Bláfánanum flaggað á Borgarfirði eystri

Á sjómannadaginn, 2. júní síðastliðinn, var fyrsta Bláfána þessa árs flaggað og var það á Borgarfirði eystri. Borgarfjörður eystri hefur flaggað Bláfánanum frá upphafi verkefnisins hér á landi.

Á sjómannadaginn, 2. júní síðastliðinn, var fyrsta Bláfána þessa árs flaggað og var það á Borgarfirði eystri. Heimamaðurinn og landfræðingurinn Hafþór S. Helgason afhenti fánann fyrir hönd Landverndar. Borgarfjörður eystri hefur flaggað Bláfánanum frá upphafi verkefnisins hér á landi.
Bláfáninn er veittur þeim smábátahöfnum og baðströndum sem uppfylla ákveðin skilyrði um umhverfisstjórnun, vatnsgæði, öryggismál og umhverfisfræðslu. Fáninn er vel þekktur víða erlendis og trekkir að ferðamenn enda tákn um að vel sé gert í umhverfis- og öryggismálum.

Hugmyndin að verkefninu varð til í Frakklandi árið 1985 en í dag er það rekið í 46 löndum. Verkefnið er undir hatti alþjóðlegra samtaka um umhverfismennt, Foundation for Environmental Education (FEE), og hefur Landvernd verið fulltrúi FEE á Íslandi frá árinu 2001. Bláfánaverkefninu var hleypt af stokkunum hér á landi árið 2002. Árið 2012 flögguðu þrír staðir fánanum á Íslandi en á alþjóðavísu var flaggað á 3850 stöðum. Áætlað er að flagga á sjö stöðum á Íslandi á árinu 2013.

Smábátahöfnin á Borgarfirði eystri er staðsett við Hafnarhólmann og er aðstaðan við hólmann til fuglaskoðunar með eindæmum góð. Þar er auðvelt að komast í návígi við lunda, fýl, ritu og æðarfugl auk annarra tegunda sem dvelja í og við hólmann. Á undanförnum árum hefur Borgarfjarðarhreppur ásamt landeigendum lagt metnað sinn í að byggja upp aðstöðu fyrir ferðamenn til fuglaskoðunar og útivistar við höfnina.

Til hamingju með Bláfánann, Borgfirðingar!

http://www.borgarfjordureystri.is/
http://puffins.is/

Ert þú í Landvernd?

Taktu afstöðu með náttúrunni og gakktu í Landvernd