Björn Teitsson

býður sig fram til stjórnar Landverndar

Ég heiti Björn Teitsson og starfa ég sem sérfræðingur hjá Skipulagsstofnun á sviði stefnumótunar og miðlunar. Hluti starfsins er meðal annars að vinna að leiðbeinandi stefnumálum um sjálfbærara samfélag – en þar skipa borgarskipulag, samgöngur og hið byggða umhverfi lykilhlutverk.

Að gegna hlutverki hjá Landvernd, langmikilvægustu frjálsu félagasamtökum á Íslandi um þessar mundir, væri mikill heiður. Menntun mín og hugðarefni hafa um langa hríð snúið að umhverfismálum, borgar- og samgöngumálum og hef ég beint kröftum mínum í þá átt síðasta áratug. Það hef ég gert í félagsstörfum sem formaður Samtaka um bíllausan lífsstíl en einnig með námsleið í borgarfræðum við Bauhaus-háskólann í Weimar í Þýskalandi og nú síðast með starfi hjá Skipulagsstofnun en þar hef ég verið síðan 2021.

Störf mín og áhugamál hverfast að miklu leyti um að greina framtíðarhorfur fólks sem býr í þéttbýli, með tilliti til atvinnu, búsetu, samgangna, barnavelferðar, matarframleiðslu, og fleira, allt sem hefur áhrif og mótar líf og tilveru fólks hvern dag. Þess má auðvitað geta að 94% Íslendinga búa í þéttbýli þegar þetta er skrifað. Á þessu sviði verður framtíðin skrifuð, sérstaklega með tilliti til helstu áskorana okkar sem þjóða. Áskoranir sem tengjast loftslagsbreytingum sem verða eingöngu farsællega leystar með betri nýtingu á landrými og hinu byggða umhverfi – og með því að vernda okkar óbrotna land af öllu afli. Á þessu sviði tel ég mig hafa mikla þekkingu og trúverðugleika, sem ég ber von um að myndi nýtast vel í allri stefnumótun, herferðum, umsögnum og ráðgjöf, í okkar mikilvægu baráttu fyrir betra umhverfi og betri heim.

Við, umhverfisverndarfólk, erum komin að miklum tímamótum í okkar baráttu og það hefur sýnt sig að við njótum mikils meðbyrs meðal almennings. Ég hef dáðst að Landvernd fyrir ómetanlega vinnu í þágu betra umhverfis á undanförnum misserum og þar tel ég vera mikilvægasta vettvang umhverfismála á Íslandi. Þar langar mig að vera og þar langar mig að leggja hönd á plóg.

 

Með allra bestu kveðjum, Björn Teitsson

 

Ert þú í Landvernd?

Taktu afstöðu með náttúrunni og gakktu í Landvernd