Verkefnið Ungt umhverfisfréttafólk hjá Landvernd er ætlað ungu fólki og snýst um að kynna sér umhverfismál og miðla upplýsingum til almennings með fjölbreyttum leiðum. Tíu verkefni komust í undanúrslit árið 2020. Verkefnin voru af ólíkum toga og komu frá framhaldsskólum víðsvegar af landinu. Eitt verkefnanna var vefsíða um fatasóun á Íslandi.
Þær Birta Margrét og Harpa María, 17 ára nemendur úr Menntaskólanum við sund unnu að gerð vefsíðunnar í umhverfisfræði. Tengja þær síðuna við 12. heimsmarkmiðið, ábyrga neyslu. Á síðunni má finna fræðslu um fatasóun, vísbendingar um umfang hennar og viðtöl við tvær þekktar konur í fatabransanum; Andreu Magnúsdóttur fatahönnnuð og Brynju Dan Gunnarsdóttur.
Undanfarnar vikur höfum við verið að læra um hin ýmsu umhverfismál, okkur þykir alltof margar ógnir umhverfisins vera af mannavöldum – Birta og Harpa
Birta og Harpa veita lesendum góð ráð til þess að sporna gegn eigin fatasóun:
- stilla innkaupum í hóf
- tileinka sér nægjusemi
- kaupa einungis það sem er bráðnauðsynlegt
- fylgja ekki tísku í einu og öllu
- fara vel með þann fatnað sem til er
- gera við fatnað sem hægt er að laga t.d. saumsprettur eða annað slíkt
- spyrjast fyrir um hvaðan fatnaðurinn kemur, hver gerði hann?
- gefa gömlum fatnaði nýtt líf t.d. Rauði krossinn
- nýta sér síður á netinu þar sem sala á notuðum fatnaði er auglýstur
- kaupa endingargóðan fatnað
- hugsa um gæði fremur en verð
- sýna auðmýkt og vera þakklátur fyrir það sem maður hefur
Í viðtali við Brynju Dan, eiganda Extraloppunnar, greinir hún frá því að hafa ekki verið meðvituð um fatasóun þegar hún var að alast upp. „Ég ólst upp við að það væri það besta í heimi að fara í verslunarferðir og komast í verslanir á borð við Primark. Búð sem ég forðast eins og heitan eldinn í dag. En sem betur fer er ansi breytt hugarfar í dag og allir meðvitaðir um að hlýnun jarðar er ekki mýta og við verðum öll sem eitt að hjálpast að við að viðhalda plánetunni okkar fyrir komandi kynslóðir.“ – Brynja Dan
Þrjú verkefni um fatasóun komust í undanúrslit Ungs umhverfisfréttafólks árið 2020. Tvö þeirra voru vefsíður en hér má nálgast hina síðuna. Það þriðja var fatateppi, saumað úr fötum sem fólk var hætt að nota. Smelltu á myndina hér að neðan til þess að vita meira um teppið!