Ályktanir samþykktar á aðalfundi Landverndar 2019

Teigsskógur er einstakt svæði þar sem náttúrulegur birkiskógur mætir fjöru, landvernd.is
Ályktanir um víðerni landsins, aðgerðir í loftslagsmálum, miðhálendisþjóðgarð, hvalveiðar, orkusparnað og orkunýtni og hringrásarhagkerfi voru samþykktar á aðalfundi Landverndar 2019.

Verndum víðerni landsins

Aðalfundur Landverndar skorar á umhverfis- og auðlindaráðherra að friðlýsa Drangajökulsvíðernið og standa óhagganlegan vörð um önnur óbyggð víðerni Íslands; tryggja þarf að ekki verði gengið á þau víðerni sem eftir eru og stuðla að endurheimt þeirra sem glatast hafa.

Óbyggð víðerni eru á hröðu undanhaldi í heiminum. Þetta á ekki síst við um þéttbýl svæði á borð við Vestur Evrópu. Árið 2013 var lagt heildarmat á umfang víðerna í Evrópu og þau greind í flokka eftir því hversu „villt“ þau væru[1]. Stærð svæða sem talin voru tilheyra villtasta eina prósentinu var metið 56.810 km2 í Evrópu allri en þar af eru 24.063 km2 að finna á Íslandi[2]. Þetta sýnir betur en margt annað hversu fágæt gersemi íslensku víðernin eru. Víðernin okkar eiga undir högg að sækja og þarfnast sannarlega verndar og öflugs stuðnings stjórnvalda.

Óbyggð víðerni á Íslandi sem uppfylla viðmið um lágmarksstærð eru um 50 talsins en almennt gildir um víðerni að verðmæti þeirra eykst með stærð. Víðernin umhverfis stóru jöklana fjóra á miðhálendinu eru þau umfangsmestu á landinu en meðal stærstu víðerna utan miðhálendisins er Drangajökulsvíðernið frá Ófeigsfjarðarheiði norður um Hornstrandir, alls um 1.430 km2, eða 1,4% af flatarmáli Íslands.

Að Drangajökulsvíðerninu er nú hart sótt af fyrirtækinu HS Orku, sem er í meirihlutaeigu erlends stórfyrirtækis. Fyrirhuguð Hvalárvirkjun ásamt línu yfir Ófeigsfjarðarheiði mun skerða Drangajökulsvíðernið um allt að 40% og ef tvær aðrar fyrirhugaðar virkjanir HS Orku á svæðinu, Skúfnavatnavirkjun og Austurgilsvirkjun, verða að veruleika mun þetta mikla víðerni hafa skroppið saman um 785 km2 (55%) og verður komið niður í aðeins 650 km2, sbr meðf. kort.

Kort af Ófeigsfjarðarheiði

Kort af fyrirhuguðu iðnaðarsvæði á Ófeigsfjarðarheiði. © Snæbjörn Guðmundsson, 2019

Stór víðerni á miðhálendinu, m.a. upptökukvíslar jökulsánna í Skagafirði norður af Hofsjökli og svæði meðfram Skjálfandafljóti, eru líka í hættu ef tillaga verkefnisstjórnar 3. áfanga rammaáætlunar um friðlýsingu þessara stórfljóta verður ekki samþykkt af Alþingi.

Röskun ofannefndra víðerna yrði gegn heildarhagsmunum þjóðarinnar.

Árangursríkar aðgerðir í loftslagsmálum

Aðalfundur Landverndar 2019 skorar á íslensk stjórnvöld að lýsa yfir neyðarástandi vegna loftslagsbreytinga.  Þá verður að útfæra aðgerðaáætlun í loftslagsmálum með tölulegum og tímasettum markmiðum. Hún verður að ná til allra sviða samfélagsins í takt við alvarleika vandans.

Greinagerð:

Nokkur lönd hafa nú þegar lýst yfir neyðarástandi vegna loftslagsmála og Ísland þarf að gera það sama. Losun gróðurhúsalofttegunda frá Íslandi eykst hratt og er mun meiri á hvern íbúa landsins en í nágrannalöndunum. Ríkisstjórn Íslands  sendi frá sér aðgerðaáætlun í loftslagsmálum síðastliðið haust. Áætlunin er mikilvægt skref í baráttunni. Hún gengur hins vegar alls ekki nógu langt; er ómagnbundin, án tímasettra markmiða og einskorðast við of fáa samfélagsgeira

Grípa þarf til mun hraðari og víðtækari samdráttar í losun fyrir 2030 ef markmið um kolefnishlutleysi 2040 eiga að nást. Með því að setja töluleg og tímasett markmið fyrir öll svið samfélagsins er fyrst mögulegt að ná samdrætti í losun og  kolefnishlutleysi.

Stjórnvöld þurfa að setja skýran ramma og áætlun um hvernig það á að gerast. 

Dæmi um aðgerðir sem eru vel gerlegar og skila skjótum samdrætti í losun eru:

  • Kolefnisgjald  – 10% af fjargjaldi hvers farþega með alþjóðaflugi og 3000 kr/farþega með skemmtiferðaskipi sem kemur til landsins.  Skatturinn fari beint í verkefni um kolefnisbindingu, t.d. endurheimt votlendis á Íslandi.
  • Lífeyrissjóðir og aðrir stærri fjárfestingarsjóðir, skuldbindi sig til að allar fjárfestingar þeirra til næstu fimm ára standist markmið Parísarsáttmálans. Loftslagsvænar fjárfestingar (Paris proof fjárfestingar) verði skylda fyrir alla opinbera sjóði.
  • Kolefnisgjald  á bensín og dísel verði aukið til 2021og féið eyrnamerkt bættum almenningssamgöngum og öðrum vistvænum samgöngukostum eins og borgarlínu.
  • Að sala á nýjum dísel og bensínbílum verði bönnuð frá 2023 og að bíleigendur verði hvattir til þess að breyta bílum sínum í metanbíla með nauðsynlegum hvötum.
  • Að fyrirtæki þurfi fyrir 2022 að meta losun gróðurhúsalofttegunda frá starfseminni með viðurkenndum hugbúnaði og að þau greiði kolefnisgjald samkvæmt því. Kolefnisgjaldið renni til loftslagsverkefna eða til hækkunar persónuafsláttar.
  • Að innlend matvælaframleiðsla stuðli að loftslagsvænni landnotkun og neyslu. Endurskipuleggja styrkjakerfi í landbúnaði þannig að bændur geti haft búsetu og atvinnu á býlum sínum en dregið verði úr framleiðslu dýraafurða um 40% til 2030 Framleiðsla á matvælum úr plöntum stórefld með framleiðslustyrkjum og dregið úr innflutningi. 
  • Að vistvænt skipulag verði haft að leiðarljósi í þéttbýlum og sveitarfélög skylduð til þess að meta loftslagsáhrif af sinni skipulagsgerð.
  • Að gerðar verði mun strangari  kröfur til stóriðju varðandi að draga úr sinni losun, t.d með því að nýta betri framleiðsluferli. Fyrirtæki í stóriðju verði skyldug til þess að kolefnisjafna sína losun þrátt fyrir að sú losun sé hluti af ETS kerfinu.
  • Að allar bílaleigur verði skuldbundnar til þess að kaupa eingöngu inn vistvæna bíla frá 2022
  • Að notkun á hagvexti sem mælikvarða fyrir velsæld samfélagsins verði hætt og raunhæfari mælikvarðar teknir upp (eins og SPI)

Stuðningur við þjóðgarð á miðhálendinu

Aðalfundur Landverndar 2019 lýsir eindregnum stuðningi við stofnun þjóðgarðs á miðhálendi Íslands. Landvernd hvetur stjórnvöld til dáða og telur að umræddur þjóðgarður verður landi, þjóð og ófæddum kynslóðum til heilla.

Greinargerð:

Ósnortin víðerni eru þverrandi auðlind á heimsvísu. Hálendi Íslands er mikill fjársjóður og þeir sem eru uppi nú á dögum eiga ómetanlegt tækifæri til þess að varðveita það fyrir komandi kynslóðir Íslendinga og jarðarbúa. Þetta tækifæri ber okkur að nota. Landvernd vísar í ályktun fyrri aðalfunda t.d. 2012 um málið.

Til frekari rökstuðnings er gott að leita í smiðju skálda því skáldið er tilfinning heimsins. Það skáld sem fegurst hefur ort um íslenska náttúru síðan Jónas Hallgrímsson leið er Jóhannes úr Kötlum. Í ljóði hans Jarðerni kristallast afstaða margra til móður náttúru.

Af þér er ég kominn undursamlega jörð

eins og ljós skína augu mín á blóm þín

eins og snjór lykja hendur mínar um grjót þitt

eins og blær leikur andardráttur minn um gras þitt

eins og fiskur syndi ég í vatni þínu

eins og fugl syng ég í skógi þínum

eins og lamb sef ég í þínum mó

Að þér mun ég verða undursamlega jörð

eins og sveipur mun ég hverfast í stormi þínum

eins og dropi mun ég falla í regni þínu

eins og næfur mun ég loga í eldi þínum

eins og duft mun ég sáldrast í þína mold.

Og við munum upp rísa undursamlega jörð.

Ísland banni hvalveiðar

Aðalfundur Landverndar 2019 skorar á sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að vinna að því að hvalveiðum verði hætt.

Greinagerð:

Ekki hefur verið gerð viðunandi úttekt á efnahagslegum, umhverfislegum og samfélagslegum forsendum hvalveiða á Íslandi, það er, á raunverulegri sjálfbærni veiðanna.  Ekki eru opnir markaðir fyrir hvalkjöt í heiminum og óvissa ríkir um áhrif hvalveiða á starfssemi hvalaskoðunarfyrirtækja og önnur fyrirtæki í ferðaþjónustu.  Kolefnisspor hvalveiða er töluvert auk þess sem hvalir eru mikilvægur hlekkur í vistkerfi sjávar.  Áhrif af hvalveiðum á alþjóðasamstarf og ímynd Íslendinga geta verið mjög skaðleg. Hvalveiðar eru ósjálfbærar og þeim ber að hætta þegar í stað.

Þá eru vinnubrögð sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra við reglugerðarbreytingar um hvalveiðar og útgáfu leyfa til hvalveiða ekki í takt við góða, skilvirka, opna og nútímalega stjórnsýslu.

Orkusparnaður og orkunýtni

Aukinn orkunýtni er lykill að árangri varðandi loftslagsvandann og náttúruvernd.  Aðalfundur Landverndar 2019 skorar á orkustefnunefnd að setja orkunýtni og orkusparnað í forgang við mótun orkustefnu fyrir Ísland.

Greinagerð:

Orkusparnaður er lykilþáttur í sjálfbærri orkunotkun og skiptir sköpum fyrir árangur í loftslags- og náttúruverndarmálum. Mikilvægt er að skilgreina hóflega orkuþörf til lengri tíma til að ekki sé farið í óþarfa rask á náttúru og víðerni Íslands.

Orkunotkun á hvern íslending er mun hærri en á íbúa í öllum öðrum löndum í heiminum. Hér er því mikilvægt að staldra við og nýta betur þá orku orku sem við erum nú þegar að  framleiða.

Mikilvægt er að fyrirtæki sem eru stórnotendur raforku, fari í markvissar aðgerðir til að draga úr notkun og auka orkunýtni í framleiðsluferlum sínum, t.d. með endurnýtingu afgangsvarmaorku yfir í raforku.

Auka verður orkusparnað í byggingum, bæði nýbyggingum og eldri byggingum t.d. með hertum orkukröfum í byggingarreglugerðum. Auka þarf fræðslu og styrki til að stuðla almennt að aukinni orkunýtni í byggingum.

Virkir hvatar fyrir hringrásarhagkerfið

Landvernd skorar á ríkisstjórnina að gera úttekt á því hvernig íslenskt samfélag geti færst nær hringrásarhagkerfi. Sem fyrsta aðgerð krefst Landvernd þess að virðisaukaskattur á viðgerðum verði felldur niður og að átak verði gert í menntun og fræðslu á viðgerðum.

Í dag er urðun í jörðu endastöð þúsunda tonna af dýrmætum efnaauðlindum sem ættu að vera endurnýttar eða endurunnar.  Hringrásarhagkerfið er kerfi þar sem öll framleiðsla er hugsuð með hringrás efna í huga og úrgangur að mestu hannaður út.

Til þess að hringrásarhagkerfi geti orðið að veruleika þarf að stýra markaðnum með hvötum og kröfum, breyta framleiðsluferlum og hugsunarhætti neytenda.

Við þurfum að draga verulega úr myndun úrgangs, hvetja til endurnotkunar, hvetja til viðgerða og viðhalds, hvetja til endurvinnslu og hanna nýjar vörur og þjónustu með hringrás í huga.

Í dag er engin raunveruleg virk hvatning í átt að hringrásarhagkerfi til staðar, hvorki fyrir framleiðendur, seljendur eða neytendur.  

VIÐBÓTARTILLAGA 1

Til þess að ná markmiðum Íslands í minnkun CO2 fyrir 2030 verði gerð fjárhags- og framkvæmdaáætlun á vegum ríkisins og veitt nægu fé úr ríkissjóði til að sá árangur náist, sem stefnt er að.

Verkefnum í þessari áætlun verði raðað þannig að fyrst verði ráðist í þau, sem gefa mesta minnkun CO2 fyrir hverja milljón kr. sem í verkið er varið. Þau verkefni, sem að öllum líkindum lenda þá fremst í framkvæmdaröðinni tengjast þéttingu byggðar þar sem þar næst CO2 minnkun með negatífum nettó kostnaði.

VIÐBÓTARTILLAGA 2

Aðalfundur Landverndar 2019 skorar á Umhverfis- og auðlindaráðherra að beita sér fyrir því að Lögum um MÁU verði breytt þannig að gildistími verði 5 í stað 10 ára.

VIÐBÓTARTILLAGA 4

Aðalfundur Landverndar hvetur Alþingi til að samþykkja ekki frumvarp um svonefndan

Þjóðarsjóð nema að frumvarpinu verði breytt þannig að sjóðnum verði varið til aðgerða til að draga úr loftslagsáhrifum íslensks samfélags.

VIÐBÓTARTILLAGA 5

Aðalfundur Landverndar fer fram á að stjórnvöld hætti við fyrirhugaða stækkun Keflavíkurflugvallar vegna umhverfisáhrifa.


[1] A.T. Kuiters, M. van Eupen, S. Carver, M. Fisher, Z. Kun & V. Vancura, 2013. Wilderness register and indicator for Europe. Alterra, Wildland Research Institute, PanParks

[2] Sjá röð greina eftir Snæbjörn Guðmundsson í Kjarnanum febrúar til mars 2019: https://kjarninn.is/skodun/2019-02-15-drangajokulsviderni-og-villtasta-prosentid/; https://kjarninn.is/skodun/2019-03-04-sogur-af-sjalfbaerni/; https://kjarninn.is/skodun/2019-03-07-idnadarsvaedid-ofeigsfjardarheidi/

 

Lesa ályktanir Landverndar

Ert þú í Landvernd?

Taktu afstöðu með náttúrunni og gakktu í Landvernd