Íslensk stjórnvöld styðji við alþjóðlegt bann við djúpsjávarnámuvinnslu

Bann við djúpsjávarnámugreftri

Undirrituð samtök, sem eiga það sameiginlegt að vinna að verndun hafsins og eflingu sjálfbærrar hafstjórnunar, hvetja íslensk stjórnvöld til að styðja við alþjóðlegt bann við djúpsjávarnámuvinnslu. Ísland á allt sitt undir heilbrigðu hafi. Með því gæti Ísland lagt sitt af mörkum við að tryggja stórsigur fyrir náttúru og fólk víða um heim.

Djúpsævin standa frammi fyrir fordæmalausri ógn

Djúpsævin, sá hluti hafsvæðanna sem er dýpri en 200 m, eru með viðkvæmari vistkerfum jarðar. Þekking á þeim er lítil en þó er vitað að þau hafa að geyma einstaka fjölbreytni lífvera, erfðaauðlind og mikilvæga vistfræðilega ferla líkt og mildun á loftslagi – allt ofantalið á ekki síst við um svæðin í kring um Ísland. Þrátt fyrir þetta standa djúpsævin frammi fyrir fordæmalausri ógn vegna fyrirhugaðrar námuvinnslu á hafsbotni.

Vísindafólk víðsvegar að hefur varað við mögulega óafturkræfum skaða sem djúpsjávarnámuvinnsla kann að valda verði stórtæk áformin að veruleika. Þar má nefna búsvæðatap, tap á líffræðilegum fjölbreytileika og rof á flóknum vistfræðilegum ferlum. Áhrif námuvinnslunnar munu ná út fyrir vistkerfi hafsins og ógna tilvist þorpa á strandsvæðum og heilbrigði Jarðar í heild. Hafsbotninn á djúpsævi er lögum samkvæmt sameign alls mannkyns, en fyrirhuguð námuvinnslan myndi einvörðungu bæta hag örfárra. Það er því bæði lagaleg og siðferðisleg skylda okkar að standa vörð um djúpsævin, bæði fyrir okkur sjálf og kynslóðirnar sem á eftir okkur koma.

Umdeildur og skaðlegur iðnaður

Þekking á mikilvægum vistkerfisþjónustum sem djúpsævin veita eykst með hverjum degi. Vísindafólk telur þó að það gæti tekið marga áratugi þar til þekkingin á djúpsævi er orðin nægjanleg til að taka upplýstar ákvarðanir varðandi framtíð þessara svæða m.t.t. námuvinnslu. Þrátt fyrir allstór þekkingarbil gæti námuvinnsla á iðnaðarskala fengið grænt ljós frá Alþjóðahafbotnsstofnuninni (e. International Seabed Authority, ISA), strax á þessu ári. Fyrirtæki sem huga að námuvinnslu á hafsbotni hafa þegar tilkynnt áætlanir sínar um að senda inn umsókn til námuvinnslu í atvinnuskyni með áætlaðan upphafstíma í júní 2025. Það er óásættanlegt að viðskiptaaðilar skuli reyna að nýta sér skort á regluverki til að knýja stjórnvöld til að samþykkja umdeildan og skaðlegan iðnað.

Margir hafa þegar lýst yfir stuðningi

Djúpsjávarnámuvinnsla er í auknu mæli talinn til eiturefnaiðnaðar sem hefur í för með sér umtalsverðar fjárhagslegar áhættur fyrir alla sem að honum koma. Vegna þessa hafa stjórnvöld 32 ríkja, m.a. 14 ríki innan Evrópu1 , kallað eftir stöðvun, hléi eða banni við djúpsjávarnámuvinnslu á alþjóðlegum hafsvæðum. Fleiri hafa lýst yfir stuðningi við tímabundið hlé eða bann við djúpsjávarnámuvinnslu, þ.á.m. Mannréttindastofnun Sameinuðu þjóðanna, stórar fjármálastofnanir, alþjóðleg fyrirtæki líkt og Google, BMW og Samsung, yfir 900 vísindamenn og aðilar í sjávarútvegi. Að auki kallaði Norræna ráðherranefndin eftir því að Norðurlöndin styddu við bannið þann 31. október síðastlinn en ályktunin skyldar Íslensk yfirvöld til að gefa ráðinu skýrslu um áætlanir sínar vegna tillögunnar.

Rödd Íslands er gríðarlega mikilvæg

Árið 2025 markar mikilvæg tímamót fyrir hafið. Við erum hálfnuð með áratug Sameinuðu þjóðanna um hafvísindi. Árið 2025 er ár stórra pólitískra viðburða líkt og þriðju ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna um hafið sem haldin verður í júní. Árið 2025 verður einnig mikilvægt þegar kemur að ákvarðanatöku um mögulega framtíð djúpsjávarnámuvinnslu í Kingston í Jamaíku. Í ljósi alþjóðlegra skuldbindinga líkt og hafréttarsamning Sameinuðu þjóðanna (BBNJ Agreement) og stefnu Sameinuðu þjóðanna um líffræðilega fjölbreytni (KunmingMontreal Global Biodiversity Framework) er mikilvægt að við tryggjum vernd hafsvæða, en djúpsjávarnámunvinnsla gengur þvert á öll þau markmið og skuldbindingar.

Hlé á eða bann við djúpsjávarnámuvinnslu er eitt mikilvægasta skrefið sem við getum tekið í dag til að standa vörð um mikilvæg vistkerfi sjávar og sjá til þess að skuldbindingum Íslands verði mætt. Við hvetjum íslensk stjórnvöld því til að lýsa yfir stuðningi sínum við hléi eða banni við djúpsjávarnámuvinnslu. Rödd Íslendinga er gríðarlega mikilvæg er kemur að málefnum hafsins, sem og í baráttunni fyrir jöfnuði, mannréttindum og heilnæmu umhverfi fram yfir ósjálfbæra nýtingu.

Simon Holmström, Deep-Sea Mining Policy Officer, Seas At Risk
Sofia Tsenikli, f.h. Global Lead DSM Moratorium Campaign, Deep Sea Conservation Coalition
Jessica Battle, Global Lead No Deep Seabed Mining Initiative, WWF International
Louisa Casson, Global Project Lead, Greenpeace International
Sæunn Júlía Sigurjónsdóttir, f.h. Sustainable Ocean Alliance Iceland
Sigrún Perla Gísladóttir f.h. Ungra umhverfissinna
Belén G. Ovide f.h. Ocean Missions, Húsavík
Huld Hafliðadóttir f.h. Samtaka um verndun í og við Skjálfanda
Micah Garen f.h. Last Whaling Station
Þorgerður María Þorbjarnardóttir f.h. Landverndar
Árni Finnsson f.h. Náttúruverndarsamtaka Íslands

Ert þú í Landvernd?

Taktu afstöðu með náttúrunni og gakktu í Landvernd