Fyrirmyndarskólinn Fjölbrautaskólinn við Ármúla er í forystu íslenskra framhaldsskóla í umhverfismálum. Í dag, á 35 ára afmæli skólans, tóku nemendur í umhverfisráði, þær Bylgja og Anna Karen við sjötta Grænfána skólans.
Dagskráin var vegleg og var forseti Íslands viðstaddur athöfnina. Rapparinn Emmsjé Gauti sem er nýlega útskrifaður úr skólanum flutti tvö lög, og var krýndur forsetabuffinu af virðulegum forseta vorum, Guðna Th. Jóhannessyni.
Fjölbrautaskólinn við Ármúla var fyrsti framhaldsskólinn til að fá Grænfána og hefur skólinn verið þátttakandi í verkefninu í 11 ár. Í dag hlaut skólinn sinn sjötta Grænfána fyrir vel unnin störf. Að baki þessum fána liggur mikil vinna en umhverfisnefnd og sjálfbærninefnd hafa farið fyrir innleiðingu sjálfbærra vinnubragða í skólanum með Bryndísi Valsdóttur, ólaf Sigurjónsson og núverandi nemendur í umhverfisnefnd þær Bylgju Guðjónsdóttur og Önnu Karen Kolbeins í forystu. Nemendur í umhverfisfræði hafa haft mikil áhrif og nemendur allir, hafa á einn eða annan hátt tekið þátt í að gera skólann að sjálfbærari stað.
Lýðræðisleg vinnubrögð eru mikilvæg í skólastarfi en í Fjölbrautarskólanum við Ármúla geta nemendur haft áhrif. Með stuðningi stjórnenda fá nemendur að blómstra og er það vissulega valdeflandi fyrir þá og alla nemendur í skólasamfélaginu.
Eitt af fyrirmyndarverkefnum í skólanum er hjólaverkefnið, en með því að hvetja nemendur og starfsfólk til að hjóla og ganga í skólann tekur skólinn afgerandi afstöðu með vistvænum samgöngum. Til hamingju með daginn!
“