Alþingi klári náttúruverndarfrumvarp fyrir þinglok

Landvernd skorar á alþingismenn að ljúka umræðu um frumvarp til laga um náttúruvernd og kjósa um frumvarpið áður en þingi lýkur nú í vikunni.
Landvernd hefur sent alþingismönnum áskorun þar sem farið er fram á að Alþingi ljúki umfjöllun og kjósi um frumvarp til laga um náttúruvernd. Áskorunin fer hér á eftir.
 

Áskorun til alþingismanna vegna frumvarps til laga um náttúruvernd

Landvernd skorar á alþingismenn að ljúka umræðu um frumvarp til laga um náttúruvernd og kjósa um frumvarpið áður en þingi lýkur nú í vikunni.

Landvernd er í flestum atriðum sammála frumvarpinu og styður það í grundvallaratriðum. Frumvarpið felur í sér heildsteyptari og skýrari lagaumgjörð en við höfum áður haft um vernd íslenskrar náttúru. Samtökin fagna ýmsum nýmælum í lögunum og skerptum áherslum í sumum málaflokkum. Hér má nefna skýrari markmiðssetningu, kafla um meginreglur, aðlögun friðlýsingaflokka að alþjóðlegum viðmiðum, heimild til friðlýsingar heilla vatnasviða, viðbætur og breytingar á kafla um vernd jarðminja, vistkerfa, vistgerða og tegunda, kafla um framandi tegundir, akstur utan vega, vöktun náttúrunnar og bætt þvingunarúrræði stjórnvalda til að framfylgja lögunum.

Samtökin hafa jafnframt komið á framfæri ítarlegum athugasemdum sínum til umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis og hvetja alþingismenn til að kynna sér þær vel og taka tillit til þeirra.

Ert þú í Landvernd?

Taktu afstöðu með náttúrunni og gakktu í Landvernd