Varðliðar umhverfisins er verkefnasamkeppni á vegum Landverndar, Náttúruskóla Reykjavíkur og umhverfis- og auðlindaráðuneytisins. Ár hvert eru nemendur í 5.-10. bekk hvattir til að senda inn verkefni sem tengjast umhverfismálum á einhvern hátt og er verkefnið hugsað sem leið til að efla umhverfisvitund og vekja upp umræðu um náttúruvernd. Í Grænfánaverkefni Landverndar eru 210 skólar á öllum skólastigum og á yfir 230 starfsstöðvum og eykst fjöldi þeirra ár frá ári. Af þeim eru 91 grunnskóli. Þessir skólar starfa allir að umhverfismennt undir formerkjum Grænfánans. Landvernd vill hvetja öll grunnskólabörn í 5.-10.bekk til að taka þátt í samkeppninni. Leyfilegt er að skila verkefninu inn á hvaða formi sem er, svo framarlega sem það hefur verið unnið af nemendunum sjálfum og fjallar um umhverfismál. Ljóð, leikrit, stuttmyndir, tónverk, veggspjöld, ritgerðir eða viðburðir eru dæmi um form sem hægt er að skila á. Skilafrestur verkefna er til 22.mars 2013 og þau skal senda umhverfis- og auðlindaráðuneytinu, Skuggasundi 1, 150 Reykjavík, merkt, ,,Varðliðar umhverfisins’. Fulltrúar Landverndar, Náttúruskóla Reykjavíkur og umhverfis- og auðlindaráðuneytisins sitja í dómnefnd og velja Varðliðana, en á Degi umhverfisins, þann 25.apríl nk., mun Svandís Svavarsdóttir umhverfis- og auðlindaráðherra tilnefna Varðliða umhverfisins formlega við hátíðlega athöfn. Nánari upplýsingar um verkefnið má nálgast á heimasíðu umhverfis- og auðlindaráðuneytisins.