Afmæliskveðja til Landverndar 50 ára

Náttúrlegir birkiskógar eru lögverndaðir með náttúruverndarlögum, lauftré eru lungu heimsins, landvernd.is
Afmæliskveðja frá Guðjóni Jenssyni, Landvernd til heilla.

Guðjón Jensson skrifar:

Æskuminningar

Oft hefur mér verið hugsað til sumranna 1965 og 1966 þrátt fyrir að meira en hálf öld sé liðin. Algengt var á þessum árum að krakkar af höfuðborgarsvæðinu væru sendir í sveit til að kynnast betur sveita- lífinu, samskiptunum við húsdýrin og fólkinu í sveitinni. Þetta fyrirkomulag þótti vera sjálfsagt mál enda var mikil vinnuafls- þörf í sveitum landsins yfir sumartímann og krakkar á „mölinni“ fengu sýnishorn af venjulegum sveitastörfum eins og þau tíðkuðust upp úr miðri öldinni sem leið. Við kynntumst hugsunarhætti bænda og búaliðs og urðum þar með víðsýnni og reynslunni ríkari. Hluti af þessari upplifun var „sveitasíminn“ sem var barn síns tíma en lifandi fjölmiðill víðast hvar á landsbyggðinni. Markmiðið var að krakkar úr Reykjavík legðu fram vinnuframlag sitt við létt störf en fengu húsnæði, venjulegan viðurgerning og aðra þjónustu í staðinn. Auðvitað höfðu börn þéttbýlisins misjafnlega góða vist en eg held að óhætt sé að segja að almennt höfðum við krakkarnir „af mölinni“ gott af þessu við hæfilega vinnu og skynsamlegan aga sem öllum er nauðsynlegur. Við komum aftur að hausti til baka eftir sumarstörfin reynslunni ríkari, sum okkar jafnvel með tilhlökkun að koma aftur að vori og verða aftur að gagni í sveitinni. Oft var sumarvinnan launuð á einhvern sýnilegan hátt að hausti, annað hvort með lambi eða kartöflupoka sem þætti kannski fremur lítilfjörleg umbun í dag. En það var ekki aðalatriðið. Viðurkenningin að koma að gagni var það sem þótti eftirsóknarvert. Enginn þéttbýliskrakki á þessum tíma taldist vera gjaldgengur í samfélaginu sem ekki hafði verið í sveit.

Á þessum árum var helst að krakkar bæru út Morgunblaðið og önnur dagblöð eldsnemma á morgnana áður en þau færu í skóla sem oftast var tví- og jafnvel þrísetinn. Stundum var farið eftir skóla um hádegisbil niður í miðbæ Reykjavíkur til að selja Vísi. Það þótti sjálfsagt að krakkarnir ættu sem fyrst að hafa dálítið fyrir lífinu og verða sem fyrst matvinningar. Í dag eru töluvert önnur viðhorf til vinnunnar. Sérstaklega með tilliti til barna.

Þegar eg var á fermingaraldri var eg sendur í sveit austur í Hreppa skammt innan við Flúðir. Dvöl mín stóð þar tvö sumur, 1965 og 1966, á vestari bænum á Kópsvatni skammt norðan og innan við Flúðir og austan við Bræðratungu í Biskupstungum handan Hvítár. Þar var efsta og eina örugga vaðið yfir þessa viðsjárverðu og straumhörðu jökulá. Þarna átti forðum leið Daði Halldórsson í Hruna, að hitta á laun Ragnheiði Brynjólfsdóttur ástkonu sína og átti með henni leynilegar samvistir. Í ánni veiddust laxar í króknet en eftir að kláfi hafði verið komið fyrir út í árstrauminn með fyrirhleðslu út í ána var net fest í kláfinn til að veiða lax sem synti upp með bakkanum og álpaðist í netið. Þótti laxveiði mikil búbót og góð tilbreyting í fæði sveitafólksins og auðvitað okkar krakkanna af mölinni í Reykjavík.

Mikið útsýni og gott er frá bæjarhólnum til vesturs og norðurs, allt frá fjöllunum í vestanverðri Árnessýslu til Langjökuls og fjallanna norðan í Biskupstungunum. Fyrra vorið minnist eg þess að verkmaður nokkur ágætur frá Ræktunarsambandinu kom á öflugri jarðýtu með mikinn og sterkan plóg í eftirdragi. Hann hafði þann starfa í sveitum að fara milli bæja og rista svonefnd kílræsi í mýrarnar fyrir bændur. Þetta var nýjung og þótti gefast vel og jafnvel betur en opnir skurðir. Votlendið vestarlega á jörðinni úti undir Hvítá var framræst með þessu móti. Síðar átti eftir að koma í ljós að þessi kílræsi áttu mikinn þátt í útbreiðslu minks þar sem þau höfðu verið rist en minkarnir fundu þar kjörið skjól.

Einn góðan veðurdag var sveinsstaulinn úr Reykjavík sendur með kaffi í flösku sem var í ullarsokk eins og algengt var á þessum árum ásamt góðu meðlæti til að færa ýtumanninum þar sem hann var við sinn starfa. Það hefur aldrei þótt góðs viti á Íslandi að góður verkmaður sé lengi matarlaus. Meðan þessi ýtustjóri maulaði í sig viðurgerninginn og kaffið spurði hann mig hvort eg þekkti fjöllin sem þarna blöstu við mót norðri í fagurri heiðríkjunni. Þetta var nokkru áður en heyannir hófust en venjulega klæjuðu bændur sunnanlands í lúkurnar að hefja slátt þá grassprettan væri talin nægileg. Og auðvitað var beðið uns vindur snéri til norðlægrar áttar. Einhver þekkti eg nöfn þessarra fjalla en var samt ekki alveg viss. Ýtumaðurinn greindi mér nákvæmlega frá nafni hvers fjalls og sagði frá einkennum þeirra og umhverfi. Þá bað hann mig að endurtaka nöfn þeirra og festa vel í minni rétt eins og góður kennari. Þau man eg öll enn og greini vel á milli þeirra. Þetta var mér góð kennsla í landafræði og hef notið þess síðan.

Stöðva verður hernaðinn gegn íslensku lindánum, Tungnafljót í Biskupstungum. Mynd: Magnús Jóhannsson, landvernd.is

Moldrok af Haukadalsheiði

Þessi sumur mátti oft sjá mikið uppblástur- skóf frá Haukadalsheiði smámsaman hylja fjöllin allt frá Laugarvatnsfjalli í vestri, Efstadalsfjall, Miðdalsfjall, Högnhöfða, Kálfstind, Bjarnarfell og Sandafell. Sjaldan brást það að innan einnar eða tveggja stunda var brostin á sterk norðanátt með tilheyrandi þurrki. Kepptust þá bændur við að slá með traktorum sínum túnin hvert af öðru og allir bundnir við heyskap það sem eftir lifði sumars. Í hugum sunnlenskra bænda var meira hugað að praktískum þáttum lífsins fremur en umhverfinu. Aldrei var hugað að orsökum né afleiðingum þessa mikla moldfoks með norðanáttinni sem geysaði um sveitirnar. Fyrir bændur var moldkófið ávísun á góðan þurrk fremur en einhverjar miður góðar breytingar á landgæðum.

Hversu mörg dagsverk voru innt af hendi?

Hverfum ögn aftur fyrir aldamótin 1900. Að koma upp góðum og vönduðum vörslugörðum var yfirleitt mjög vandasamt hér á landi. Víða voru aðstæður þannig að ekki var auðvelt að koma þeim upp enda var skortur á góðu hleðslugrjóti og alltaf þurfti að reikna með kröftugum jarðskjálftum, einkum sunnanlands.

Lengi vel var það starfi íslenskra barna yfir sumartímann að vaka á næturnar og gæta þess að búsmalinn færi ekki í túnin og spillti þar með slægjunum í heimahögunum. Með innflutningi á gaddavír um og eftir aldamótin 1900 gátu börnin á Íslandi sofið yfir sumartímann eftir að heimatúnin höfðu verið girt. Því var lengi hugað meira að þeim möguleikum sem afréttir hafa til að fóðra sauðfé og jafnvel hross yfir sumartímann og friða þar með heimalandið.

Gæta þarf þess að verja fjármunum almennings af skynsemi og til hjálpar loftslaginu, landvernd.is

Lengi vel var ekki hugað að því hvort meira væri tekið úr náttúrunni en hún gat framleitt við þessar aðstæður. Bændur voru uppteknir við eitthvað annað eins og afurðaverð sem og hversu heimtur af fjalli væru góðar að hausti. Líklegt er að hér sé arfur frá þeim tíma þegar sauðfjárbúskapur fór vaxandi í kjölfar siðaskipta en þá urðu umtalsverðar breytingar í búskaparháttum víða um land, einkum þeirra jarða sem féllu undir danska konunginn við upptöku klausturjarðanna. Þá urðu skjótar breytingar þar sem horfið var frá nautgriparækt og meiri áhersla lögð á kvikfjárrækt. Það var því mikil þörf á að koma þessari sístækkandi hjörð sauðfjár landsmanna fyrir á afrétti. Fram að aldamótunum 1900 tíðkuðst fráfærur og seljabúskapur sem hverfur smámsaman eftir því sem tímar líða enda mannaflsfrek. En vaxandi ánauð á afréttum landsmanna hlaut að veikja mjög vistkerfi hálendisins og hálendisbrúnarinnar. Og öll vinnan til sveita var lengi vel mjög mannfrek eins og nú mun koma í ljós.

Lítum aðeins í ritið Sunnlenskar byggðir en í fyrsta bindinu sem kom út 1980 segir um Biskupstungur:

Smölun afréttarins fer í stórum dráttum þannig fram, að miðvikudaginn í 20. viku sumars fara 28 leitarmenn í fyrstu leit. Eru þeir í 7 daga og leita allt að girðingu norðan Hveravalla undir stjórn fjallkóngs. Fénu er síðan réttað í Tungnaréttum miðvikudaginn í 21. viku. Eftirsafnsmenn, 9 að tölu, fara síðan í aðra leit oftast daginn eftir réttirnar. Leita þeir að mestu sama svæði og eru jafn lengi og fyrstasafns- menn. Þrír leita samhliða þeim vesturhluta framafréttar 2 síðustu dagana. Úr eftirsafni koma fæst nokkrir tugir kinda, en oftast nær hundrað, og þegar flest er, nokkur hundruð. … Þegar líður að veturnóttum, fara 5 í þriðjuleit. Þeir leita enn að mestu sama svæði og fyrri leitirnar og eru a.m.k. viku, en stundum legast þeim vegna illviðris eða dimmviðris um einn dag eða fleiri.i

Þetta hefur verið gríðarlegt álag á viðkvæmt vistkerfi þar sem hófar hesta og fætur sauðfjár um aldir setja mark sitt á viðkvæma gróðurþekjuna. Þetta gildir ekki aðeins um Biskupstungur heldur um alla afrétti sveitarfélaga landsins þar sem göngur og réttir hafa farið fram. Á þessum árum fyrir tæpri hálfri öld varð sauðfé einna mest og varð fáum að gagni nema ef vera skyldi SÍS veldinu.

Í þessu eina sveitarfélagi, Biskupstungnahreppi, eru því um eða yfir 300 dagsverk bundin við leitir á afréttunum oft við erfiðar aðstæður fjarri heimilum og fjölskyldum sínum? Og er þá undirbúningstími og nauðsynlegir aðdrættir fyrir tímafreka smölun afrétta ekki meðtalinn. Spurning er hversu mikill árangur er af þessu starfi um aldir?

Efasemdir og misjafnar áherslur

Árið 1969 eða fyrir réttri hálfri öld birtist mjög ítarleg ritgerð Guttorms Sigbjarnarsonar í Náttúrufræðingnum: Áfok og uppblástur. Þættir úr gróðursögu Haukadalsheiðar. Þessi ritgerð olli straumhvörfum meðal landsmanna. Þarna hafði íslenskur vísindamaður tekið fyrir vistfræðirannsókn og beitt vísindalegum aðferðum til að meta ástand vistkerfisins.

Af niðurstöðum sínum ritar Guttormur einhverja þá lengstu og vönduðustu vísindagrein um þetta efni sem fram að því hafði birst. Auðvitað höfðu náttúrufræðingar gert sér grein fyrir þessum vanda áður en nú hafði jarðfræðingur hvatt sér hljóðs með birtingu þessarar ítarlegu greinar byggðri á traustum og langtíma rannsóknum. Mörgum varð bylt við þó ýmsir hafi ritað um þetta efni nokkru fyrr. Hafði m.a. Hákon Bjarnason skógræktarstjóri bent á sama vandann, uppblásturinn á afréttum og eyðingu í Haukadal.ii Þá átti Hákon eftir að verða nokkru síðar öllu beinskeyttari í skrifum sínum eins og í Ársriti Skógræktarfélags Íslands 1942 í greininni, „Ábúð og örtröð“ sem mörgum varð brugðið. Í góðu lýðræðissamfélagi er eðlilegt að sumir taki þessum niðurstöðum með tortryggni en vonandi sem flestir með skilningi. Rætt var um hvað mætti gera og á þessum árum var uppgræðslustarf á vegum Landgræðslunnar hafið með góðum árangri með stórtækum vélum m.a. flugvélum. Greinir Tíminn þann 11.september 1977iii frá starfi landgræðslu- fólks á Haukadalsheiði sem þá hafði staðið í um áratug. En þetta gekk allt of hægt og höfðu margir landsmenn þá skoðun að verið væri að beita Landgræðslunni í þágu þeirra sem vildu bæta gróðurfar afréttarins í þágu sauðfjárbænda! Enn er Haukadalsheiði sem og öræfin sunnan við Langjökul eitt af erfiðari svæðum sem Landgræðslan hefur reynt að ná árangri en með misjöfnum árangri.

Mjög líklegt er að umrædd grein Guttorms í Náttúrufræðingnum hafi kveikt í huga Halldórs Laxness en á gamlársdag 1970 birtist ein af frægustu greinum hans um náttúruverndarmál í Morgunblaðinu: Hernaðurinn gegn landinu. Var hún mjög mikið lesin af landsmönnum öllum enda hefur Halldór verið með bestu greinahöfundum landsmanna. Hefur mjög oft verið vitnað í greinina enda átti hún mikinn þátt í að vekja landsmenn af löngum svefni um nauðsyn náttúruverndar. Fyrir réttri hálfri öld var Landvernd stofnuð, ein mikilvægustu samtök landsmanna sem taka á vettvangi nauðsynjar náttúruverndar á Íslandi. Þessi grein er því rituð í þágu landverndar og tileinkuð þeim mikilvægu félagasamtökum Landvernd í tilefni 50 ára afmælis.

Við höfum upplifað offramleiðslu á sauðfjárafurðum. SÍS veldið átti mikinn þátt í að þessi þróun varð. Með auknum birgðum tryggði SÍS sér áratugum saman nokkurn veginn fastan tekjustofn úr ríkissjóði enda hefur mörgum þótt sjálfsagt að sækja fé í opinbera sjóði landsmanna jafnvel þó það mikla fé gæti nýst betur við önnur verkefni. Er enn svo?

Spyrja má hvort ekki hefði verið hyggilegra á þessum árum að draga sem mest úr framleiðslu sauðfjárafurða og miða þá framleiðsluna við raunverulegar þarfir landsmanna? Fremur auðvelt hefði verið á þessum árum að leggja meira fé í skógrækt. t.d. með þeim mikla mannafla sem ella var sendur á afrétti vegna smalana á haustin og í upphafi vetrar. Unnt hefði verið að koma upp mjög mörgum og góðum beitarskógum á láglendi upp úr miðri síðustu öld þegar þekking og reynsla af trjárækt var orðin næg og meiri en áður var og góður árangur hafði komið í ljós.

Á Suðurlandi eru tugir þúsundir hektara lítt eða alls ekki nýttir við hefðbundinn landbúnað, helst að þessi landssvæði séu notuð sem beitarlönd. Hvers vegna ekki að þar séu beitarskógar? Sem leiðsögumaður þýskumælandi ferðamanna um Ísland bendi eg gjarnan erlendum ferðamönnum á þetta þar sem víða mætti nýta landið betur í þágu landsmanna. Frá einu skógríkasta landi Evrópu, Þýskalandi, hefi eg fengið hrós fyrir að benda á þetta. En svo virðist sem aldagömul viðhorf viðhaldi gömlum samfélagsháttum og komi í veg fyrir skynsamlega landnýtingu.

Sagt er að háttur heimskunnar sé að hverfa sem mest frá skynsamlegum rökum og viðurkenna þau alls ekki. Maldað er í móinn og alið er upp á aldagömlum háttum. Bent er oft á að þeir hafi haldið lífinu í þjóðinni. En liggur hundurinn þar grafinn? Um aldamótin 1900 var um 90% þjóðarinnar bundinn við landbúnaðar- störf en aðeins í bestu árum framleiddi þessi hluti þjóðarinnar nægt viðurværi handa öllum. Svo frumstæður var landbúnaður okkar sem lítið hafði breyst í meira en 10 aldir! Í dag eru aðeins 2-3% þjóðarinnar tengd landbúnaði og gætu tæknilega framleitt margfalt meira en þörf landsmanna er.

Það þótti sjálfsagt mál að sækja sem mest í náttúru landsins og taka meira en hún getur framleitt. Rányrkja var mörgum töm og menn gerðu sér ekki minnstu grein fyrir afleiðingum hennar. Svo var um Biskustungnaafrétt. Bændur héldu áfram að gjörnýta hann þó svo vitað væri að hann gæti aldrei borið sitt barr miðað við óbreytt ástand.

Að um eða yfir 300 dagsverk hafi farið í göngur á Biskupstungnaafrétti er að mörgu leyti furðulegt. Hvers vegna var ekki fljótlega upp úr miðri öldinni hafin meiri skógrækt á vegum sveitarfélaga þar sem lítt eða algjörlega vannýtt land á láglendi væri nýtt? Með þessu hefði mátt koma upp mjög víðáttumiklum og góðum beitarskógum þar sem kostnaði við smölun væri haldið í lágmarki. Hvarvetna í siðuðum löndum er búfé innan girðinga. Hér hefur það of lengi tíðkast að það ráfi sjálfala yfir sumartímann um lönd allra landsmanna, jafnvel þeirra sem vilja fá að vera í friði og vera frjálsir fyrir ágangi búfjár. Sum sveitarfélög hafa bannað lausagöngu búfjár og er það lofsvert. En þessi sveitarfélög mættu vera fleiri!

Ef aðeins nokkrum tugir dagsverka hefði verið varið í skógrækt fyrri árum hefði mátt koma upp mjög góðum og víðáttumiklum beitarskógum á Suðurlandi. Það er nægt land á Íslandi fyrir skóg og vaxandi skógrækt. Þó sjá sumir ofsjónum yfir þeim 2% sem þeir þekja nú á öllu Íslandi og telja skóg spilla útsýni á Íslandi!

Mætti biðja um minna útsýni sem nóg er af í landinu en meiri skóg og meira skjól sem okkur skortir mun meira!

Heimildir

Að hefta uppblástur og stuðla að landgræðslu. Tíminn, 11.09.1977. bls. 10-11.

Guttormur Sigbjarnarson. 1969. Áfok og uppblástur. Þættir úr gróðursögu Haukadalsheiðar. Náttúrufræðingurinn 39 (2): 68-118.

Halldór Laxness. 1970. Hernaðurinn gegn landinu. Morgunblaðið. 31.12.1970. Bls. 10-11.

Hákon Bjarnason. 1938. Friðun Haukadals í Biskupstungum. Morgunblaðið, 09.10.1938, bls. 3.

Oddgeir Guðjónsson, Jón Guðmundsson, Páll Lýðsson, Þórður Tómasson, Björgvin Salómonsson (ritnefnd). 1980. Sunnlenskar byggðir I. Búnaðarsamband Suðurlands, & Suðuramtsins hús- og bústjórnarfélög.

Tilvísanir

i Sunnlenskar byggðir, 1980, bls. 34.

ii Hákon Bjarnason, 1938, bls. 3

iii Tíminn, 1977, bls. 10.

Ert þú í Landvernd?

Taktu afstöðu með náttúrunni og gakktu í Landvernd