,,Samtök umhverfisverndarsinna og náttúruvinir heita nýrri ríkisstjórn stuðningi við brýn verkefni. Við þökkum frambjóðendum flokkanna fyrir að koma á kynningarfundi með okkur fyrir kosningar og óskum eftir því í framhaldi að fá að hitta nýja þingflokka. Við leggjum áherslu á eftirfarandi fyrir hönd Ungra umhverfissinna, Náttúruverndarsamtaka Íslands, Landverndar, Fuglaverndar og Aldins, samtaka eldri aðgerðarsinna:
Loftslagsmarkmið
Ný ríkisstjórn þarf að taka alvarlega brýningu frá Loftslagsráði[1] í aðdraganda kosninga og setja bráðnauðsynleg verkefni til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda í forgang. Tíminn er naumur. Ábatinn verður umtalsverður fyrir samfélagið.
Hraða verður verulega samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda til að Ísland geti dregið úr samfélagslosun um 41% miðað við árið 2005 og staðið við þjóðréttarlegar skuldbindingar um hlutdeild Íslands í 55% markmiði Evrópusambandsins. Markmiðin verða vera magnbundin og tímasett.
Víðtækt samráð og styrkt staða frjálsra félagasamtaka
Lögbinda verður samráð við frjáls félagasamtök líkt og kveðið er á um í evrópskum löggjöf í um loftslagsmál..
Styrkja þarf stöðu frjálsra félagasamtaka og efla sjálfstæði þeirra og aðgengi að ákvarðanatöku. Virða þarf Árósasamninginn og ljúka innleiðingu hans í íslenskt stjórnkerfi og uppfylla gömul loforð um aðgerðaáætlun til þess. Tryggja verður víðtækt samráð og gagnsæi við mótun loftslagsmarkmiða, þar með talið verndun landsvæða og líffræðilegrar fjölbreytni á landi. Við minnum á að átak gegn matarsóun getur skilað miklu og átak í landbúnaði sömuleiðis. Markmið okkar um samdrátt i losun þarf að nást innan fimm ára. Ný ríkisstjórn gæti náð miklum ábata í þessum efnum með réttri forgangsröðun.
Verndun líffræðilegrar fjölbreytni
Ísland hefur undirgengist alþjóðlegar skuldbindingar um verndun líffræðilegrar fjölbreytni. Móta þarf stefnu í málaflokknum. Skógrækt með framandi tegundum ógnar líffræðilegri fjölbreytni og skógrækt á ekki allsstaðar við. Bannað verði með lögum strax á næsta þingi að ræsa fram mýrlendi með skurðum, en stutt verði við endurheimt votlendis.
Verndun hafsins
Engin skýr stefnumótun liggur fyrir um verndun hafsins.
Á 151. löggjafarþingi 2020-2021 var lögð fram þingsályktunartillaga um stefnu Íslands í málefnum hafsins.
Meirihluti þingsins hunsaði tillöguna. Hið sama gerðist á vorþingi 2024 en þá stóðu að tillögunni þingmenn Flokks fólksins, Samfylkingarinnar og Viðreisnar og því ætti að vera einfalt fyrir þessa flokka að ljúka stefnumótun Íslands um málefni hafsins, bæði innan eigin efnahagslögsögu og á alþjóðavettvangi.
Móta verður stefnu um verndun hafsvæða og fylgja eftir tillögum stýrihóps um verndun hafsins.
Hvalir verði verndaðir með nýjum lögum um dýravelferð.
Svartolíubann
Íslandi ber umsvifalaust að banna svartolíu innan 12 mílna landhelgi og tryggja að skemmtiferðaskip sem hingað koma notist við hreinsibúnað sem kemur í veg fyrir stórfellda mengun í nágrenni hafna og að stórum og smáum skemmtiferðaskipum verði skylt að nýta hreina orku úr landi.
Sjókvíaeldi
Við minnum á að Alþingi hefur ekki enn sett viðunandi lagaumgjörð fyrir sjókvíaeldi og leggjum til að ekki verði ráðist í frekari útþenslu á því fyrr en tekið hefur verið á öllum umhverfisverndarsjónarmiðum með vistkerfisnálgun og varúðarreglu náttúruverndar að leiðarljósi. Þetta á heima í stjórnarsáttmála og er lífsnauðsyn til verndar villta laxastofninum á Íslandi.
Þjóðgarður
Skynsamlegasta nýting náttúru landsins er verndun hennar með þjóðgarði á miðhálendinu. Samtökin gera kröfu um að nú verði unnið heiðarlega að stofnun þjóðgarðs á miðhálendinu og á Vestfjörðum.
Orkunýtingarstefna
Á nýliðnu kjörtímabili hafa ráðamenn tíundað nauðsyn orkuskipta. Það tal er án innihalds enda hefur engri óhreinni orku verið skipt út með byggingu nýrra virkjana. Mikilvægt er að stjórnmálamenn og talsmenn orkufyrirtækja átti sig á að Ísland – líkt og heimurinn allur – stendur frammi fyrir neyðarástandi vegna manngerðra loftslagsbreytinga.
Við teljum að forgangsraða verði orku og viðurkenna að orkuauðlindin er ekki ótæmandi. Móta þarf stefnu um vindorku inni í heildarorkuáætlun. Tryggja þarf hagsmuni heimila og almenns atvinnulífs til að koma í veg fyrir að uppboðsmarkaður á orku stórhækki verð til almennings. Aðgerðir í loftslagsmálum kalla á að gætt sé að félagslegu réttlæti og að ábata af aðgerðum sem og íþyngjandi kvöðum sé réttlátlega skipt.
Sérstakt ráðuneyti loftslags og náttúruverndar
Við teljum að reynslan sýni af því að hafa umhverfis- orku og auðlindamál á sömu hendi sýni að nýtingarsjónarmið verði alfarið ofan á en verndarhlutverkið lúti í lægra haldi. Frjáls félagasamtök hvetja til þess að sérstakt ráðuneyti umhverfisins sem hafi það hlutverk að vernda loftslag og náttúru verði stofnað.
[1] Vert er að vekja athygli á athugasemd Hrafnhildar Bragadóttur, lögfræðings vegna álits Loftslagsráðs.