Opið bréf til fjölmiðla á Íslandi.
Landvernd skorar á fjölmiðla landsins að ráða til starfa umhverfis, náttúru og loftslagsfréttamenn með þekkingu og yfirsýn á mikilvægasta málaflokki samtímans og framtíðarinnar.
Áþreifanlegt bakslag í náttúruvernd og loftslagsmálum stafar ekki af áhugaleysi og er ekki á ábyrgð almennings, heldur sterkra hagsmunaðila sem hafa hag af því að halda umræðu um málaflokkinn niðri.
Umfjöllun um náttúruvernd og loftslagsvernd hefur lotið í lægra haldi fyrir ákafri umræðu um auðlindanýtingu, þar sem hagvöxtur er æðsta markmiðið.
Óumdeilt er að umhverfis- og loftslagsmál eru stærstu áskoranir mannkyns og virtir fjölmiðlar í almannaþágu erlendis starfrækja fréttadeildir og sinna rannsóknarfréttamennsku í umhverfismálum. Á Íslandi er lítið um slíkt og minnkandi. Umhverfisverðlaun sem stjórnarráðið veitt fjölmiðlafólki árlega voru síðast veitt fyrir fimm árum.
Við skorum á að RÚV fjölmiðill í almannaeigu og aðrir íslenskir fjölmiðlar axli ábyrgð í náttúru- og loftslagsmálum og standi fyrir víðtækri, upplýstri og gagnrýnni umfjöllun á sviði umhverfismála.
Íslensk náttúra á sér fáa málsvara í stjórnmálunum og því er hlutverk fjölmiðla og sérstaklega RÚV brýnna og stærra en nokkru sinni.


