Hið íslenska náttúrufræðifélag, Landvernd, Samlíf – Samtök líffræðikennara, Félag náttúrufræðikennara á grunnskólastigi og Félag raungreinakennara hafa sent stjórn Orkuveitu Reykjavíkur og mennta- og menningarmálaráðherra áskorun þar sem samtökin hvetja til þess að hugmyndir um nýtingu Perlunnar undir starfsemi Náttúruminjasafns Íslands verði skoðaðar gaumgæfilega. Áskoranirnar fara hér á eftir:
Áskorun til stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur:
„Undirrituð samtök hvetja stjórn Orkuveitu Reykjavíkur eindregið til þess að gaumgæfa vel hugmyndir um nýtingu Perlunnar undir starfsemi Náttúruminjasafns Íslands í því söluferli sem nú stendur yfir á húsnæðinu í Öskjuhlíðinni. Náttúruminjasafn Íslands er lögum samkvæmt eitt þriggja höfuðsafna þjóðarinnar og á að gegna lykilhlutverki í kynningu og fræðslu um náttúru Íslands. Safnið hefur verið á hrakhólum og búið við óviðunandi aðstæður svo áratugum skiptir. Nú er svo komið að það á engan samastað fyrir sýningastarfsemi sína og safnmunir eru geymdir ofan í kössum. Veglegt höfuðsafn í náttúrufræðum er stolt hverrar velstæðrar þjóðar og dýrmætur fróðleiksbrunnur fyrir þegna og gesti viðkomandi lands. Í ljósi þess að Íslendingar byggja atvinnu sína og líf á náttúru landsins í mjög ríkum mæli, auk þess sem langflestir erlendir ferðamenn sækja landið heim vegna náttúrunnar, skiptir öllu máli að bjóða upp á vandað höfuðsafn um náttúru landsins sem vel er í sveit sett og sómi er að.
Áskorun til mennta- og menningarmálaráðherra:
„Undirrituð samtök hvetja mennta- og menningarmálaráðherra eindregið til þess að gaumgæfa vel hugmyndir um nýtingu Perlunnar undir starfsemi Náttúruminjasafns Íslands. Í því skyni láti hún gera úttekt á því hversu vel húsnæðið á Öskjuhlíðinni henti slíkri starfsemi og hvaða leiðir skulu farnar svo eignarhald þess færist til ríkisins. Náttúruminjasafn Íslands er lögum samkvæmt eitt þriggja höfuðsafna þjóðarinnar og á að gegna lykilhlutverki í kynningu og fræðslu um náttúru Íslands. Safnið hefur verið á hrakhólum og búið við óviðunandi aðstæður svo áratugum skiptir. Nú er svo komið að það á engan samastað fyrir sýningastarfsemi sína og safnmunir eru geymdir ofan í kössum. Veglegt höfuðsafn í náttúrufræðum er stolt hverrar velstæðrar þjóðar og dýrmætur fróðleiksbrunnur fyrir þegna og gesti viðkomandi lands. Í ljósi þess að Íslendingar byggja atvinnu sína og líf á náttúru landsins í mjög ríkum mæli, auk þess sem langflestir erlendir ferðamenn sækja landið heim vegna náttúrunnar, skiptir öllu máli að bjóða upp á vandað höfuðsafn um náttúru landsins sem vel er í sveit sett og sómi er að.
Hið íslenska náttúrufræðifélag
Árni Hjartarson formaður
Landvernd
Guðmundur Hörður Guðmundsson formaður
Samlíf – Samtök líffræðikennara
Ester Ýr Jónsdóttir formaður
Félag náttúrufræðikennara á grunnskólastigi
Jón Pétur Zimsen formaður
Félag raungreinakennara
Valgerður Þ.E. Guðjónsdóttir formaður