Ársskýrsla Landverndar 2017-2018

Gullfossar Stranda eru í hættu auk stórra víðerna sem Íslendingar bera ábyrgð á í alþjóðlegu samhengi, stöðvum sókn stóriðju í ómetanlegar náttúruperlur, landvernd.is
Í ársskýrslu Landverndar 2017-2018 er stiklað á stóru um starf samtakanna á árinu.

Lesa ársskýrslu Landverndar 2017-2018

Leiðari

Landvernd vex og dafnar

Enn eitt farsælt ár er liðið hjá Landvernd þar sem unnið var að fjölmörgum mikilvægum og áhugaverðum verkefnum í þágu náttúru- og umhverfisverndar.

Við hjá Landvernd erum afskaplega stolt af öflugum fræðsluverkefnum sem eru mikilvægt veganesti íslenskra ungmenna inn í framtíðina og vekja almenning og stofnanir til vitundar um umhverfismál. Má þar nefna Skóla á grænni grein þar sem rúmlega 200 skólar á öllum skólastigum taka þátt, Vistheimt í skólum þar sem skólabörn gera rannsóknir og tilraunir á örfoka landi, Loftslagsverkefni Landverndar sem miðar að því að aðstoða sveitarfélög við að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og Græðum Ísland – sjálfboðaliðaverkefni þar sem skólahópum og fyrirtækjum gefst kostur á að vinna að landgræðslu og um leið binda kolefni úr andrúmsloftinu.  Alþjóðlega umhverfisviðurkenningin Bláfáninn blakti við hún á fleiri stöðum á síðasta ári en nokkru sinni fyrr og bar vott um framúrskarandi umhverfisstjórnun við haf- og strandsvæði landsins. Landvernd hélt áfram að vekja athygli á matarsóun og plastmengun með því að miðla fróðleik og góðum ráðum út í samfélagið. Plastmengun í hafi er sí- vaxandi umhverfisvandamál sem ekki síst snertir fiskveiðiþjóð og eyríki eins og Ísland. Hreinsum Ísland er átaksverkefni Landverndar í strandhreinsun. Landvernd stendur fyrir Norræna strandhreinsunardeginum annað árið í röð á vormánuðum þann 5. maí nk. ásamt því að taka þátt í alheimshreinsunardegi í september í samstarfi við Bláa herinn. Fræðslu- og umhverfisverndarverkefni Landverndar eru mun fleiri en hér eru nefnd og má lesa nánar um þau í þessari ársskýrslu. Eitt er ljóst að velgengni allra þessara verkefna má þakka úrvals starfsmönnum Landverndar, samstarfsaðilum og sjálfboðaliðum.

Græn pólitík er fyrirferðamikið málefni hjá Landvernd sem oft getur verið erfitt viðfangs. Á árinu tók Landvernd virkan þátt í vinnu við skipulags- og framkvæmdaáætlanir víða um land með því að skrifa umsagnir, ályktanir, móta stefnur og kæra meint lögbrot sem áttu sér stað.

Það veldur áhyggjum hversu illa er staðið að undirbúningi framkvæmda oft og tíðum. Meðal annars skortir grunnrannsóknir eða þá að lítið er gert úr umhverfisáhrifum framkvæmda. Landvernd hefur í því sambandi gagnrýnt það fyrirkomulag að fyrirtæki sem vinna umhverfismat fyrir framkvæmdaraðila eru ekki óháðir aðilar. Orð eins og „raforkuöryggi“ eða „bætt atvinnuástand“ koma oft fyrir í matsskýrslum vatnsaflsvirkjana til að undirstrika að hér sé um að ræða mikla almannahagsmuni. Vissulega þarfnast raforkukerfi landsins víða úrbóta til að tryggja raforkuöryggi en það hefur ekkert með raforkuframleiðslu að gera og enginn raforkuskortur er í landinu. Miðað við höfðatölu er raforkuframleiðsla á Íslandi mun meiri en í nokkru öðru landi í heiminum samkvæmt skýrslu OECD frá 2014 og Norðmenn sem eru í öðru sæti eru einungis hálfdrættingar á við Íslendinga. Virkjanir skapa ekki mörg störf til lengri tíma og það er liðin tíð að vinnuafl við virkjanaframkvæmdir sé mest megnis Íslendingar.

Ísland er ríkt af náttúrulegum auðlindum sem við þurfum að bera virðingu fyrir og nýta á skynsaman hátt með sjálfbærni að leiðarljósi. Gegndarlaus orkunýting með tilheyrandi óafturkæfu raski á náttúru er ekki til hagsbóta, hvorki fyrir land né þjóð heldur aðeins skammtíma- gróði fárra. Stjórnvöld þurfa að vera ötulli við að fylgja eftir stefnum og áætlunum um náttúruvernd og friðlýsa óbyggð víðerni landsins áður en það verður um seinan.

Umfjöllun um vindorkuvirkjanir á Íslandi hefur aukist án þess að mörkuð hafi verið opinber stefna um hvernig standa beri að uppbyggingu þeirra. Landvernd ákvað því að vinna eigin stefnu- og

leiðbeiningarrit, Virkjun vindorku á Íslandi, til afnota fyrir alla. Ritið, sem byggir á náttúruverndarsjónarmiðum með almannahagsmuni að leiðarljósi, kom út í ársbyrjun 2018. Það er von Landverndar að framkvæmdaraðilar, sveitarfélög og aðrir opinberir aðilar geti nýtt sér stefnuritið til að lágmarka neikvæð umhverfisáhrif vindorkumannvirkja og eins er vonast til að ritið gagnist í almennri umræðu um vindorkuvirkjanir hér á landi.

Á árinu fór fjöldi félagsmanna Landverndar í fyrsta skipti yfir 5000 manns og er ánægjulegt að finna fyrir vaxandi meðbyr og stuðningi almennings á umliðnum árum. Þá hefur Landvernd notið góðs af fjárhagslegum styrkjum frá einstaklingum og velunnurum Landverndar. Á vordögum 2017 var gerður samningur við flugfélagið WOW air þar sem flugfarþegum fyrirtækisins gefst tækifæri á að styrkja Landvernd með fjárframlagi. Allur þessi stuðningur er ómetanlegur fyrir starfsemina og eflir stjórn og starfsmenn samtakanna til áframhaldandi góðra verka í þágu náttúru- og umhverfismála.

Starfsmenn Landverndar eru átta í sex stöðugildum og er mikil þörf á að fjölga þeim enn frekar með vaxandi starfsemi og fjölgun verkefna. Græna pólitíkin verður sífellt umfangsmeiri í starfseminni og er m.a. nauðsynlegt að ráða starfsmenn til að sinna þeim málaflokki eingöngu. Þá er skrifstofa Landverndar fyrir löngu sprungin og þarf að huga að hentugra húsnæði undir starfsemina á komandi starfsári.

Ýmislegt ófyrirséð getur komið upp á eins og Landvernd fékk að kynnast á liðnu ári. Nýkjörinn formaður samtakanna, Snæbjörn Guðmundsson, þurfti frá að hverfa haustið 2017 vegna veikinda og tók varaformaður við starfi hans. Í lok ársins yfirgaf Guðmundur Ingi Guðbrandsson framkvæmdastjóri Landverndar til sex ára svo samtökin með nánast engum fyrirvara til að taka við embætti umhverfis- og auðlindaráðherra. Skömmu síðar var lögfræðingur Landverndar, Sif Konráðsdóttir, ráðin aðstoðarmaður hans. Stjórn og samstarfsfólk samglöddust þeim síðarnefndu vissulega og óskuðu velfarnaðar á nýjum og mikilvægum vettvangi en óneitanlega setti brottför þeirra ýmis verkefni Landverndar í vandasama stöðu. Þá kom í ljós samtakamáttur starfsmanna og stjórnar Landverndar sem í sameiningu leystu málin eftir bestu getu. Salome Hallfreðsdóttur, sérfræðingi á Landvernd til fimm ára, var boðið að gegna stöðu framkvæmdastjóra tímabundið og er stjórn Landverndar henni afar þakklát fyrir að hafa tekið starfið að sér. Nú hefur verið ráðinn nýr framkvæmdastjóri, Auður Önnu Magnúsdóttir, sem tekur til starfa 1. maí 2018.

Á næsta ári, 2019, verður Landvernd 50 ára. Undirbúningur er að hefjast og verður allt kapp lagt á að gera afmælisárið bæði viðburðaríkt og eftirminnilegt í alla staði.

Ég vil þakka starfsmönnum og stjórn Landverndar fyrir mikilvægt og óeigingjarnt starf á liðnu ári. Ég þakka Snæbirni, formanni samtakanna, fyrir gott og ánægjulegt samstarf og óska Guðmundi Inga og Sif farsældar í nýjum störfum. Þá vil ég þakka félagsmönnum, velunnurum, sjálfboðaliðum, samstarfsaðilum og styrktaraðilum ómetanlegan stuðning við samtökin.

Í lokin óska ég landsmönnum öllum gleðilegs sumars í náttúru Íslands.

Lovísa Ásbjörnsdóttir, formaður Landverndar

Ert þú í Landvernd?

Taktu afstöðu með náttúrunni og gakktu í Landvernd