Ákall kennara til sveitastjórna um allt land – MENNTUN TIL SJÁLFBÆRNI

Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna kveða á um menntun fyrir alla og menntun til sjálfbærni. Grænfáninn er helsta innleiðingartæki menntunar til sjálfbærni í heiminum í dag, landvernd.is
Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna kveða á um menntun fyrir alla og menntun til sjálfbærni. Grænfáninn er helsta innleiðingartæki menntunar til sjálfbærni í heiminum í dag.
Áskorun kennara til sveitarstjórna um aukinn stuðning við menntun til sjálfbærni. Við skorum á þig að styðja við okkur skólafólkið og gera sveitarfélagið þitt að fyrirmynd annarra í loftslagsmálum og menntun til sjálfbærni.

Nokkrir kennarar sem sinna menntun til sjálfbærni og sóttu saman námskeiðið Höfum áhrif, menntun til sjálfbærni á unglingastigi sendu eftirfarandi áskorun til allra sveitarfélaga á landinu. Það er von okkar að aukin áhersla verði lögð á menntun til sjálfbærni og að sveitarstjórnarfólk sýni stuðning sinn í verki. 

Áskorun til sveitarfélaga – Menntun til sjálfbærni. Send 27. maí 2022

Staða loftslagsmála er grafalvarleg og við þurfum öll að grípa til aðgerða strax. Athafnir okkar mannanna hafa valdið mikilli aukningu á losun koltvísýrings og annarra gróðurhúsalofttegunda út í andrúmsloftið. Þetta veldur auknum öfgum í veðurfari, hækkun yfirborðs sjávar, bráðnun jökla og súrnun sjávar. Ófriður ríkir víða í heiminum og stríð og óvissuástand einkennir samtímann.

Á þessum viðsjárverðu tímum hefur borið á vaxandi loftslagskvíða í samfélaginu og rannsóknir sýna að börn og ungmenni eru mörg svartsýn á framtíðina.

Það er á ábyrgð okkar sem erum fullorðin að taka afstöðu og koma í verk aðgerðum sem tryggja friðsamlega framtíð okkar, og afkomenda okkar, hér á Jörðinni. Jörðin mun ekki fara neitt, en lífið á henni, okkar líf og lífsgæði byggja alfarið á jafnvægi vistkerfa og samfélaga á jörðinni.

Lausnin felst ekki í því að segja við börn og ungmenni: „Ykkar kynslóð leysir þennan vanda sem við erum komin í.“ Ábyrgðin er okkar og aðgerða er þörf án tafar.

Sveitarfélög bera ábyrgð á skólahaldi grunn- og leikskóla á Íslandi og geta því, með ákvörðunum sínum, gegnt lykilhlutverki í aðgerðum gegn hlýnun Jarðar.

Menntun til sjálfbærni valdeflir ungmenni

Meirihlutaviðræður fara fram um þessar mundir. Nýjar sveitastjórnir, og þær sem hafa endurnýjað umboð sitt, taka senn til starfa. Við undirrituð hvetjum sveitastjórnir á Íslandi til að leggja aukna áherslu á menntun til sjálfbærni á komandi tímum.

Menntun til sjálfbærni eykur færni og hæfni nemenda til að greina stöðu mála í umhverfi sínu og samfélagi og hjálpar þeim að hafa áhrif . Nemendur velta fyrir sér áskorunum sem blasa við mannkyninu og taka til aðgerða. Unnið er að verkefnum í heimabyggð með heiminn í huga (act locally, think globally). Menntun til sjálfbærni getur dregið úr loftslagskvíða nemenda. Verkefni sem leggja áherslur á lausnir og að endurhugsa framtíðina sýna að framtíðin getur verið björt og að við getum öll haft áhrif. Lausn flókinna vandamála kallar á samstarf allra, einstaklinga, stofnanna, fyrirtækja og stjórnvalda.

Markmiðið menntunar til sjálfbærni er að skapa réttlátan heim og framtíð þar sem fólk hefur jöfn réttindi og tækifæri

Sjálfbærni snýst um að skapa framtíð þar sem ekki er gengið svo á auðlindir jarðar að þær þverri og nái ekki að endurnýja sig. Sjálfbærni er auk þess einn af grunnþáttum menntunar í íslensku skólastarfi skv. Menntastefnu Íslands og er Ísland bundið af ýmsum alþjóðasamningum sem eiga að tryggja að nemendur á Íslandi hljóti menntun til sjálfbærni. Þar má helst nefna samning um heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna en markmið 4.7 kveður á um að öllum nemendum á Íslandi sé tryggð menntun sem eflir sjálfbæra þróun og alheimsvitund.

„4.7 Eigi síðar en árið 2030 verði tryggt að allir nemendur öðlist nauðsynlega þekkingu og færni til þess að ýta undir sjálfbæra þróun, meðal annars með menntun sem er ætlað að efla sjálfbæra þróun og sjálfbæran lífsstíl, með því að hlúa að friðsamlegri menningu, með mannréttindum, kynjajafnrétti, alheimsvitund, viðurkenndri menningarlegri fjölbreytni og framlagi menningar til sjálfbærrar þróunar.“

Sveitarfélög bera ábyrgð á skólastarfi í landinu

Við undirrituð vinnum við kennslu á menntun til sjálfbærni víða um land, á ólíkum skólastigum.

Skólamál eru á hendi sveitarfélaga og köllum við því eftir stuðningi þínum í þessu mikilvæga verkefni.

Við hvetjum þig til að setja menntun og menntun til sjálfbærni í forgang í þínu sveitarfélagi.

Þú getur hjálpað okkur að valdefla nemendur og þróa skólastarf með sjálfbærni að leiðarljósi með því að:

  • Tryggja að menntun til sjálfbærni sé til staðar í skólastefnu sveitarfélagsins
  • Styðja við þróunarstarf í skólum
  • Auka teymiskennslu og samþættingu í skólum
  • Tryggja fjármagn og tíma sem ætlaður er í menntun til sjálfbærni
  • Greiða kennurum laun fyrir allar unnar klukkustundir (m.a. fyrir faglega umsjón um menntun til sjálfbærni innan skólans).
  • Ryðja úr vegi hindrunum sem koma í veg fyrir þverfaglegt teymisnám.
  • Styðja markvisst við menntun til sjálfbærni á öllum skólastigum sem sveitarfélagið rekur.

Við kennarar getum valdeflt nemendur á þann hátt að þeir læri um stöðu mála og  um mikilvægi samvinnu við lausn flókinna verkefna.
Valdeflandi og upplýsandi menntun til sjálfbærni eykur færni nemenda til að takast á við breytilegan heim. Menntun til sjálfbærni felur í sér skapandi og greinandi nálgun sem er mikilvægur eiginleiki þegar tekist er á við illviðráðanleg vandamál.

Við skorum á þig að styðja við okkur skólafólkið og gera sveitarfélagið þitt að fyrirmynd annarra í loftslagsmálum og menntun til sjálfbærni.

 

heimsmarkmidin, landvernd.is

Dr. Ásthildur Jónsdóttir,  sjálfstætt starfandi fræðimaður

Dr. Brynhildur Bjarnadóttir, dósent við Háskólann á Akureyri

Brynja Stefánsdóttir, kennari í Stapaskóla í Reykjanesbæ

Elísa Sigurðardóttir, kennari í Grunnskóli Vestmannaeyja

Eva Harðardóttir, Aðjúnkt og doktorsnemi á sviði alþjóðlegrar borgaravitundar og menntunar í Háskóla Íslands

Hallbera Gunnarsdóttir, íþrótta- og útivistarfræðingur í Bláskógaskóla Laugarvatni í Bláskógabyggð,

Margrét Hugadóttir, vísindamiðlari og verkefnastjóri hjá Landvernd

Ninna Stefánsdóttir, kennari í Stapaskóla í Reykjanesbæ,

Ólöf Harpa Jósefsdóttir, kennari í Þelamerkurskóla í Hörgársveit,

Ragnheiður Borgþórsdóttir, kennari í Grunnskóla Vestmannaeyja.

Ert þú í Landvernd?

Taktu afstöðu með náttúrunni og gakktu í Landvernd