Framkvæmdastjóri Landverndar segir skerðingu á raforku til fiskimjölsverksmiðja og stórnotenda ekki afsökun til að virkja meira. Telur hún frekar þörf á því að efla rafflutningskerfið og endurskoða hvernig tryggja megi raforku yfir háveturinn eða á þeim tíma sem að raforkuframleiðslan er sem lægst.
Landsvirkjun tilkynnti á dögunum að ákvörðun hefði verið tekin um að skerða afhendingu raforku til fiskimjölsverksmiðja og stórnotenda með skerðanlega skammtímasamninga strax, en ekki í janúar líkt og upphaflega var áætlað.
Gunnþór Ingvason forstjóri Síldarvinnslunnar hefur áætlaði að skerðingin á raforku til fiskimjölsverksmiðja muni kalla á aukna olíunotkun upp á 20 milljón lítra. Nemur það um 54.400 tonnum af kolefnisígildum og mun kolefnisspor íslensks sjávarútvegs margfaldast.
Óheppilegt en fyrirsjáanlegt
“Það eru þrír þættir sem að hitta allir á á sama tíma. Það er að raforkuframleiðsla er alltaf lægst yfir háveturinn á Íslandi, álverðið er hátt og álverin vilja nota þá orku sem þau eiga samninga um, og loðnuvertíðin. Þetta gerist allt á sama tíma. Þetta er náttúrulega mjög slæmt en stór hluti í þessu sem virðist gleymast er að flutningsnetið ræður ekki alveg nógu vel við þetta. […] Þetta er bæði óheppilegt og kannski tilfallandi en eitthvað sem að hefði verið hægt að sjá fyrir,” segir Auður Önnu Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri Landverndar.Mikilvægt að skoða lausnirnar vel
Hún segir mikilvægt að leggjast vel yfir vandamálið og skoða hvaða lausnir standa til boða en að forðast skuli að nýta þessa stöðu sem afsökun til að virkja meira. Frekar þurfi að finna lausn á því hvernig hægt sé að geyma orku þegar vel árar fyrir þann tíma sem eftirspurn er mikil og framleiðsla minni. “Þetta náttúrulega ræðst af því að raforkuframleiðslan hjá okkur er lægst á þeim tíma sem loðnubræðslurnar nota raforku. Síðan restina af árinu nota þær enga raforku. […] Við þurfum að skoða hvernig við getum tryggt raforku til notenda sem að nota bara raforku á þessum tíma. Það þarf að gera það mjög yfirvegað og ekki með þeim upphrópunum sem hafa verið núna og fullyrðingum um að vandamálið sé almennur skortur á raforkuframleiðslu þegar þetta er tilfallandi og líka skýrt af flutningskerfinu.” Þá telur Auður einnig tilefni til að endurskoða forgangsröðun raforkusölu en nú séu álverin alltaf í hæsta forgangi.Ísland með óverðskuldað orðspor
Spurð hvort hún telji þessa þróun sverta orðspor Íslands í umhverfismálum í ljósi þess hve framarlega við stöndum þegar kemur að endurnýjanlegum orkugjöfum, kveðst Auður standa í þeirri trú um að Ísland sé nú þegar með óverðskuldað gott orðspor í þeim málaflokki. “Svona alþjóðlega hefur Ísland gott orð á sér að vera grænt land með litla losun en tölurnar sýna bara annað. Við erum með miklu meiri losun per íbúa heldur en meðaltal í Evrópusambandinu og við erum með næst hæstu losunina í allir Evrópu á eftir Lúxemborg. Þetta er orðspor sem að við eigum ekki alveg inni fyrir. Ég myndi segja að hættan væri frekar að orðsporið myndi aðlaga sig að veruleikanum en við verðum auðvitað að standa okkur miklu betur og ég veit að við höfum ekki staðið okkur í að grípa til aðgerða til að draga úr losun.”Tengt efni
Umdeildar ákvarðanir starfsstjórnar
12. desember, 2024
Áskorun náttúruverndarsamtaka inn í sáttmála ríkisstjórnar
9. desember, 2024