„Við erum mjög stolt af þessari viðurkenningu og sérstaklega hvað gæði baðvatnsins hér á Langasandi eru mikil,“ sagði Regína Ásvaldsdóttir, bæjarstjóri Akraneskaupstaðar, í ávarpi sínu þegar hún tók á móti Bláfánanum.
Bláfáninn var dreginn að húni í fyrsta skipti á Langasandi fimmtudaginn 20. júní. Regína og Íris Reynisdóttir garðyrkjustjóri tóku á móti viðurkenningunni í blíðskaparveðri. Leikskólabörn frá leikskólanum Akraseli voru viðstödd athöfnina og sungu nokkur lög.
Akraneskaupstaður tekur vatnssýni úr sjónum mánaðarlega, en það er eitt af skilyrðum Bláfánans, og hafa sýnin komið mjög vel út. Einnig er ströndin hreinsuð vikulega, búið er að koma upp upplýsingaskilti um ströndina, huga að öryggismálum og verið er að undirbúa uppsetningu flóðatöflu.
Nokkur fræðsluverkefni eru unnin af börnum og ungmennum á Akranesi í tengslum við Langasand. Börn í 6. bekk í báðum grunnskólunum hreinsa strandlengjuna á vorin, leikskólabörn á Akraseli hafa unnið með sérstakt verkefni sem tengist Langasandi og börn í hópnum Gaman saman, sem eru fötluð og ófötluð börn á aldrinum 10 til 12 ára, vinna einnig umhverfisverkefni í tengslum við sandinn.
Landvernd óskar Akraneskaupstað innilega til hamingju með Bláfánann á Langasandi.