Til stendur að efla umhverfismerkið Svaninn.
Umhverfisráðherrar Norðurlandanna hafa samþykkt nýja metnaðarfulla stefnumótun fyrir norræna umhverfismerkið Svaninn til ársins 2015. Meðal annars ákváðu ráðherrarnir á fundi sínum í Reykjavík 2. nóvember að hækka fjárframlag til Svansins í fjórar milljónir danskra króna á næsta ári eða sem samsvarar rúmum 83 milljónum íslenskra króna. Ísland var leiðandi í gerð stefnumótunarinnar, en hún er eitt þeirra verkefna sem lögð var sérstök áhersla á á formennskuári Íslands í Norrænu ráðherranefndinni.