Flug Spóans

Spói í forgrunni og Hekla í bakgrunni. Líklega verpa 40% spóa heimsins á Íslandi. Ljósmynd Tómas Grétar Gunnarsson.
Spói stendur við Heklu. Ljósmynd: Tómas Grétar Gunnarsson
Spóar fljúga sex þúsund kílómetra frá vetrarstöðvum sínum í V-Afríku til Íslands í einum rykk. Tómas Grétar Gunnarsson forstöðumaður Rannsóknarseturs Háskóla Íslands á Suðurlandi skrifar um spóann.

Tómas Grétar Gunnarsson vistfræðingur skrifar

Tómas Grétar Gunnarsson.

Í síðustu viku apríl fer einn og einn spói að sjást á landinu. Þessir fyrstu fuglar eru oft áberandi þreytulegir, kviðdregnir og flaksast áfram með djúpum vængjatökum. Flestir þeirra fugla sem svo er ástatt um hafa líklega lagt að baki um 6 þúsund kílómetra flug frá vetrarstöðvum sínum í V-Afríku, í einum rykk. Þetta flug tekur þá um fjóra daga og fjórar nætur án hvíldar. Langflestir spóar koma þó til landsins í fyrstu viku maí eftir að hafa haft viðkomu á Írlandi og Bretlandi í um eina til tvær vikur þar sem þeir hvíla sig og fita áður en þeir leggja í lokasprettinn til Íslands.

Flogið án hvíldar

Eftir um 20 daga dvöl á landinu fara þeir að verpa en flestir spóar verpa á hálfs mánaðar tímabili um mánaðamótin maí-júní. Þetta er ófrávíkjanlegt mynstur og aðeins þeir sem missa eggin sín mjög snemma reyna að verpa aftur sama sumar. Ungar verða fleygir á tæpum mánuði. Feðurnir gæta unganna allan tímann en flestar mæður yfirgefa fjölskylduna nokkrum dögum áður en ungarnir verða fleygir. Fullorðnir spóar yfirgefa landið í lok júlí og byrjun ágúst en á haustfarinu fljúga nær allir spóar beint til V-Afríku án hvíldar! Ungfuglarnir yfirgefa landið seinna, flestir seinni hluta ágúst.

Háflug með meðbyr

Á veðursælum síðsumarskvöldum má sjá spóahópa skrúfa sig hátt í loft upp við suðurströnd landsins. Þar hverfa þeir upp í heiðblámann og ómur af köllum þeirra heyrist löngu eftir að fuglarnir eru hættir að sjást með sjónauka. Einn og einn spói hættir við og kemur aftur til jarðar og bíður eftir betri degi. Þetta háflug þjónar líklega einkum þeim tilgangi að leita að meðbyr í mismunandi hæð, en miklu munar fyrir orkuvarðveislu að leggja af stað í svo erfitt og hvíldarlaust flug í góðum byr. Fremur flestum íslenskum vaðfuglum er spóinn á mjög strangri tímaáætlun. Hann dvelur fjær Íslandi á veturna en flestir aðrir landfuglar og hefur fáar vísbendingar um hvernig tíðarfarið er á Íslandi að vori. Hann kemur því seint (þegar úti er vetrarþraut) til landsins þegar hætta á vorhretum er hverfandi. Nær allur stofninn verpur á örstuttum tíma og fuglarnir byrja strax að undirbúa sig fyrir haustfarið, samhliða uppeldi unga.

 

Spóar á flugi. Spóinn flýgur 6.000 km leið frá V-Afríku í einum rykk. Ljósmynd: Tómas Grétar Gunnarsson
Spóinn flýgur 6.000 km leið frá V-Afríku í einum rykk. Ljósmynd: Tómas Grétar Gunnarsson

Ótrúleg farkerfi fugla dæmi um einstæða aðlögun lífvera að umhverfi sínu

Hjá spóa og nokkrum öðrum tegundum vaðfugla hefur þróast langt viðstöðulaust farflug af þessu tagi. Metið eiga lappajaðrakanar sem verpa í Alaska og hafa vetursetu á Nýja Sjálandi. Þeir fljúga um 11 þúsund kílómetra án viðkomu og tekur flugið rúma viku. Þessi ótrúlegu farkerfi hafa þróast á löngum tíma og eru skólabókardæmi um einstæða aðlögun lífvera að umhverfi sínu. Mikið flugþol, hæfileikar til að rata og halda átt yfir kennileitalausu úthafinu og fínstilltar tímasetningar atburða yfir árið eru allt flóknir eiginleikar sem spila saman. Þessir hæfileikar, sem hafa þróast á löngum tíma, gera spóum kleift að nýta sér til hagsbóta jafn ólíkar aðstæður og finnast á hvítum ströndum V-Afríku og Markarfljótsaurum.

Spóar snúa aftur á sömu staði ár eftir ár

Auk almennra einkenna tegundarinnar má einnig sjá merkilegar aðlaganir hjá einstaklingum, ekki síst eiginleika sem geta þroskast á langri ævi. Þannig snúa spóar aftur á sömu varp- og vetrarstaði á hverju ári og læra á hin fínni blæbrigði umhverfisins með reynslunni. Þeir læra hvar fæðu og öryggi er að finna, læra að þekkja nágranna sína og aðlaga viðbrögð sín við þeim. Þannig mætti halda lengi áfram en við erum aðeins skammt á veg komin við að öðlast skilning á hinu flókna lífi farfuglanna og flestra annarra lífvera. Það sem við köllum spóa er afurð umhverfisins, einstakt form sem lífið hefur tekið á sig á milljónum ára, form sem kemur aldrei aftur.

Náttúruvernd snýst um að taka frá land fyrir líf

Til að varðveita þau fjölbreyttu verðmæti sem felast í lífinu er nauðsynlegt að huga að ferlum sem móta lífverur og vistkerfi. Lífverur verða að hafa rými og tækifæri til að þróast og viðhalda sér. Meðal annars svo stofnar geti aðlagast breytingum á umhverfinu. Til þess þarf að viðhalda breytileika á mismunandi skipulagsstigum lífsins frá erfðabreytileika, fjölbreytni einstaklinga og stofna, upp í vistkerfi. Slík ferlahugsun er að koma með skýrari hætti inn í vísindi um vernd líffræðilegrar fjölbreytni en líffræðileg fjölbreytni myndar og viðheldur öllu lífi á jörðinni. Og þar komum við að kjarna náttúruverndar. Hún snýst fyrst og fremst um að taka frá land fyrir líf eða að samræma nýtingu og vernd á sem skástan hátt. Spóinn gefur gott dæmi um þörf á að huga að ferlum í náttúruvernd. Þeir verpa hvergi (í heiminum) þéttar en á hálfgrónum áraurum og söndum á Íslandi, sem eru einkum á flæðisléttum stóráa en einnig við sjóinn á nokkrum stöðum. Viðhald þessara sérstæðu búsvæða er háð því að ferlar (flóð) í náttúrunni fái að hafa sinn gang. Þannig myndast og viðhelst sá sérstæði bútasaumur vistgerða sem einkennir þéttustu spóavörpin. Breytingar á vatnafari og landnám innfluttra tegunda ógna þessum svæðum nú með afgerandi hætti og þar með þeim ferlum þróunar og fjölbreytni sem á þeim velta.

Líklega verpa um 40% spóa heimsins á Íslandi

Á tímabilum þrenginga í jarðsögunni, t.d. vegna loftslagsbreytinga, hafa sumir farfuglar og aðrar lífverur getað aðlagað útbreiðslu sína eftir því sem skilyrði breytast. Því er ekki til að dreifa nú, því við mennirnir erum nú alls staðar. Þess vegna er aukin þörf á að vernda lífverur á núverandi útbreiðslusvæðum. Alþjóðlegir samningar í náttúruvernd taka mið af þessu. Hver þjóð verndar það sem er einstakt í hverju landi. Líklega verpa um 40% af spóum heimsins á hinu örsmáa láglendi Íslands. Engin önnur þjóð ber viðlíka ábyrgð á tegundinni. Það sama á við nokkrar aðrar tegundir landfugla. Þær mynda útvalda sérsveit þrautseigra farfugla sem eru færir um að heimsækja þessa einangruðu eldfjallaeyju á hverju vori og eru ríkur þáttur í sérstöðu Íslands. Spóar eru ekki upphaf eða endir í náttúruvernd en þeir eru nærtækt dæmi um einstakt náttúruundur sem við Íslendingar berum meiri ábyrgð á en aðrir. Það er í okkar höndum hvort hið stórbrotna langflug sem spóinn hefur þreytt yfir Atlantshafi í þúsundir ára viðhelst eða deyr út.

Spói í forgrunni og Hekla í bakgrunni. Líklega verpa 40% spóa heimsins á Íslandi. Ljósmynd Tómas Grétar Gunnarsson.
Spói við Heklu. Líklega verpa 40% spóa heimsins á Íslandi. Ljósmynd: Tómas Grétar Gunnarsson.

Tengt efni

Umdeildar ákvarðanir starfsstjórnar

Landvernd skorar á nýja ríkisstjórn að afturkalla ákvarðanir starfsstjórnar í umdeildum málum og vinna þau upp á nýtt með lýðræðislegum hætti.

Áskorun náttúruverndarsamtaka inn í sáttmála ríkisstjórnar

Umhverfisverndarsamtök og náttúruvinir skora á nýja ríkisstjórn að halda vel utan um umhverfis- og loftslagsmálin. Það er brýnt að tekið sé tillit til loftslagsmarkmiða, að ...

Ert þú í Landvernd?

Taktu afstöðu með náttúrunni og gakktu í Landvernd