Bréf til bæjarstjórnar Seltjarnarness.

Hér má lesa bréf sent bæjarstjórn Seltjarnarness 21. janúar 2026. 

 

Stjórnir Landverndar og Fuglaverndar vilja með þessu bréfi hvetja bæjaryfirvöld Seltjarnarnesbæjar eindregið til að fara að ráðum sérfræðinga og samþykkja þær breytingar á friðlýsingu í og við Gróttu sem nú liggja fyrir.

Rannsóknir og faglegt mat hafa sýnt fram á mikilvægi þess að friða nærliggjandi svæði umhverfis friðlandið í og við Gróttu og Bakkatjörn. Umrædd svæði mynda í raun eitt samfellt vistkerfi sem gegnir lykilhlutverki fyrir fuglalíf, sem varp-, fæðuöflunar-, setu- og hvíldarsvæði. Sundurlaus friðlýsing dregur úr verndargildi svæðanna, á meðan samfelld friðun styrkir getu náttúrunnar til að starfa eftir eigin lögmálum.

Eins og sérfræðingar hafa bent á, og bæði samtök taka heilshugar undir, er forsenda þess að náttúrulegt fuglalíf fái að dafna að varpstaðir, fæðuöflunarstaðir, setstaðir og hvíldarstaðir fugla séu varðveittir. Í því skyni er mikilvægt að undirbúin verði friðun Daltjarnar, sem og fjörusvæða við Bakkavík og Suðurnes sem hluta af heildstæðri verndun svæðisins.

Slík ákvörðun væri ekki einungis mikilvægur áfangasigur fyrir náttúruvernd, heldur einnig skýr yfirlýsing um ábyrgð Seltjarnarnesbæjar gagnvart vernd lífríkis, sjálfbærri landnotkun og framtíðarkynslóðum. Hún samræmist jafnframt gildandi aðalskipulagi sveitarfélagsins og alþjóðlegum skuldbindingum Íslands um vernd líffræðilegrar fjölbreytni.

Samtökin Landvernd og Fuglavernd hvetja bæjaryfirvöld því til að sýna fagmennsku og framsýni með því að samþykkja fyrirhugaðar breytingar á friðlýsingu Gróttu og tryggja þannig raunverulega og heildstæða vernd þessa einstaka náttúrusvæðis.

Ert þú í Landvernd?

Taktu afstöðu með náttúrunni og gakktu í Landvernd