Foundation for Environmental Education (FEE) eru alþjóðleg samtök um umhverfismennt sem rekin eru á grundvelli frjálsra félagasamtaka með styrkjum, frjálsum framlögum og félagsgjöldum, (Non-Governmental og Non-Profit Organisation). Starf samtakanna er í því fólgið að stuðla að frjórri umræðu um umhverfismál í skólum, á vinnustöðum og meðal almennings, þ.e. mennta samfélagið til sjálfbærni. Starfið er verkefnatengt og hugsað til að hvetja þjóðir heims til að tileinka sér vistvænan lífsstíl og starfshætti sem taka mið af velferð komandi kynslóða.
Umhverfisfræðsluverkefni FEE
Umhverfismenntaverkefni FEE eru fimm talsins, þ.e. Bláfáninn (Blue Flag), Grænfáninn (Green Flag), Ungir umhverfisfréttamenn (Young Reporters), Að læra um skóga (Learning about Forests) og Græni lykillinn (Green Key). Góður árangur þátttakenda í verkefnum FEE er verðlaunaður með sérstakri viðurkenningu, þ.e. fánum sem setja mikinn svip á umhverfið.
FEE eru alþjóðleg regnhlífasamtök. Yfir 67 þjóðir taka þátt í verkefnum á vegum samtakanna og er einn samstarfsaðili í hverju landi. Landvernd gerðist félagi að FEE árið 2000 og voru fyrstu Grænfánarnir dregnir að hún 2002 og ári síðar fyrstu Bláfánarnir. Landvernd hefur rekið nokkur verkefni FEE og í dag rekur Landvernd tvö FEE-verkefni sem eru Grænfáninn (Skólar á grænni grein) og Ungir umhverfisfréttamenn (YRE). Landvernd fór með umsjón Bláfánans á árunum 2002-2018 og Græna lykilsins á árunum 2015-2017.
Markmið FEE
Tilgangurinn með starfi FEE er að stuðla að framgangi sjálfbærrar þróunar og tóna verkefni samtakanna vel við starfsáætlun 21. aldar (Local Agenda 21) sem er hluti af sáttmála Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun. Íslendingar eiga aðild að sáttmálanum og gengur starfsáætlun, sem unnin er staðbundið til að fylgja markmiðum hans eftir, hér undir nafninu Staðardagskrá 21. Verkefni FEE henta sveitarfélögum um allan heim einkar vel sem tæki til að mjaka samfélaginu í átt til sjálfbærni.