Landvernd stendur fyrir þremur ferðum í sumar í samstarfi við Ferðafélag Íslands (FÍ). Skráning er hjá FÍ í síma 568 2533 eða með því að senda tölvupóst á fi@fi.is. Lýsingu ferðanna má sjá hér að neðan og á vefsíðu FÍ.
Landvernd hefur fengið kokk í lengri ferðirnar (seinni tvær). Þátttakendur verða boðaðir á undirbúningsfund fyrir þessar ferðir, þar sem fyrirkomulag ferðanna verður nánar rætt.
Ferðirnar eru allar hluti af verkefni Landverndar um Sjálfbæra ferðamennsku og náttúruvernd á háhitasvæðum.
2. júní 2012: Jarðhitasvæðin við vesturjaðar Reykjanesfólkvangs
Brottför frá Mörkinni 6 kl. 10:00. Frá Reykjanesbraut verður ekið um Afstapahraun að Höskuldarvöllum og Trölladyngju. Gengið verður upp á hæðina sem eftir stendur af Eldborg við Trölladyngju og horft yfir jarðhitasvæðið en gígurinn er hornpunktur í Reykjanesfólkvangi. Frá Trölladyngju verður ekið að borholu HS Orku í hrauninu vestur af Sogum þar sem rútan verður yfirgefin. Þar er ætlunin að skoða jarðhitasvæði ásamt sprengigíg í hrauninu. Síðan verður gengið upp í Sogin, farið yfir myndunarsögu þeirra og litið á jarðhitann. Farið verður að Spákonuvatni en á þeirri leið fæst góð sýn yfir Sogin og gígasvæðið vestan undir Núpshlíðarhálsi en þar er upptakasvæði Afstapahrauns sem runnið hefur allt til sjávar í Vatnsleysuvík.
Gengið verður suðvestur með Núpshlíðarhálsi að Hvernum eina, en gufur frá honum mátti sjá frá Reykjavík í lok 19. aldar. Farið verður suður eftir Selsvöllum sem príddir eru einkar formfögrum gjallgígum. Frá Selsvöllum verður haldið að Hraunsels-Vatnsfelli og suður með fellinu að Sandfelli og litið við á litlu jarðhitasvæði sem þar er. Haldið verður suður með fellinu og Höfða en milli fellanna og Núpshlíðarháls eru Skolahraun og Leggjarbrjótshaun. Komið er á Suðurstrandarveg við Méltunnuklif þar sem rútan bíður. Í klifinu er tilvalið að skoða fornar jökulrákir á milli hraunlaga.
Gera má ráð fyrir að gangan sjálf taki 4-6 tíma.
Leiðsögumaður: Reynir Ingibjartsson, göngubókahöfundur.
2.-3. júlí 2012: Háhitasvæði í Þingeyjarsýslu
Mánudagur: Lagt er af stað frá Akureyrarflugvelli kl. 9:00 og ekið til Húsavíkur þar sem farið verður upp á Reykjaheiði og ekið til suðurs að Þeistareykjum. Hópurinn verður leiddur um jarðhitasvæðið að Þeistareykjum, gengið verður upp á Bæjarfjall en þaðan er gott útsýni yfir jarðhitasvæðið og landið umhverfis. Um miðjan dag verður ekið austur í átt að Gjástykki, gengið verður frá Draugagrundum, norðan Gæsafjalla. Gist verður í félagsheimilinu á Breiðumýri.
Þriðjudagur: Að morgni verður ekið upp að jarðhitasvæðinu við Kröflu, jarðfræði svæðisins verður skoðuð og gerð grein fyrir flóru og fánu svæðisins. Ekið verður í norðurátt að Sandmúla og síðasti spölurinn genginn að hrauninu úr síðustu Kröflueldum. Farðið verður að Leirhnjúki og hraunjaðar Kröflugosa frá mismunandi tímum skoðaður. Gengið verður umhverfis sprengigíginn Víti og fyrirhuguð staðsetning Kröfluvirkjunar II skoðuð. Umhverfi Hlíðardalslækjar verður skoðað á leið til baka frá Kröflu. Stoppað verður við Hverarönd við Námaskarð og síðan haldið vestur yfir skarðið yfir í Bjarnarflag, þar sem gegnið verður um jarðhitasvæðið m.a. á Jarðbaðshóla. Stefnt er að því að vera komin aftur til Akureyrar kl. 18.
Leiðsögumenn verða: Brynjólfur Eyjólfsson, jarðeðlisfræðingur, Grétar G. Ingvarsson, jarðfræðingur og Jón S. ólafsson vatnalíffræðingur.
Vonarskarð – Víðerni í Vatnajökulsþjóðgarði
10.-12. ágúst (til vara: 17.-19. ágúst): föstudagur til sunnudags
Skoðuð verða jarðhitasvæði og eldstöðvar í Vonarskarði við miðju landsins, út frá sérstöðu og náttúruverndargildi.
Föstudagur: Brottför frá Mörkinni 6 kl. 16. Ekið frá Reykjavík í náttstað í Nýjadal.
Laugardagur: Ekið að morgni dags inn á Gæsavatnaleið að Gjóstuklifi. Þaðan er gengið yfir sanda Rauðár að jarðhitasvæðinu við Laugakúlu. Farið í bað í Varmá sem rennur úr kolsýruhverum sunnan undir Kúlunni. Stærsta eldstöð landsins, Bárðarbunga, rís tilkomumikil yfir víðerninu í Vonarskarði. Litfögur líparítfjöll, Eggja og Skrauti, móbergsfjöll og grásvartir sandar einkenna landslagið. Frá hverasvæðinu er gengið meðfram Eggju og um Mjóháls tilbaka í Nýjadal. Drjúg dagleið (8-12 tímar). Mikilvægt að fólk sé vel búið og nestað.
Sunnudagur: Lagt verður af stað heim eftir góða hvíld. Á leiðinni til Reykjavíkur verða Kvíslaveitur skoðaðar og ef til vill litið inn í Veiðivötn. Heimkoma áætluð um kl. 19.
Leiðsögumaður verður Kristján Jónasson, jarðfræðingur.
“