Í gær var undirritaður samstarfssamningur WOW air og umhverfisverndarsamtakanna Landverndar en flugfélagið mun frá og með 15. febrúar bjóða farþegum sínum að styrkja Landvernd með myntsöfnun um borð í vélum sínum. WOW air mun koma með mótframlag og jafna þá upphæð sem farþegar félagsins safna um borð.
Um er að ræða samstarf þar sem WOW air mun hafa milligöngu um fjársöfnun fyrir hönd farþega félagsins. Sérstakt umslag verður í sætisvösum allra WOW air flugvéla og eru farþegar hvattir til þess að gefa afgangsmynt til Landverndar sem mun nýtast samtökunum til að efla stuðning við stofnun hálendisþjóðgarðs, vinna að landgræðslu og fleiri mikilvægum umhverfisverkefnum á Íslandi.
„Það er ánægjulegt að geta ljáð þessu verðuga málefni lið og við erum mjög stolt af því starfa með Landvernd. Við teljum þetta málefni skipta miklu máli, sérstaklega í stóra samhenginu og því ætlum við að jafna öll framlög til fulls frá farþegum okkar,„ segir Skúli Mogensen forstjóri og stofnandi WOW air.
„Við erum afskaplega ánægð með að WOW air hafi tekið þá ákvörðun að gefa farþegum sínum tækifæri á að styðja starfsemi náttúruverndarsamtaka. Við munum nota fjármagnið til að efla stuðning við hálendisþjóðgarð, landgræðslu, endurheimt birkiskóga og votlendis og til að efla þátttöku Landverndar í ákvarðanatöku um umhverfismál,„ segir Snorri Baldursson, formaður Landverndar.