Arnþór Garðarsson – minningarorð

Arnþór Garðarsson
Arnþór Garðarsson, prófessor emeritus, er fallinn frá. Hann var bæði öflugur fræðimaður og baráttumaður í náttúruvernd.

Arnþór Garðarsson, prófessor emeritus, er látinn 83 ára að aldri. Hann var bæði öflugur fræðimaður og baráttumaður í náttúruvernd. Hann tengdist Landvernd sterkum böndum á mótunarárum samtakanna.

Framlag Arnþórs til náttúruverndar á Íslandi var ómetanlegt. Hann sat tvisvar í Náttúruverndarráði og var formaður þess á árunum 1990-1996. Hann beitti sér fyrir friðlýsingu votlendis og friðlýsingu Þjórsárvera, auk þess sem lög um verndun Mývatns og Laxár má að miklu leyti þakka hans skelegga framlagi. Arnþór kom að stofnun Landverndar árið 1969, sat í stjórn samtakanna á mótunarárum þeirra og kom að útgáfu nokkurra fræðslurita Landverndar. Arnþór var gerður heiðursfélagi í Hinu íslenska náttúrufræðifélagi árið 1998, hlaut heiðursviðurkenningu Náttúrufræðistofnunar Íslands 2007 og heiðursverðlaun Líffræðifélags Íslands árið 2017.

Arnþór varð prófessor í dýrafræði 1974 við Háskóla Íslands, en kennsla í líffræði hófst þar árið 1968. Arnþór stjórnaði vistfræðirannsóknum í Þjórsárverum frá árinu 1971. Þær rannsóknir urðu grunnur að tímamóta friðlýsingu svæðisins áratug síðar. Þá byggði hann upp viðamiklar rannsóknir á fuglalífi og lífríki Mývatns og kom að stofnun Náttúrurannsóknastöðvarinnar við Mývatn. Arnþór helgaði hann sig langtímarannsóknum á íslenskum sjófuglastofnum og þróaði nýjar aðferðir við fuglatalningar.

Landvernd minnist Arnþórs sem mikilvægs fræðimanns og baráttumanns fyrir náttúruvernd með þakklæti og virðingu og vottar aðstandendum hans samúð.

Ert þú í Landvernd?

Taktu afstöðu með náttúrunni og gakktu í Landvernd