Aðalfundur Landverndar 2013

Um 75 manns sóttu aðalfund Landverndar 2013 sem haldinn var í Nauthóli í Reykjavík 13. apríl síðastliðinn.

Um 75 manns sóttu aðalfund Landverndar 2013 sem haldinn var í Nauthóli í Reykjavík 13. apríl síðastliðinn. Tæp 44% aðspurðra segjast andvíg virkjanaframkvæmdum í Bjarnarflagi við Mývatn en 30,5% fylgjandi, samkvæmt könnun sem Capacent-Gallup vann fyrir Landvernd í síðustu viku og var kynnt á fundinum. Guðmundur Hörður Guðmundsson, formaður Landverndar, sagði í ávarpi að kannanir hefðu sjaldan ef nokkru sinni sýnt eins mikla andstöðu við nokkra virkjun og þessa. Það væri fagnaðarefni, ekki síst þar sem almenn umfjöllun um hana hafi ekki farið af stað fyrr en á haustmánuðum. Andstaðan hafi því orðið mjög sterk á undraskömmum tíma.

Í ályktun fundarins voru Landsvirkjun og sveitarstjórn Skútustaðahrepps hvött til að hlífa lífríki Mývatns við auknu álagi sem myndi óhjákvæmilega fylgja fyrirhugaðri Bjarnarflagsvirkjun. Þá var verkefnisstjórn 3. áfanga rammaáætlunar og Alþingi hvött til að endurskoða flokkun Bjarnarflagsvirkjunar í rammaáætlun, þannig að svæðið færist að minnsta kosti í biðflokk. Alþingi var einnig hvatt til að lögleiða að nýju vernd Mývatns- og Laxársvæðisins sem var afnumin með lögum nr. 97/2004.

Á fundinum var Guðmundur Hörður Guðmundsson endurkjörinn formaður samtakanna til tveggja ára. Anna G. Sverrisdóttir, Helena óladóttir og Einar Bergmundur Arnbjörnsson gáfu kost á sér til áframhaldandi starfa í stjórn og hlutu kosningu til tveggja ára. Helga Ögmundardóttir gaf ekki kost á sér til áframhaldandi setu í stjórn Landverndar en í hennar stað var kjörinn Guðmundur Björnsson.

Í kynningu formanns Landverndar á ársskýrslu stjórnar, kom fram að á starfsárinu hefði félagsmönnum fjölgað um 36%, samanborið við 10% árið þar á undan, og eru skráðir félagsmenn nú um 760. Þrjú félög gengu í Landvernd á starfsárinu og eru aðildarfélögin nú 44. Nýju aðildarfélögin eru Ungir umhverfissinnar, Hraunavinir og Sjálfboðaliðasamtök um náttúruvernd. Þá kemur fram í ársskýrslunni að nú eru 54% grunnskólanema, 46% leikskólabarna og 34% allra háskólanema þátttakendur í fræðsluverkefni Landverndar, Skólar á grænni grein. Bláfánaverkefnið er einnig í mikilli sókn og nú hafa sjö hafnir og baðstrendur sótt um að fá að flagga fánanum, en það er rúm tvöföldun frá fyrra ári.

Á starfsárinu sendu samtökin frá sér 23 umsagnir og álit um lagafrumvörp, þingsályktunartillögur, skipulagsmál og vegna mats á umhverfisáhrifum. Þá birtu samtökin þrettán áskoranir, ályktanir og yfirlýsingar og héldu tíu opna málefnafundi. Hægt er að lesa ársskýrslu Landverndar á netinu.

Á fundinum var lögð fram tillaga níu stjórnarmanna um að nafni Landverndar yrði breytt. Ákveðið var að skipa þriggja manna nefnd til að fjalla um tillöguna, kanna hug félagsmanna til hennar og leggja fram eigin tillögu á aðalfundi að ári. Nefndina skipa ólöf Guðný Valdimarsdóttir, Sigrún Helgadóttir og Fríða Björg Eðvarðsdóttir.

Árni Einarsson, forstöðumaður Rannsóknastöðvarinnar við Mývatn flutti erindi um Mývatn, sérstöðu þess, umhverfislegar hættur og niðurstöður rannsókna. Einnig flutti Arngrímur Geirsson, bóndi og fyrrverandi kennari ávarp, en hann var einn sprengjumannana við Miðkvíslarstíflu fyrir 40 árum. Hann sagði á persónulegan hátt frá aðstæðum er íbúar tóku málin í sínar hendur á sínum tíma.

Aðalfundurinn samþykkti átta ályktanir um Bjarnarflagsvirkjun, viðbrögð við fjölgun ferðamanna, eflingu Grænafánaverkefnisins, stofnun kynslóðasjóðs, næstu skref í rammaáætlun, sameiningu stofnana sem fara með vernduð svæði, vernd Gálgahrauns og úrsögn Grindavíkur úr Reykjanesfólkvangi.

Ert þú í Landvernd?

Taktu afstöðu með náttúrunni og gakktu í Landvernd