Alþjóðlegur Grænfánafundur í Dublin

Grænfáninn er veittur þeim skólum á grænni grein sem ná markmiðum sínum, landvernd.is/graenfaninn
Grænfánaverkefnið er í stöðugum vexti. Nú eru þátttökuskólar líklega á milli 30-40 þúsund, flestir í Evrópu. S.l. mánuð hafa nýjir skólar bæst í hópinn á Íslandi. Sigrún Helgadóttir verkefnisstjóri Grænfána Landverndar sótti nýlega árlegan fund Grænfánans í Dublin.

Dagana 5. og 6. desember var haldinn í Dublin á Írlandi árlegur fundur verkefnisstjóra um Grænfána. Fundinn sóttu 28 fulltrúar frá 22 löndum en örfáa fulltrúa vantaði. Grænfánaverkefnið er í stöðugum vexti. Nú eru þátttökuskólar líklega á milli 30-40 þúsund, flestir í Evrópu. Á fundinn í Dublin kom verkefnisstjóri frá Suður Afríku, þar eru komnir nokkrir grænfánaskólar. Líka kom fulltrúi frá Chile en þar er verið að undirbúa að hefja verkefnið.
Þann 4. desembar var þeim fulltrúum, sem vildu og gátu komið deginum fyrr, boðið að skoða tvo Grænfánaskóla. Það er alltaf fróðlegt að sjá hvað aðrir eru að gera. Stundum gefur það hugmyndir sem hægt er að nýta sér þegar heim er komið en oftar veitir það fyrst og fremst þá staðfestingu að á mörgum sviðum erum við ekki að gera síðri hluti en aðrir, oft miklu betri. Í svona stuttum heimsóknum sést auðvitað fyrst og fremst hinn ytri aðbúnaður, húsnæði og aðstaða, og þar erum við miklu betur sett en frændur okkar í Írlandi. Annað sem vekur athygli er prúðmennska barnanna, öguð framkoma og vel undirbúnar spurningar þeirra.

Ert þú í Landvernd?

Taktu afstöðu með náttúrunni og gakktu í Landvernd