Fimmtudaginn 6. júní var Bláfánanum flaggað í fyrsta sinn í Kópavogi. Ármann Kr. Ólafsson bæjarstjóri tók á móti Bláfánanum við smábátahöfn Kópavogs í gær þar sem Siglingafélagið Ýmir hefur aðsetur.
Í fréttatilkynningu frá Kópavogsbæ kemur fram að ‘markvisst hefur verið unnið að því frá byrjun þessa árs að fá Bláfánann hingað í Kópavog, en þar hafa lagt lóð á vogarskálarnar umhverfis- og samgöngunefnd, starfsmenn umhverfissviðs, hafnarvörður og Siglingafélagið Ýmir. Bláfáninn er mikil viðurkenning fyrir Kópavogsbæ. Bærinn mun í samstarfi við siglingafélagið standa að umhverfisfræðslu fyrir starfsmenn Kópaness og félagsmenn Ýmis. Þau börn sem verða á siglinganámskeiði í sumar hjá Kópanesi verða einnig frædd um umhverfismál, flokkun á sorpi og mikilvægi öryggis í kringum siglingar.’
Við sömu athöfn var vígt nýtt fróðleiksskilti með helstu upplýsingum um Bláfánaverkefnið, öryggi við höfnina, umgengnisreglur og umhverfi hafnarinnar.
Til hamingju, Kópavogsbúar!