Lesa ársskýrslu Landverndar 2014-2015
Leiðari
Traustar stoðir og sterk ímynd
Á undanförnum árum hefur traustum stoðum verið skotið undir rekstur Landverndar. Félagsmönnum hefur fjölgað úr 500 í 3.800 á fjórum árum. Þar af leiðandi hafa tekjur af félagsgjöldum hækkað úr rétt rúmum tveimur milljónum króna árið 2011 í níu milljónir á liðnu ári. Tekjur af verkefnastyrkjum hafa á sama tíma aukist úr rúmum tuttugu milljónum í fjörutíu milljónir samhliða því að langtímaverkefnum Landverndar hefur fjölgað úr þremur í átta. Þetta hefur gert það að verkum að um tíu milljóna króna afgangur hefur orðið af rekstri Landverndar undanfarin fjögur ár. Rekstur Landverndar er því í góðu horfi og samtökin eiga borð fyrir báru.
Í ársbyrjun hóf stjórn Landverndar að greina styrkleika og veikleika samtakanna og kannaði m.a. viðhorf félagsmanna til þeirra. Greinilegt er að félagsmenn kunna að meta fagmennsku í starfseminni, öflugt fræðslustarf, bætta ímynd, sterka málefnalega stöðu og aukna þátttöku fulltrúa samtakanna í opinberri umræðu. Um ímynd Landverndar er það að segja að 20% aðspurðra nefndu Landvernd þegar Gallup spurði hvaða umhverfisverndarsamtök þeir þekktu. Það eru tvöfalt fleiri en nefndu þau samtök sem næst koma og tvöfalt fleiri en nefndu Landvernd í sams konar könnun fyrir þremur árum. Þá sögðust 56% jákvæð í garð samtakanna en 65% nú. Þá hefur vinum Landverndar á facebook fjölgað úr 900 árið 2011 í 6.000 nú. Það er síðan til vitnis um sterka málefnalega stöðu að Landvernd sendi 25 umsagnir frá sér á starfsárinu, stefndi Landsneti fyrir dómstóla og er með mál fyrir Mannréttindadómstóli Evrópu.
Þar að auki hefur starfsfólk Landverndar setið um tuttugu fundi með þingnefndum og haldið um 200 fyrirlestra um margvísleg málefni á nýliðnu starfsári. Tölur Fjölmiðlavaktarinnar staðfesta svo aukinn áhuga fjölmiðla á starfi Landverndar. Árið 2010 var fjallað um Landvernd í 35 fréttum og greinum en þremur árum seinni hafði fjölmiðlaumfjöllunin tífaldast. Stjórn Landverndar hefur áfram lagt áherslu á að efla samstarf við önnur félög og mynda öflug bandalög. Hjarta landsins hefur t.d. orðið samstarfsvettvangur Landverndar, Ferðaklúbbsins 4×4 og útivistarfélaga.
Á sama tíma og þessi félög hafa sameinast um kröfuna um að hálendinu verði hlíft við stórframkvæmdum hafa klæði verið borin á vopnin í gömlum deilum. Þannig hefur okkur borið gæfa til að sá ekki fræjum í akur óvinarins – skemmta ekki skrattanum. Okkur hefur einnig borið gæfa til að byggja brú yfir til stóru stéttarfélaganna og vonandi er þá köldu stríði þeirra og náttúruverndarsinna frá tímum Kárahnjúkadeilunnar lokið. Náttúruverndarhreyfingin og útivistarfélög efndu til grænnar göngu 1. maí 2014 í samstarfi við stéttarfélögin þar sem þess var krafist að almenningur hefði áfram frjálsan aðgang að náttúru Íslands og að almannarétturinn yrði virtur. Þetta samstarf skilaði þeim árangri að nú hefur ríkisstjórnin horfið frá tillögum um nýjan skatt á almenning í formi náttúrupassa. Í vor boðaði Landvernd svo til málþings um auðlindamál með góðum stuðningi ASÍ og BSRB þar sem fjallað var um nýtingu auðlindanna, eignarhald og skiptingu auðlindaarðsins. Vonandi var sá fundur aðeins upphafið að nánara samstarfi Landverndar og stéttarfélaga um grundvallarspurningar er varða auðlindir Íslands.
Sterk málefnaleg staða Landverndar og öflugt starf hefur gefið sífellt fleirum kraft og þor til að taka undir með málstað náttúruverndarhreyfingarinnar. Við höfum auðveldað öðrum að gerast háværir talsmenn hófsemdar.
Guðmundur Hörður Guðmundsson, formaður Landverndar.