Um það er ekki deilt að fiskeldi í opnum sjókvíum getur valdið margvíslegum neikvæðum umhverfisáhrifum. Sífellt koma upp ný dæmi um það á Íslandi. Áhrifin eru bæði bein og óbein, þ.e. tengjast allri virðiskeðjunni frá öflun fóðurs, flutninga og notkunar lyfja og bóluefna og sleppinga á fiski sem geta haft áhrif á líffræðilegan fjölbreytileika. Þekking á langtímaáhrifum við Ísland er takmörkuð og lög og reglur virðast ekki þróast í sama takti og ör vöxtur greinarinnar. Óhætt er að fullyrða að núverandi fyrirkomulag og rekstur fiskeldis í opnum sjókvíum er langt frá því að uppfylla almenn skilyrði um „sjálfbærni“.
Stjórn Landverndar telur því afar varhugavert að halda áfram á sömu braut vaxtar í fiskeldi í opnum sjókvíum. Nú er tímabært að staldra við, meta stöðuna og áhrifin á náttúru og umhverfi og bæta lög og reglur og styrkja eftirlit.
Með þessu bréfi hvetur Landvernd ráðherra til að koma í veg fyrir fyrirsjáanlegt umhverfisslys við Örlygshöfn, styrkja og bæta allt regluverk fyrir fiskeldi í opnum sjávarkvíum og banna frekari vöxt fiskeldis þar til þekking um langtímaáhrif þess eldis sem þegar er komið af stað á Íslandi er fyrir hendi.