Ársskýrsla Landverndar 2015-2016

Nýi foss í Farinu frá Hagavatni er í hættu, verndum náttúruna, höfnum stóriðjuvirkjunum, um 80% allrar raforku fer til stóriðju á Íslandi, landvernd.is
Í ársskýrslu Landverndar 2015-2016 er stiklað á stóru um starf Landverndar á árinu.

Lesa ársskýrslu Landverndar 2015-2016

Leiðari

Viðburðaríkt ár

Staða Landverndar er sterk um þessar mundir. Félagsmenn eru um 4.700 talsins og fjölgaði um ríflega 20% á árinu. Tekjur af félagsgjöldum og verkefnastyrkjum jukust að sama skapi og voru um 25% hærri árið 2015 en árið 2014. Hjá samtökunum vinna nú átta starfsmenn í sex stöðugildum og þakka ég þeim öllum fyrir mikið og gott framlag fyrir samtökin.

Ekki veitir af mörgum vinnufúsum höndum því markmið Landverndar eru víðfeðm; í hnotskurn verndun náttúru og umhverfis á Íslandi, endurreisn spilltra vistkerfa, sjálfbær umgengni við náttúruna, virk þátttaka í alþjóðasamstarfi og fræðsla. Sem endranær hafa alþjóðleg fræðslu- og umhverfisverndarverkefni, undir hatti Grænfánans, Bláfánans og Græna lykilsins, auk annarra langtímaverkefna í loftslagsmálum, landgræðslu, fræðslu á jarðhitasvæðum og matarsóun verið í forgrunni starfseminnar. Landvernd hefur jafnframt unnið ötullega með Náttúruverndarsamtökum Íslands o.fl. félagasamtökum að einu stærsta náttúruverndarverkefni fyrr og síðar: Friðlýsingu miðhálendisins í þjóðgarði. Það starf bar fyrsta ávöxt 7. mars 2016 þegar fulltrúar tuttugu umhverfisverndar- og útivistarsamtaka, auk Samtaka ferðaþjónustunnar, skrifuðu undir viljayfirlýsingu um stofnun hálendisþjóðgarðs. Landvernd lét sig enn fremur varða málefni á borð við stofnanaumgjörð náttúruverndar, rammaáætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða, kerfisáætlun Landsnets, framfylgd Árósasamningsins á Íslandi, skipulagsmál sveitarfélaga og sauðfjárbeit á auðnum.

Vaxandi hluti starfseminnar er þátttaka í opinberri stefnumótun og ákvarðanatöku um málefni sem snerta skipulag, umhverfi og náttúru. Á liðnu ári voru gefnar ítarlegar umsagnir um yfir 20 lagafrumvörp, þingsályktunar- og skipulagstillögur. Þá hefur Landvernd í auknum mæli kært ákvarðanir stofnana og fyrirtækja, sem ekki standast lög og verkferla að mati samtakanna. Umsagnir og kærumál af þessu tagi taka mikinn tíma og krefjast sérþekkingar á laga- og regluverki. Landvernd hefur því um nokkra hríð stefnt að því að ráða lögfræðing í fullt starf til að sinna þessu hlutverki. Landvernd hefur einnig beitt sér af krafti í fjölmiðlum og á samfélagsmiðlum og kom á árinu 335 sinnum fyrir í fréttum og blaðagreinum. Það sýnir betur en margt annað hve miðlæg samtökin eru orðin í umræðu á Íslandi. Þá stóð Landvernd fyrir mörgum fjölsóttum fyrirlestrum og ráðstefnum, t.d. um stöðu loftslagsmála eftir Parísarsarfundinn og um þjóðgarð á miðhálendinu.

Á liðnu hausti hófu stjórn og starfsfólk Landverndar vinnu við að skerpa áherslur samtakanna til næstu tveggja ára. Hugsunin var ekki að kollvarpa því góða starfi sem sinnt er nú þegar heldur að horfa til þess hvernig betur megi bregðast við aðkallandi áskorunum. Niðurstaða þessarar vinnu liggur nú fyrir og verður kynnt á aðalfundi 2016. Í stuttu máli var ákveðið að leggja áherslu á fjóra málaflokka: Náttúruvernd í ferðaþjónustu, gróðurvernd og vistheimt, loftslagsmál og síðast en ekki síst umhverfis- og náttúrumennt sem hornstein alls annars starfs Landverndar.

Staða og framtíð jarðanna Alviðru og Öndverðarness II sem Landvernd á til helminga við Héraðsnefnd Árnesinga hefur verið til endurskoðunar á liðnu starfsári. Botninn datt úr umhverfisfræðslu í Alviðru í kjölfar hrunsins 2008 og hefur starfsemi þar verið lítil sem engin síðan. Vandséð er að unnt verði að endurvekja hana í fyrri mynd miðað við þær forsendur sem skólar og sveitarfélög búa við í dag. Málefni Alviðru verða sérstaklega rædd á aðalfundi 2016.

Snorri Baldursson, formaður Landverndar.

Ert þú í Landvernd?

Taktu afstöðu með náttúrunni og gakktu í Landvernd