Ársskýrsla Landverndar 2016-2017

Einstök náttúra Mývatns og nágrennis er einstök og er hún vernduð af sérstökum lögum um vernd Mývatns og Laxár. Verndum náttúruna, landvernd.is
Í ársskýrslu Landverndar 2016-2017 er stiklað á stóru um starf samtakanna á árinu.

Lesa ársskýrslu Landverndar 2016-2017

Leiðari

Dropinn holar steininn

Barátta fyrir náttúruvernd – græn pólitík – getur verið erfið. Þeir sem hafa hana að viðfangsefni mega búast við eilífum átökum við einstaklinga sem fara fram úr sér í framkvæmdagleði eða hreinlega neita að fylgja reglum samfélagsins. Þeir mega eiga von á stöðugu þófi við stjórnir sveitarfélaga sem hafa túngarðinn að sjóndeildarhring og eiga erfitt með að sjá hag heildarinnar en líta svo á, að því er virðist, að atvinna af hvaða tagi sem er sé ævinlega af hinu góða. Og þeir mega reikna með þrotlausu aðhaldi við opinberar stofnanir sem oft láta framkvæmdaraðilann frekar en náttúruna njóta vafans og setja eftirlitskíkinn fyrir blinda augað. Því eins og Guðmundur Andri Thorsson orðar það svo meistaralega: „Reglan hér á landi hefur verið þessi: þegar spurt er um hagsmuni náttúru og hagsmuni stóriðju skal stóriðjan njóta vafans, undantekningarlaust; þegar spurt er um heilsu almennings og hagsmuni stóriðju skal stóriðja njóta vafans, ævinlega. Stóriðja, verksmiðjurekstur, er nefnilega „atvinnusköpun“. Og „atvinnusköpun“ er íslenska orðið yfir „nirvana“; hið endanlega alsæluástand…”. Hér má allt að einu setja útgerð, laxeldi eða ferðaþjónustu í stað stóriðju.

Um þessa baráttu Landverndar má lesa í þessari ársskýrslu og þar hefur líklega borið hæst andóf gegn lagningu háspennulína Landsnets í yfirstærð yfir eldhraun og víðerni Skútustaðahrepps og Þingeyjarsveitar. Eins ber að nefna kærumál vegna framgöngu ferðaþjónustufyrirtækja við Mývatn sem komast upp með að setja niður hótelbyggingar inni á verndarsvæði Mývatns og Laxár og sinna ekki lögboðnum ákvæðum um skólphreinsun. Alltof oft bregðast eftirlitsaðilarnir og ágengir framkvæmdamenn komast upp með brot gegn náttúrunni – auglýsa svo jafnvel náttúruvernd sem sitt aðalsmerki.

Hver nennir þá að standa í náttúruvernd ef þetta er svona andsnúið, vera alltaf leiðinlegi gesturinn í partíinu, alltaf að ströggla við náungann og kerfið, alltaf að kæra? Kannski er það væntumþykja

fyrir náttúrunni eða réttlætiskennd sem knýr okkur áfram. Dropinn holar líka steininn. Smám saman lærist framkvæmdaaðilum að vanda áform og ákvarðanatökur; að réttur náttúrunnar er ekki einungis hjóm og andóf náttúruverndarsamtaka ekki bara tuð. Um það vitna úrskurðir og dómar sem fallið hafa Landvernd í hag á starfsárinu. Eitt er víst að samfélag okkar fer sístækkandi. Samtökin telja nú um 5.000 félagsmenn og hafa aldrei verið stærri.Veltan setti líka enn eitt metið á umliðnu ári og mannauðurinn vex; hjá samtökunum vinna nú alls tíu starfsmenn í rúmum sjö stöðugildum og þakka ég þeim öllum kærlega fyrir mikið og gott framlag fyrir samtökin og náttúru landsins.

Auðvitað er það ekki svo að öll náttúruvernd sé ströggl. Sú lýsing á fyrst og fremst við um grænu pólitíkina. Innan náttúruverndarinnar er stór heimur, sem minna ber á en skiptir líklega mestu máli þegar upp verður staðið, náttúru- og umhverfismenntin; að skapa virðingu og væntumþykju fyrir náttúrunni og leiðbeina um góða umgengni við hana. Að vinna að umhverfismennt er þakklátt starf og sem betur fer snýr stærsti hluti starfsemi Landverndar að þeim þætti eins og lesa má á þessum blöðum. Í umhverfismenntinni eru fyrirferðamest alþjóðleg fræðslu- og umhverfisverndarverkefni, undir hatti Skóla á grænni grein, Bláfánans og Græna lykilsins, auk verkefna sem snúa að gróðurvernd, loftslagsmálum, matarsóun og strandhreinsun.

Undirritaður óskar náttúruverndurum og landsmönnum öllum gleðilegs sumars og þakkar samfylgdina á undanförnu ári.

Snorri Baldursson, formaður Landverndar.

Ert þú í Landvernd?

Taktu afstöðu með náttúrunni og gakktu í Landvernd