Fræðsluganga um Leiruvog og Blikastaðakró

Síðustu helgi stóðu Íbúasamtök Grafarvogs og  Landvernd fyrir frábærum gönguferðum með það að markmiði að kynna almenning  fyrir síðustu óröskuðu strandlengju höfuðborgarsvæðisins. Gengið var frá Geldinganes leiðinni,  um Blikastaðakró og Leiruvog en stendurnar og leirurnar eru friðlýst svæði vegna mikillar líffræðilegrar fjölbreytni.
 
Göngurnar voru bæði laugardag og sunnudag í frábæru veðri og bar margt fyrir augu. Hópurinn sá meðal annars fuglalíf og helling af landselum. Að minnsta kosti 30 selir lágu og böðuðu sig í mikilli nálægð við gönguhópinn. Á svæðinu eru þrjár lax-og silungsgengar ár. Markmiðið með göngunni var að vekja borgarbúa  til vitundar um þetta svæði þar sem nú er fyrirhuguð stórframkvæmd Sundabrautar sem mun að óbreyttu valda óafturkræfum náttúruspjöllum. Mikil og keðjuverkandi neikvæð áhrif yrðu á, fuglalífi, fiski, landselunum og botndýralífi, þar sem setlög og leirur skaðast með þrengingum á friðlýsta svæðinu.
Leiðsögumennirnir voru Ásta Þorleifsdóttir, Einar Þorleifsson og Jón Baldur Hlíðberg.
 
 
Göngurnar tókust hreint frábærlega og viljum við hjá Landvernd nota tækifærið hér og minna íbúa stór höfuðborgarsvæðisins á að enn er hægt að bjarga þessari stóru útivistarperlu með því að hafna Sundabraut í þeirri mynd sem hún hefur verið kynnt. Verum minnug um gildi þess að eiga óraskaða náttúru í borginni en nú þegar er búið að raska um 85% af náttúrulegum fjörum Reykjavíkur með grjótvarnargörðum. Segjum hingað og ekki lengra.
 
 
 
 
 
 
 

Ert þú í Landvernd?

Taktu afstöðu með náttúrunni og gakktu í Landvernd