Einstök náttúra Íslands

Náttúra Íslands er einstök og þarf hún að fá að njóta vafans. Verndum náttúruna, landvernd.is
Ljósmyndari: Þóra Ellen Þórhallsdóttir
Náttúra íslands er viðkvæm og með aukinni vitund um nauðsyn verndar má tryggja að komandi kynslóðir fái hennar einnig notið.

Úthafseyjan Ísland kúrir norður við heimskautsbaug víðsfjarri öðrum löndum. Ekki eru nema rétt um 15.000 ár síðan hún var hulin þykkum ísaldarjökli langt í sjó fram. Lífríki á þurrlendi er væntanlega að öllu eða langmestu aðkomið eftir að síðasta kuldaskeiði lauk. Ótal eldgosum og ellefu hundrað ára landnámi síðar er það hér enn, laskað en lífvænlegt. Plöntu- og dýrategundir eru að vísu fáar en stofnar margra þeirra stórir og útbreiddir. Hvergi við Norður-Atlantshaf eru stærri laxastofnar eða sjófuglabjörg og sumarlangt dvelja hér nokkrir af stærstu vaðfuglastofnum Evrópu. Mót hlýrra og kaldra sjávarstrauma skapa sjávarlífverum hagfelld skilyrði enda geymir íslenska hafsvæðið ein gjöfulustu fiskimið jarðar og stóra stofna sjávarspendýra.

Þótt Ísland sé óvenju strjálbýlt land og vel yfir helmingur þess óbyggður, hefur gróður- og jarðvegseyðing verið óskapleg og úthagi ber víða merki þungrar og langvarandi beitar. Með aukinni vitund um nauðsyn gróðurverndar, hlýnandi loftslagi og landgræðslu eru líkur til að landið endurheimti smám saman sitt forna, lágstemmda gróðurskrúð.

Snorri Baldursson
Lífríki Íslands, 2014.

©Kristján Ingi Erlendsson, ljósmyndari. Kristján Ingi er höfundur bókarinnar Unique Island og fær Landvernd 5% af söluandvirði hverrar bókar.

Ert þú í Landvernd?

Taktu afstöðu með náttúrunni og gakktu í Landvernd