Aðalveikin

Ef býflugurnar hætta að fljúga hættum við að ganga. Svo einfalt er það.
„Það yfirlæti sem er líklega skaðlegast af öllu er hugmynd okkar mannanna um að við séum aðalatriði heimsins og hafin yfir aðrar tegundir í vistkerfinu."

Ég man eftir skemmtilegum strák sem ég kynntist fyrir mörgum árum. Hann kvartaði sáran yfir foreldrum sínum því þau væru alltaf upptekin á fundum, sitjandi í alls konar stjórnum og ráðum. Ég held að þau séu með aðalveikina, sagði hann. Ég hafði gaman af þessu hjá peyjanum því ég vissi að hann fékk heilmikinn tíma og stuðning frá foreldrum sínum og var undir niðri bara stoltur af gamla settinu.

Aðalveikin er hins vegar mikið alvörumál og getur hrjáð okkur á ýmsa lund. Það er auðvitað ekkert að því að hafa gott sjálfstraust og vilja láta um sig muna, en svo er hægt að keyra slíka mannkosti úr hófi fram. Ertu kominn á sveifina? Spurði kunningi minn mig einhvern tímann þegar ég var að lýsa fyrir honum hvað ég væri gríðarlega upptekinn. Hvaða sveif áttu við? spurði ég. Sveifina sem snýr jörðinni, svaraði hann. Ég hafði gott af þessu. Ég hef oft verið með snert af aðalveikinni.

Annað og verra einkenni þessa kvilla er það þegar okkur finnst við vera mikilvægari en annað fólk. Það er ömurlegt í að lenda, því þá hættir fólk að nenna að tala við mann. Yfirlæti er ömurð.

Það yfirlæti sem þó er líklega skaðlegast af öllu og búið að valda mestu tjóni í veröldinni er hugmynd okkar mannanna um það að við séum aðalatriði heimsins og hafin yfir aðrar tegundir í vistkerfinu. Að vísu má segja að við séum aðgreind frá vistkerfinu á einn hátt; Við erum sú tegund sem er háðust öllum hinum tegundunum. Ef býflugurnar hætta að fljúga hættum við að ganga. Svo einfalt er það. Manneskja þarf ekki bara helling af súrefni, vatni og næringu, heldur lifir hún líka í flóknu og viðkvæmu samspili við bakteríur, gerla og alls konar aðra þætti sem halda okkur rúllandi. Við þurfum á vistkerfum jarðar að halda en þau geta sem hægast lifað án okkar.

Í þessari stöðu er aðalveikin ferleg pest, hvort sem hún birtist í hernaðarátökum, neysluæði eða öðrum formum mannlegrar heimsku. Jörðin er ekki í neinni hættu af völdum manna. Hún mun jafna sig af ágangi mannkyns þegar hann hættir. Við þurfum hins vegar að gera það upp við okkur hvort við ætlum að lifa á forsendum veruleikans og gefa ófæddum kynslóðum líf með því að tileinka okkur sjálfbæra lífshætti. Hinn möguleikinn er að gefast upp fyrir aðalveikinni með þeim afleiðingum að vistkerfi jarðar hætta að nenna okkur og vinka bless.

Greinin birtist fyrst í ársriti Landverndar 2023 – 2024

Ert þú í Landvernd?

Taktu afstöðu með náttúrunni og gakktu í Landvernd