Ert þú með góða hugmynd?
Hugmyndasamkeppni um Alviðru
Jörðin Alviðra í Ölfusi hefur verið sameiginleg eign Landverndar og Héraðsnefndar Árnesinga frá 1. febrúar 1973 þegar Magnús Jóhannesson bóndi í Alviðru afhenti þeim jörðina til eignar. Jörðinni fylgdu kvaðir um að ekki mætti skipta jörðinni upp undir sumarhús og að hún yrði nýtt til landgræðslu og náttúruverndar.
Landvernd leitar nú eftir hugmyndum félagsmanna og almennings um hvernig nýta megi Alviðru í þágu náttúru- og umhverfisverndar þannig að ákvæði Magnúsar séu virt. Hugmyndirnar þurfa að vera raunhæfar og sýna þarf fram á sannfærandi rekstrargrunn.
Þátttaka í hugmyndaleitinni er auðveld og opin öllum og viðurkenningar verða veittar. Hér á vefnum eru nánari lýsingar á jörðinni Alviðru og húsakosti þar og allar nauðsynlegar upplýsingar um fyrirkomulag hugmyndaleitarinnar og leikreglur sem þátttakendur þurfa að kynna sér.
Hugmyndum á að skila í síðasta lagi mánudaginn 1. maí 2017.
Þar sem Alviðra er í útleigu eru áhugasamt fólk beðið að sýna tillitssemi og ganga ekki á gestrisni íbúa utan skipulagðra skoðunartíma. Opið hús verður í Alviðru sunnudaginn 26. mars kl. 13-16. Þeir sem hyggjast nýta sér opið hús verða að skrá sig á skraning@landvernd.is í síðasta lagi 25. mars. Vinsamlega sendið nafn og síma.
Góða skemmtun!
Ítarefni
Markmið og forsendur
Hvaða hlutverki vilja félagsmenn Landverndar og aðrir að Alviðra gegni til framtíðar? Hvaða fjárhagslega sjálfbær starfsemi gæti farið þar fram sem uppfyllir markmið um náttúruvernd? Hvernig er best hægt að nýta nálægð við höfuðborgarsvæðið? Hvernig er best að nýta landgæði Alviðru? Hverju viljum við viðhalda á staðnum og hverju breyta? Hvernig geta fjölskyldur eytt uppbyggilegum degi eða dagparti í Alviðru og verið einhvers vísari um náttúruvernd?
Landvernd kýs að leita til félagsmanna og almennings í von um fjölbreytt og gagnleg svör við þessum spurningum. Hér á vefnum má sjá á hvaða formi hugmyndir skuli sendar inn, ásamt reglum um nafnleynd. Hugmyndaleitin er opin öllum og þátttakendur ráða því sjálfir hvert viðfangsefnið er, svo lengi sem það snertir markmið Landverndar og fellur að kvöðum jarðarinnar.
Veittar verða viðurkenningar fyrir athyglisverðustu hugmyndirnar að mati dómnefndar.
Þegar niðurstöður hugmyndaleitarinnar liggja endanlega fyrir munu stjórnir Landverndar og Alviðrustofnunar taka við þeim og fjalla um þær. Eftir þá umfjöllun verður hugsanlega kallað eftir nánari útfærslu og hönnun tiltekinnar hugmyndar og jafnvel gengið til samninga við viðkomandi hugmyndasmið(i).
Forsendur gjafar
Árið 1973 gaf Magnús Jóhannesson bóndi í Alviðru Landvernd og Sýslunefnd Árnessýslu jarðirnar Alviðru í Ölfusi og Öndverðarnes II í Grímsnesi. Þær kvaðir fylgdu gjöfinni að ekki mætti skerða jarðirnar, heldur skyldi varðveita þær samfelldar með landgræðslu og náttúruverndarsjónarmið fyrir augum. Búskapur væri heimill í Alviðru en ekki í Öndverðanesi II, sem friða bæri fyrir öllu búfjárhaldi og ekki skerða í neinu, svo sem með leigu lóða undir sumarbústaði, eins og það er orðað í gjafabréfi.
Jörðin Alviðra
Alviðra liggur undir Ingólfsfjalli vestan Sogsins öndvert við Þrastarlund í Grímsnesi. Jörðin er alls um 650 ha að stærð. Þar af er láglendi (<400 m), fjalllendi og ógróið land á Ingólfsfjalli. Í Alviðru rak Landvernd umhverfisfræðslusetur til ársins 2010 en þá hafði rekstrargrundvöllur brostið vegna efnahagsþrenginga og breyttra forsendna í grunnskólum landsins.
Starfsemi í Alviðru
Árið 1981 voru Alviðra og Öndverðarnes II gerð að sjálfseignarstofnun undir nafninu Alviðra, landgræðslu- og náttúruverndarstofnun. Þar var boðin náttúru- og umhverfisfræðsla af ýmsu tagi, einkum fyrir grunnskólabörn sem ýmist komu þar í dagsferð eða til næturgistingar. Alviðra var einnig nýtt til fullorðinsfræðslu og var hægt að hýsa þar allt að 30 manns.
Rekstur Alviðru var fremur þungur alla tíð og í efnahagshruninu á árunum 2008–2009 datt botninn endanlega úr starfseminni þegar skólar og sveitarfélög treystu sér ekki lengur til að kosta ferðir skólabarna að Alviðru. Frá þeim tíma hefur lítil sem engin fræðslustarfsemi verið rekin þar. Fram að þessu hafa veiði- og leigutekjur þó nokkurn veginn staðið undir kostnaði við rafkyndingu og lágmarksviðhald húsakosts í Alviðru.
Ástand húsakosts
Það er mat eigenda að ekki sé unnt eða forsvaranlegt að hefja aftur rekstur umhverfisfræðsluseturs á Alviðru nema með gagngerri endurbyggingu húsakosts þar, m.a. vegna aukinna krafna um heilnæmt húsnæði og brunavarnir. Í raun verður meiriháttar viðhald ekki umflúið öllu lengur sé einungis miðað við varðveislu íbúðarhússins.
Verkfræðistofan Efla gerði haustið 2016 úttekt á kostnaði við lagfæringu á ytra byrði og sökkli íbúðarhúss Alviðru. Efla mat einnig kostnað við einangrun og frágang hlöðu þannig að hún gæti nýst fræðslusetri. Niðurstaða þessarar matsvinnu var að endurnýjun á ytra byrði íbúðarhúss mundi kosta um 17 mkr og einangrun hlöðu um 23 mkr.
Sala jarðarinnar
Stjórn Alviðrustofnunar hefur látið fara fram lögfræðilegt mat á því hvort heimilt sé að selja Alviðru þriðja aðila. Niðurstaða þess mats er að þetta sé heimilt að því gefnu að kvaðir um landgræðslu og náttúruvernd séu uppfylltar og að stjórn Alviðrustofnunar verði áfram eftirlitsaðili með starfsemi þar.
Skil hugmynda
Hver þátttakandi getur skilað inn eins mörgum hugmyndum og hann vill en þá þarf að búa um hverja fyrir sig eins og frá greinir hér að neðan; hver hugmynd þarf að hafa sitt auðkennisnúmer, hverri hugmynd þarf að fylgja umslag með nafni þátttakandans o.s.frv.
- Hugmyndum skal skilað á venjulegum hvítum prentpappír á fleti sem samsvarar að hámarki fjórum blöðum af stærð A4, eða á tveimur A3 blöðum sem brotin eru í miðju, eða einu A2 blaði sem brotið er í miðju á báða vegu.
- Aðeins sé notuð önnur hliðin á hverju blaði, bakhliðin auð.
- Texti, þ.m.t. við merkingar og myndskýringar, má ekki vera lengri en 600-800 orð og letur má ekki vera smærra en 12 punktar. Textinn á að vera á íslensku.
- Röð blaða sé sýnd á hverju blaði með blaðsíðutali og heildarfjölda , t.d. 3/4 eða 1/2. Þetta er óþarft ef tillögu er skilað á einu A2 blaði.
- Þátttakandi velur tillögunni sex tölustafa auðkennisnúmer. Þetta númer þarf að koma fram á öllum innsendum blöðum en engar upplýsingar sem gefa til kynna hver höfundur hugmyndarinnar er. Númerið á að líta út fyrir að vera tilviljunarkennt, ekki t.d. 123456 eða 111111.
- Þátttakandi skrifar nafn sitt, kennitölu, símanúmer og netfang á blað (nafnseðil) og setur í ógegnsætt umslag. Utan á umslagið skrifar hann sama sex tölustafa auðkennisnúmerið og er á blöðunum.
- Hugmyndinni sjálfri og lokaða umslaginu með persónuupplýsingum er komið fyrir í sama A4 umslaginu.
- Skila þarf þremur samhljóða eintökum af hugmyndinni (þ.e. þremur A4 umslögum), einu fyrir hvern dómnefndarmann.
Þátttakendur eru hvattir til að lýsa hugmyndum sínum bæði í máli og myndum. Hentugt kann að vera að vinna ofan í kort og myndir sem finna má í gagnasafni hugmyndaleitarinnar. Blaðstærðir A3 og A2 henta sérstaklega ef þátttakandi vill sýna uppdrátt eða annað myndefni á stærri samfelldum fleti en A4.
Þátttakendur eru hvattir til að gefa hugmynd sinni nafn eða titil sem komi greinilega fram á blöðunum.
Skilastaður
Hugmyndum ber að skila póstsendum eða boðsendum til Landverndar. Mikilvægt er að utanáskriftin sé rétt og að orðið „Hugmyndaleit Alviðru“ komi fyrir:
Landvernd
Hugmyndaleit Alviðru
Þórunnartúni 6
105 Reykjavík
Frestur er útrunninn
Síðasti skiladagur er föstudaginn 21. apríl 2017. Póstsendar hugmyndir þurfa að vera póststimplaðar í síðasta lagi þann dag.
Höfundarréttur og birting hugmynda
Höfundar tillagna halda höfundarrétti sínum á innsendum hugmyndum eftir almennum reglum, óháð því hvaða brautargengi hugmyndirnar fá. Landvernd áskilur sér rétt til að halda eftir einu eintaki af innsendum blöðum og gera af þeim rafrænt afrit (skönnun) en skilar hinum til höfundar ef eftir því er óskað sérstaklega.
Landvernd áskilur sér rétt til að sýna allar tillögur sem berast, hvort sem þær fá viðurkenningu eða ekki. Sýning getur verið á vefnum eða með hefðbundnum hætti. Höfundar verður ætið getið þegar hugmyndir eru sýndar.
Dómnefnd og viðurkenningar
Viðurkenning verður veitt fyrir áhugaverðar og vel unnar hugmyndir að mati dómnefndar. Val dómnefndar mun gefa gott sýnishorn af hugmyndaauðgi og útfærslu þátttakenda.
Dómnefnd metur innsendar hugmyndir með tilliti til eftirtalinna þátta:
- Náttúruverndargildi (hversu vel fellur hugmynd að stefnu Landverndar og þeim kvöðum sem á jörðinni hvíla) – hámark 15 stig
- Raunhæfni (hversu auðvelt er að hrinda hugmynd í framkvæmd) – hámark 5 stig
- Hagkvæmni (er líklegt að hugmynd standi undir sér fjárhagslega) – hámark 5 stig
- Frágangi (m.a. uppsetningu og skýrleika) – hámark 3 stig
- Frumleika – hámark 2 stig.
Dómnefnd skipa:
Árni Bragason, landgræðslustjóri
Sigrún Helgadóttir, náttúrufræðingur
Þröstur Eysteinsson, skógræktarstjóri
Veittar verða viðurkenningar fyrir efstu þrjú sætin.
1. verðlaun: Ferðafélag Íslands gefur sumarferð að eigin vali fyrir tvo.
2. verðlaun: Ferðafélagið Útivist gefur Pelmo gönguskó sem eru frábærir í allar göngur.
3. verðlaun: Gisting fyrir allt að sex manns eina helgi í ágúst í veiðihúsinu í Alviðru.
Spurt og svarað
Mega allir taka þátt, líka börn og útlendingar?
Já, hugmyndaleitin er opin öllum en texti á innsendum hugmyndum á að vera á íslensku.
Má ég senda inn margar hugmyndir?
Já, en það þarf að vera um þær búið eins og þær væru hver frá sínum þátttakandanum. Sjá nánar kafla um Skil hugmynda.
Mega hópar taka sig saman um hugmynd og senda inn í nafni hópsins?
Já, en tilgreina þarf einn tengilið sem hægt er að hafa samband við.
Mín hugmynd felur í sér róttækar breytingar. Getur slík hugmynd gengið?
Í kaflanum Dómnefnd og viðurkenningar kemur fram hvað dómnefnd hefur til viðmiðunar og kaflinn Markmið og forsendur greinir frá því sem eftir er leitað. Engar hugmyndir eru útilokaðar.
Má leggja til breytingar á mannvirkjum?
Það er ekkert því til fyrirstöðu, enda sýni hugmyndin hvað vinnst við breytingarnar og þær séu í samræmi við viðmiðanir dómnefndar.
Ég er ekki sérlega drátthagur og kann ekki á nein fín teikniforrit. Á ég þá nokkurn möguleika?
Áhugaverð og skýr framsetning skiptir máli en dómnefnd mun ekki síður taka tillit til þeirrar alúðar og natni sem lögð er í framsetningu hugmyndarinnar. Hafa ber í huga að efnislegt innihald hugmyndarinnar skiptir mestu máli.
Má hugmyndin vera um eitthvert eitt afmarkað atriði?
Já, það er ekkert því til fyrirstöðu. Hugmyndir geta verið um eins þröngt eða vítt viðfangsefni og þátttakendur kjósa sjálfir.
Ég er með spurningu sem ekki er svarað hér; hvert á ég að leita?
Ef spurningar vakna er hægt að hafa samband á Landvernd í síma 552 5242.
Get ég lagt til að kaupa jörðina til að hrinda hugmynd í framkvæmd?
Já, en eins og fram kemur í kaflanum Markmið og forsendur haldast kvaðir sem á jörðinni hvíla við sölu.
Þarf maður að skrá sig til þátttöku?
Nei, aðeins senda inn hugmynd.