Ályktun um tilraunaverkefni um verndun menningarumhverfis landslags

Það er augljóst að of seint er að hugsa um varðveislu menningar á svæðum, sem þegar eru komin í eyði, horfin menning verður aldrei endurvakin. Því verður að hefjast handa, þar sem mannlíf er ennþá fyrir hendi.

Stjórn Landverndar tekur undir samþykkt norrænu ráðherranefndarinnar 12. nóvember 1996 um framkvæmdaáætlun um verndun menningarumhverfis. Beinir stjórnin þeirri eindregnu áskorun til ríkisstjórnarinnar að gera nú þegar markvisst átak til að hefja framkvæmd hennar hér.

Stjórnin bendir í því sambandi sérstaklega á Árneshrepp á Ströndum, þar sem í því afmarkaða byggðarlagi hafa á liðnum öldum verið stundaðir þeir atvinnuhættir til lands og sjávar, sem sýna glögga mynd af lífsbaráttu genginna kynslóða. Þar er ennþá lifandi mannlíf sem forsenda fyrir varðveislu menningararfsins. Engu að síður er ljóst, að engan tíma má missa til að glata ekki tækifærinu til að fá íbúa byggðarlagsins til aðstoðar og samstarfs við það verkefni.

Greinargerð

Í framkvæmdaáætlun, sem Norræna ráðherranefndin samþykkti 12. nóv. 1996, er lögð áhersla á verndun menningarminja og setja þannig þriðja hjólið undir umhverfisvagninn eins og Ragnar Frank Kristjánsson, fulltrúi Íslands í verkefnahópnum sem undirbjó áætlunina, segir.

Hingað til hefur verið lögð áhersla á verndun náttúru annars vegar og mengunarmál hins vegar og er að verða almennur skilningur á, að lífsnauðsynlegt er að koma þróun þeirra á farsæla braut.

Með þriðja þættinum, menningararfinum, er átt við menningarminjar í landslagi, þ.e. söguminjar við ströndina (verbúðir, uppsátur, vita o.s.frv.), hefðbundinn landbúnað þeirrar tíðar, hlunnindabúskap og mannlífið, sem aðlagaði sig aðstæðum og lifði af landsins gæðum. Í framkvæmdaáætluninni er sérstaklega bent á eftirfarandi áherslusvið:

– Sérstöðu og lífskraft norrænnar strandmenningar.

– Menningarverðmæti landbúnaðarsvæða.

– Ferðaþjónustu og afþreyingu í menningarumhverfinu.

– Norðurlönd í alþjóðlegu samstarfi.

Hér er um að ræða afar umfangsmikið verkefni og því nauðsynlegt að finna sér afmarkað svið til að hefjast handa við fyrsta skrefið, þar sem fengist þá mikilvæg reynsla og hvatning til að halda áfram. En á hverju skal byrja?

Það er augljóst að of seint er að hugsa um varðveislu menningar á svæðum, sem þegar eru komin í eyði, horfin menning verður aldrei endurvakin. Því verður að hefjast handa, þar sem mannlíf er ennþá fyrir hendi.

Í framkvæmdaáætlun Norðurlandaráðs er sagt að markmiðið sé að stuðla að varðveislu norrænnar strandmenningar með því að draga fjölbreytileika hennar og ríkidæmi fram í dagsljósið og þar verði unnið samkvæmt þeirri meginreglu að setja markið eins hátt og aðstæður leyfa. Það er þáttur í að varðveita menningarumhverfið, sameiginlegan menningararf Norðurlanda, sem grundvöll sjálfbærrar þróunar til langs tíma.

Vegna menningarlegs gildis landbúnaðarsvæða þarf að skapa grundvöll fyrir breyttum viðhorfum til jarðræktarumhverfis og þróunar sveitanna. Þegar jarðir fara í eyði tekur órækt og hnignun við. Þar má nefna fjalla- og heiðabýli og staði við sjávarsíðu og inni í fjörðum, þar sem víða er bæði stundaður búskapur og fiskveiðar.

Þegar lesnar eru þessar setningar úr framkvæmdaáætluninni, sem hér er vitnað til, og ýmislegt fleira sem þar stendur, höfðar þar margt til Árneshrepps á Ströndum. Þar var um aldir lifað af fjölbreyttum landkostum og hlunnindum lands og sjávar. Auk hefðbundins landbúnaðar má nefna rekasæld, fuglatekju, selveiði og fiskveiðar, þar á meðal hákarlaveiði. Og á fyrri hluta þessarar aldar voru reistar tvær síldarverksmiðjur í hreppnum, í Ingólfsfirði og Djúpuvík, sem ennþá standa miklar leifar af. Enn lifir og starfar í sveitinni fólk, sem man og tók þátt í vinnubrgöðum sem lítt höfðu breyst um aldir.

Í Árneshreppi hefur því þróast í aldanna rás merkilegt samfélag og íbúar þar voru á fimmta hundrað árið 1940. Nú eru þeir aðeins um áttatíu og vegna grisjunar byggðar á þessum slóðum er nú orðin nærri 100 km fjarlægð til næsta byggðarlags og leiðin þangað á landi getur lokast marga mánuði á veturna vegna snjóa. Það er því ljóst, að bregðast þarf skjótt við, ef takast á að koma í veg fyrir algjöra eyðingu byggðarinnar. Fari svo mun sú menning, sem þar hefur dafnað, hverfa algjörlega og verður aldrei endurvakin. Þar með yrði þjóðin öll fyrir óbætanlegu tjóni, því að slík endalok eru ekki fyrst og fremst áfall fyrir fólkið, sem býr þar enn, heldur íslenska menningu og sögu.

Það er því verkefni og skylda þjóðfélagsins að gera það, sem í mannlegu valdi stendur, til að koma í veg fyrir slíkt. Það á því ekki að gerast með þeim hugsunarhætti að spyrja, hvað þurfi að gera fyrir íbúana, heldur hvað þjóðfélagið geti gert til að fá íbúana þar til að vinna með sér að björgunarstarfinu áður en tækifærið glatast.

Það er vaxandi skilningur á verndun íslenskrar náttúru, gamalla bygginga og annarra fornra minja og flestir orðnir sammála um, að auknu fjármagni til þeirra verkefna er vel varið. Takmarkaður skilningur hefur hins vegar verið á varðveislu mannlífs og lifandi menningar heilla byggðarlaga. Vissulega hafa úrræði þjóðfélagsins til þeirra hluta verið takmörkuð lengst af, en nú er tæknin sífellt að veita nýja möguleika á því sviði eins og öðrum.

Ríkisvaldið, undir forystu umhverfisráðuneytisins, þarf því nú að láta hendur standa fram úr ermum þegar í stað til að vinna að þessu verkefni. Í því skyni verði skipuð fámenn framkvæmdanefnd fulltrúa ríkisvalds og íbúnna, sem fái það veganesti, að viðkomandi ríkisstofnanir skuli veita henni lið við úttekt og aðgerðir í einstökum málaflokkum. Að sjálfsögðu hlýtur slík vinna að taka nokkurn tíma. Því skiptir máli, að bæði íbúar og framkvæmdanefnd fái engu að síður strax tilfinningu og sönnun með einhverjum raunhæfum aðgerðum fyrir því að hugur fylgi máli. Það má sjálfsagt nefna ýmislegt, sem kæmi fljótt til greina, svo sem beingreiðslur út á alla kindakjötsframleiðslu í hreppnum, fullkomin búnað til fjarnáms undir handleiðslu kennara í heimaskóla, sem veitti nemendum möguleika til að fá ekki lakari kennslu en gerist í öðrum skólum til loka grunnskóla eða jafnvel lengur, bættar aðstæður til fiskveiða og vinnslu o.s.frv.

Á þetta yrði litið sem tilraunaverkefni, ekki til að koma upp lifandi safni, enda væri slíkt fyrir fram dauðadæmt, heldur til að viðhalda frjóu og lifandi mannlífi, sem um leið gæti á mörgum sviðum verið lærdómsríkt bæði fyrir okkur hér á landi og einnig sem framlag okkar í erlendu samstarfi. Með tilliti til hins vaxandi áhuga, sem m.a. er fyrir mannlíf á norðurslóðum, mætti ætla að unnt yrði að fá til samstarfs ýmsar erlendar stofnanir til að veita því stuðning og fá um leið kærkomið tækifæri til að fylgjast með framvindu þess.

Ályktun samþykkt á Aðalfundi Landverndar Staðarflöt í Hrútafirði 30. og 31. október 1998.

Ert þú í Landvernd?

Taktu afstöðu með náttúrunni og gakktu í Landvernd