Ferðir með Landvernd og Ferðafélagi Íslands í sumar
Háhitasvæði á Reykjanesskaga, 23. júní 2013
Fararstjóri Sigmundur Einarsson jarðfræðingur
Ferð sem hefst á fyrirlestri um jarðfræði Reykjanesskagans og hugmyndir um jarðhitavirkjanir á svæðinu. Að því loknu er ekið með rútu frá Reykjanesbraut, um Afstapahraun að Höskuldarvöllum og Trölladyngju. Gengið verður upp á hæðina sem eftir stendur af Eldborg við Trölladyngju og horft yfir jarðhitasvæðið en gígurinn er hornpunktur í Reykjanesfólkvangi.
Háhitasvæði Mývatnssveitar og Öskju, 29. júní – 1. júlí 2013
Fararstjórar: Kristján Jónasson og Jón S. Ólafsson
Ferð um misfjölfarin en sérlega viðkvæm háhitasvæði, þar sem náttúruvernd snýr bæði að virkjunum og ferðamennskju, þ.e. að ferðamennska þróist þannig að hún komi ekki niður á gæðum svæðanna. Sérstaða íslenskra háhitasvæða lýsir sér í margbreytilegri jarðfræði og afar áhugaverðum aðlögunum lífvera að einstökum búsvæðum í hverum og affallslækjum háhitans.
Náttúruperlur í Vestur-Skaftafellssýslu: gengið með Hólmsá að Strútslaug, 4-7. júlí 2013
Fararstjórar: Vigfús Gunnar Gíslason, Gísli Már Gíslason og Þóra Ellen Þórhallsdóttir auk heimamanna.
Trússuð tjaldferð þar sem gengið er meðfram Hólmsá alla dagana. Ferðin hefst þar sem Hólmsáin, straumhart og mórautt jökulfljót, fellur í Flögulón. Ofar er hún vatnsmikið bergvatn með ótal fossum og hólmum og við Brytalæki er komið í tærar lindir. Ferðin endar við upptök árinnar í suðurhlíðum Torfajökuls. Alla daga þarf að vaða en aldrei djúpt eða straumþungt vatn. Tjaldsvæði og svefnpokagisting í boði í Tunguseli fyrir og eftir ferð en ekki innifalin í verði.