­ist af sjálf­bærri þró­un. Orðið þróun gefur til kynna að þetta sé veg­ferð og umbreyt­ing­arnar ger­ist í skref­um. 

Heims­mark­miðin og sér­stak­lega und­ir­mark­miðin þar, eru þá vörður á þeirri veg­ferð, vörður sem eiga að hafa raun­gerst fyrir árið 2030. Eftir það verða vænt­an­lega sett ný mark­mið sem vörður fyrir áfram­hald­andi þróun á þess­ari veg­ferð sjálf­bærrar þró­un­ar. 

Fram­tíð­ar­sýnin er sem sagt til staðar og flestar þjóðir heims hafa skuld­bundið sig til að stuðla að heims­mark­mið­unum sem eru vörður á leið að sjálf­bærri þró­un. Þetta er ekki útópía, þetta er raun­veru­leg fram­tíð­ar­sýn alþjóða­sam­fé­lags­ins. Og með ímynd­un­ar- og sköp­un­ar­afli er hægt að sjá þessa sýn fyrir sér.

Við höfum val

Fram­tíð­ar­sýnin ein og sér mun ekki leiða til umbreyt­inga sam­fé­laga en er mjög mik­il­væg, skap­andi og leið­andi byrj­un. Hvort sýnin verður að veru­leika eða ekki mun vera háð því hvað mann­kynið muni taka til bragðs og hvernig við hvert og eitt munum stuðla að umbreyt­ing­um.

Enn sem komið er hefur mann­kynið val um það hvers konar fram­tíð verður að veru­leika. Verði litlu breytt í núver­andi lifn­að­ar­háttum mun hlýnun Jarð­ar­innar leiða til ham­fara sem grafa undan for­sendum sið­menn­ing­ar. Hætta er á því að núver­andi lifn­að­ar­hættir margra og ekki síst vest­rænna þjóða muni tor­tíma okkar eigin teg­und. 

Velji mann­kynið hins vegar leið umbreyt­inga verðum sér­stak­lega við í vest­rænum heimi að vera opin fyrir fram­tíð­ar­sýn sjálf­bærrar þró­un­ar, sleppa tak­inu á ýmsum þáttum núver­andi lifn­að­ar­hátta, breyta fram­leiðslu- og við­skipta­háttum og vera til­búin að feta nýjar slóð­ir. Hjálp­umst öll að í að velja leiðir í átt að fal­legi fram­tíð­ar­sýn!

Höf­undur er sér­fræð­ingur hjá Land­vernd. Greinin er úr vænt­an­legri hand­bók höf­undar um menntun til sjálf­bærni.

Greinin birtist fyrst á Kjarnanum 30. ágúst 2022. 

Ert þú í Landvernd?

Taktu afstöðu með náttúrunni og gakktu í Landvernd