Áskorun til frambjóðenda fyrir kosningar

Kjósum með náttúrunni!
Við skorum á stjórnmálaflokka að mæta til kosninga með skýra stefnu í náttúru- og loftslagsmálum!

Öll spjót standa á íslenskri náttúru. Við blasa mikilvægustu áskoranir samtímans í umhverfismálum. Saman getum við varið náttúru- og lífsgæðin. Stjórnmálaflokkar gegna mikilvægu hlutverki í því fyrir framtíðarkynslóðir. 

 

Ágangur og hnignun náttúru, eyðing tegunda og vistkerfa og loftslagsbreytingar eru ekki einkamál okkar kynslóðar.

Stöndum vörð um heiðarlönd, víðerni, lífríki, vistkerfi, höf og hálendi. Berjumst gegn landeyðingu og náttúruníði og verndum líffræðilegan fjölbreytileika, vistkerfin og endurheimtum votlendið. 

Stjórnmálamenn þurfa að átta sig á því að auðlindir Íslands eru ekki óþrjótandi. Við eigum náttúrunni allt að þakka, erum hluti af henni og getum ekki lifað af án hennar. Því ber okkur skylda til að gæta auðlindanna og endurskoða stöðugt nýtingu þeirra.

Við skorum á stjórnmálaflokka að mæta til kosninga með stefnu fyrir náttúruna og loftslagið og verja dýrmætar auðlindir landsins af hugrekki og framsýni.

Kjósum með náttúrunni! Verndum auðæfi Íslands! 

Ert þú í Landvernd?

Taktu afstöðu með náttúrunni og gakktu í Landvernd