Hið íslenska náttúrufræðifélag efnir til fræðsluerindis mánudaginn 26. mars kl. 17:15 í Öskju, náttúrufræðahúsi Háskóla Íslands um Sigurð Þórarinsson jarðfræðing.
„Í erindinu verða nefnd dæmi um rannsóknir íslenskra jökla á fyrri hluta 20. aldar, þætti Sigurðar þar í og þeim ferðamáta sem þar var viðhafður allt frá mannsfótum til vélsleða og snjóbíla. Þá verður fjallað lítilega um aðra íslenska jarðfræðinga svo sem Tómas Tryggvason og Guðmund Kjartansson, sem hófu jarðfræðinám á svipuðum tíma og Sigurður. Sigurð má nefna fyrsta íslenska menntaða jöklafræðinginn en einnig kom hann að jarðskjálfta- og fornleifarannsóknum á námsárum sínum. Frægastur varð hann þó á sviði eldfjallafræði og þá einkum fyrir gjóskulagatímatalið (Tefrokronologiska studier på Island) sem var efni doktorsritgerðar hans. Þar varð Sigurður brautryðjandi á heimsvísu. Meginhluti erindisins fjallar þó um kennslu hans í jarð- og landfræði við Háskóla Íslands árin 1968-1970, sem þá voru nýjar við HÍ, og þá ekki síst vettvangsferðir á vori svo sem að Heklugosinu 1970. Þá verður einnig reynt að bregða ljósi á náttúruverdarmanninn Sigurð Þórarinsson og áherslu hans á þau málefni bæði heima og á heimsvísu. Í ljósi aðstæðna þeirra mála nú mun Sigurður hafa verið þar öðrum framsýnni. Stuðst verður við myndefni, gamalt og nýtt.„
Björn Pálsson (f.1942) hóf nám í sagnfræði með landa-og jarðfræði sem hliðargreinar við HÍ haustið 1968 og lauk þar BA-prófi í sagnfræði. Á námsárunum kenndi hann þessar þrjár greinar bæði við MR og MH. Síðan vann hann við kennslu og bankastörf til ársins 1990. Þá varð hann héraðsskjalavörður Árnesinga og sinnti því verkefni að mestu til starfloka 2009.
Aðgangur að fræðsluerindum HÍN er ókeypis og öllum heimill.