Sérstæði íslenskrar náttúru

Guðmundur Ingi Guðbrandsson framkvæmdastjóri Landverndar hélt fyrirlestur um mikilvægi náttúrunnar og náttúruverndar fyrir þróun og framtíð ferðaþjónustunnar og lagði sérstaka áherslu á hálendi Íslands

Framkvæmdastjóri Landverndar, Guðmundur Ingi Guðbrandsson, hélt fyrirlestur á málþingi Félags leiðsögumanna í tilefni af 40 ára afmæli félagsins þann 26. október sl. 

Guðmundur Ingi fjallaði um mikilvægi náttúruverndar fyrir framtíð íslands og tengdi það sérstaklega við ferðaþjónustuna sem fyrst og fremst byggir á náttúru landsins, en flestir sem hingað koma nefna náttúruna sem ástæðu íslandsferðar og um helmingur nefnir hálendið. 

Guðmundur Ingi lagði áherslu á að ferðaþjónustan yrði að þróast með þeim hætti að hún gengi ekki á náttúruarfinn sem væri undirstaða greinarinnar. Þess vegna þyrfti náttúruverndarhreyfingin, ferðaþjónustan og leiðsögumenn að vinna mun meira saman að því að hlúa að náttúrunni í allri stefnumótun og framkvæmd innan greinarinnar. 

Þá ræddi hann sérstaklega um miðhálendi íslands og þróun ferðamennsku þar, ekki síst í tengslum við tillögu að landsskipulagsstefnu fyrir miðhálendið sem Skipulagsstofnun sendi nýlega frá sér til umsagnar. 

Fyrirlesturinn í heild sinni fer hér á eftir, en í viðhengi eru glærur sem eiga við erindið.

Hver er sérstaða íslenskrar náttúru?

Ég vil byrja á því að færa Félagi leiðsögumanna árnaðaróskir Landverndar í tilefni af 40 ára afmæli félagsins og þakka fyrir boðið hér í dag.
það eru ríkar ástæður fyrir því að setja náttúruvernd í öndvegi á íslandi. Hér er að finna stór óbyggð svæði þar sem áhrifa mannanna gætir lítið. þannig eigum við ein stærstu lítt snortnu víðerni í Evrópu sem mikilvægt er að viðhalda sem slíkum, og við berum ábyrgð á.

Eitt af því sem gerir íslenska náttúru sérstæða er mikill jarðfræðilegur fjölbreytileiki:
• stór og afar virk eldfjöll,
• landslag mótað af samspili elds og íss
• og mikilvægar náttúruauðlindir fólgnar í vatnsföllum og jarðvarma.
• Hér eru mörg, bæði stór og smærri, lindarvötn og lindarár,
• fossar margir og tilkomumiklir
• og enn eigum við tiltölulega ósnortin vatnsföll bæði jökulvötn og önnur, þó svo að þessi hafi verið undir síauknum þrýstingi um nýtingu til raforkuframleiðslu á undanförnum áratugum.

Fjölbreytt jarðfræði og ung eyja

Líffræðilegur fjölbreytileiki er ekki mikill miðað við lönd á svipuðum breiddargráðum ef miðað er við fjölda tegunda, enda hafa tegundir ekki haft langan tíma til landnáms eftir að síðasta ísaldarskeiði lauk og landfræðileg einangrun út í miðju N-Atlantshafi er mikil. Hinsvegar hefur hin fjölbreytta jarðfræði og ungur aldur landsins skapað afar fjölbreyttar aðstæður fyrir þróun þeirra tiltölulega fáu tegunda sem hér finnast. þetta sést vel í fjölbreytileika ýmissa ferskvatnsfiska, sérlega bleikju og hornsíla, þróun lífvera við afar erfiðar lífeðlisfræðilegar aðstæður, svo sem hveraörvera í affalli sjóðandi vatns sem hvergi finnast annarsstaðar í heiminum. þá skal nefna að hér eru ein stærstu fuglabjörg í N-Atlantshafi og sumir mikilvægir fuglastofnar eiga hér samastað. Hér er að finna stærstu hraunbreiður með samfelldri mosaþekju, og nokkuð stór rústasvæði.

Hvert er gildi náttúrunnar?

þá má ekki gleyma gildi náttúrunnar fyrir sjálfið og heilsu fólks. Rannsóknir í umhverfissálfræði hafa sýnt fram á ótvírætt gildi náttúrunnar fyrir endurnæringu sálar og líkama, sem undirstrikar mikilvægi náttúruverndar.

Víðerni og landslag sérstætt

Það má því segja að náttúra Íslands sé um margt sérstæð, kannski ekki síst landslag og víðerni. Kannanir hjá Rannsóknum og ráðgjöf ferðaþjónustunnar hafa sýnt að helsta ástæða íslandsferðar er einmitt íslensk náttúra, en milli 80-90% erlendra ferðamanna nefna hana iðulega sem ástæðu íslandsfarar, þá sækja margir í sögu okkar og menningu. 

Af afþreyingu sækja flestir í náttúruskoðun og náttúran og landslagið eða aðrir þættir tengdir náttúru landsins eru minnisstæðastir úr íslandsferð.
Ferðaþjónustan byggir því fyrst og fremst á náttúru íslands og ímynd hennar hverfist um náttúruna. 

Það er því er sérlega mikilvægt fyrir þessa atvinnugrein að hlúa að náttúruauðnum og þar bera allir ábyrgð, stjórnvöld, hagsmunaaðilar í geiranum og almenningur allur. 

Þetta endurspeglast vel í Ferðamálaáætlun 2011-2020, þar sem segir að íslensk náttúra sé auðlind ferðaþjónustunnar. Þar segir jafnframt að uppbygging innviða ferðaþjónustunnar verði að miða að því að vernda náttúru íslands og að stefnumörkun þurfi að miða að því að innleiða hugarfar sjálfbærni og ábyrðar á náttúru landsins og menningu.

Sjálfbær ferðamennska

En lítum þá aðeins betur á hugtakið sjálfbær ferðamennska. Sjálfbær þróun hefur a.m.k. þrjár grunnstoðir; efnahagsstoð, samfélagsstoð og náttúruauð. 

Samspil þessara stoða má líta á með mismunandi hætti. Annarsvegar þar sem að þær eru allar nokkuð jafnar eins og hér er sýnt, og hinsvegar þar sem að efnahagsstoðin og samfélagsstoðin hvíla á náttúruauðnum, og eru háðar því að ekki sé gengið of freklega á hann eða hann nái að endurnýja sig og viðhalda sér. 

Hið fyrrnefnda má nefna veika sjálfbærni og hið síðarnefnda sterka sjálfbærni. ég vil líta svo á og legg á það ríka áherslu að þróun ferðaþjónustunnar taki mið af sterkri sjálfbærni, ekki síst í ljósi þess hve háð hún virðist vera náttúruauðnum.

Ferðamönnum fjölgar

Frá árinu 2000, hefur fjöldi ferðamanna til landsins nærri tvöfaldast. árleg aukning hefur að jafnaði verið 6,1% milli ára á þessu tímabili. 

Ef þessi þróun heldur áfram má gera ráð fyrir einni milljón ferðamanna til íslands árið 2020. Þetta hefur gríðarlega mikla þýðingu fyrir þróun ferðaþjónustunnar í átt að sterkri sjálfbærni. 

Spyrja má hvort að:
a) ferðaþjónustan sé tilbúin fyrir þessa aukningu, og
b) hvort að hin viðkvæma íslenska náttúra sé í stakk búin til að þola ágang svo margra. Þar spila margir þættir inn í, m.a. hversu viðkvæm svæði eru, aðgengi þeirra og umgengni og ekki síst innviðir.


Vinnum saman að því að þróa ferðaþjónustu í sátt við náttúru og samfélag

Sameiginlegt verkefni stjórnvalda, hagsmunaðila í ferðaþjónustu og umhverfis- og náttúruverndarsamtaka er að tryggja að þróun ferðaþjónustunnar verði í átt að sterkri sjálfbærni, þar sem að viðgangur og viðhald undirstöðunnar, náttúruauðsins, gengur framar hinum stoðunum.

En hvað þýðir sterk sjálfbærni ferðaþjónustunnar í praksís? Hvað þýðir hún í samhengi hinnar ágætu yfirskriftar þessa málþings: Aðgengi, umgengni og framtíð ferðamannastaða á íslandi?

Aðgengi og umgengni

þegar kemur að aðgengi og umgengni verður að huga vel að mismunandi þörfum ferðafólks. þeir sem sækja í mikla þjónustu (þjónustusinnar) vilja hafa gott aðgengi og hátt stig þjónustu, meðan þeir sem sækja í að vera einir með náttúrunni (púristar) njóta áskorana þar sem aðgengi er takmarkað og þjónustustig lágt. Skipulagning ferðamannastaða og ferðamannasvæða verður að taka mið af þessum mismunandi þörfum fólks ef atvinnugreinin á að þróast í átt að sjálfbærni. 

Til að vernda náttúruauðinn á sama tíma og við viljum að fólk njóti hans, getur þetta þýtt:
a) aukna uppbyggingu innviða til að mæta meiri fjölda ferðamanna og auknum ágangi
b) takmörkun aðgangs með stýringu á fjölda ferðamanna á ákveðnum svæðum til draga úr ágangi eða auka upplifunargildi náttúrunnar
[Hið fyrra á fremur við um þar sem þjónustustig er aukið og þolmörk víkkuð út með frekari uppbyggingu innviða, en hið síðara þar sem verið er að standa vörð um takmarkað aðgengi og náttúrulegra umhverfi. Málið er því ekki svo einfalt að gera þurfi endurbætur jafnt á fjölförnum sem fáförnum ferðamannastöðum – það er ekki sjálfsagt mál að auka þjónustustig og aðgang.]


Hvað ber framtíðin í skauti sér?

Ég vil nú beina sjónum að framtíð ferðamannastaða á íslandi, eða framtíð ferðaþjónustunnar m.t.t. þróunar hennar í átt að sterkri sjálfbærni. þegar litið er til framtíðar þá er grundvallaratriði að efla stefnumörkun sem tryggir sjálfbæra þróun ferðaþjónustunnar. Líta þarf a.m.k. til eftirfarandi þátta:
a) rannsóknir á þoli ferðamannastaða, bæði vistfræðilega og samfélagslega og vöktun þessara þátta gefa nauðsynlegar vísbendingar um í hvaða átt ástand ferðamannastaða stefnir
b) skipulag sem tryggir að mismunandi þörfum ferðafólks sé fullnægt, en tekur fyrst og fremst mið af þoli náttúrunnar sjálfrar
c) þróun vísa (indicators) fyrir vistfræðilega, samfélagslega og hagræna þætti
d) aðkoma og þátttaka mismunandi hagsmunaaðila tryggð
e) fræðsla um náttúru íslands verði aukin

Hálendið – okkar helsti fjársjóður

Mig langar nú að einbeita mér að hálendi Íslands, en ég tel að verndun þess sé farsælt spor, og ekki síður mikilvægt fyrir ferðaþjónustuna. Um 50% erlendra ferðamanna nefnir hálendið sem ástæðu íslandsfarar og um 40% þeirra heimsækja það. Fjöldi íslendinga sækir einnig inn á hálendið. þá sækja einnig margir í kyrrð en fátt jafnast á við öræfakyrrðina. ég ætla að renna aðeins í gegnum nýlega útkomna tillögu Skipulagsstofnunar að landsskipulagsstefnu 2013-2024, en tillagan varðar m.a. skipulagsmál á miðhálendi íslands og er því afar mikilvæg fyrir náttúruvernd og ferðamennsku á svæðinu. Margt gott kemur þar fram en hnykkja þarf á ýmsum atriðum til að stefna megi þjóna náttúruvernd og ferðaþjónustu í landinu.


í stefnunni segir m.a.: „Miðhálendið hefur sérstöðu á landsvísu og í alþjóðlegu samhengi þar sem þar er eitt stærsta landsvæði sunnan heimskautsbaugs í Evrópu sem aldrei hefur verið numið af mönnum. Gildi svæðisins felst ekki síður í einstakri náttúru, gróðurvinjum, jarðfræði og landmótun, samspili elds og íss og óviðjafnanlegum andstæðum í landslagi og víðernum.“
það má því leiða líkum að því að hálendi íslands sé afar mikilvægt fyrir ferðaþjónustu í landinu.


Víðernin eru einstök á heimsmælikvarða

Það eru kannski ekki síst hin stóru víðerni sem eru mikilvæg í þessu sambandi, en samkvæmt kortlagningu Umhverfisstofnunar frá 2009 þekja þau um 38% landsins, mest á miðhálendinu. Víðernum hefur þó hnignað mikið á síðustu áratugum. í Hvítbók um náttúruvernd er sagt að víðernum standi helst ógn af orkuframleiðslu í tengslum við virkjanaframkvæmdir og ferðamennsku vegna aksturs utan vega, uppbyggingu fjallaskála, auk ferðamannanna sjálfra.
í tillögu Skipulagsstofnunar að landsskipulagsstefnu segir: „í samhengi við landsskipulagsstefnu er brýnasta verkefnið að viðhalda stórum samfelldum svæðum þar sem mannvirkjagerð er í lágmarki og uppbygging þjónustu og annarra nauðsynlegra mannvirkja verði á jöðrum miðhálendisins og tilteknum uppbyggingarsvæðum“. Undir þetta er tekið, en svo heldur áfram: „til að styrkja stefnu um stór og samfelld verndarsvæði eru í landsskipulagsstefnunni skilgreind tvö megin mannvirkjabelti þvert yfir miðhálendið þar sem gert er ráð fyrir meiriháttar framkvæmdum“.


Hvergi kemur fram í stefnunni, hvar þessi mannvirkjabelti liggja nákvæmlega og hvað felst í þeim – hvað þýðir mannvirkjabelti í skilningi landsskipulagsstefnu? þá er sett fram sú tillaga að á miðhálendinu verði myndaðar þrjár stórar, samfelldar verndarheildir (sem eru þá klofnar í sundur af þessum megin mannvirkjabeltum). Stærð þeirra eða landfræðileg lega er hinsvegar ekki skilgreind með nokkrum hætti. Skilgreiningar þessa eru lykilatriði fyrir náttúruvernd á svæðinu. þessu verður að bæta úr.
ég tel að mun skynsamlegra sé að mynda eina stóra verndarheild með mismunandi verndarstigum innan svæðisins, þar sem sumsstaðar væri mjög ströng vernd en annarsstaðar væri hefðbundin landnýting og ferðamennska leyfð, en jafnframt fylgst náið með áhrifum hvoru tveggja á náttúruauðinn og reynt að tryggja með virkri stefnumótun og eftirfylgni að ekki sé gengið á náttúrugæði.

Stofnum hálendisþjóðgarð

Nokkur sterk rök eru fyrir því að mynda eina stóra verndarheild:
– Um 90% miðhálendisins nýtur nú þegar einhverskonar verndar, sem þjóðgarður, svæði á náttúruminjaskrá, hverfisvernd o.s.frv.
– í umhverfismati við tillögu Skipulagsstofnunar að landsskipulagi er talið að allar sviðsmyndir sem notaðar voru nema verndarmiðuð nýting valdi neikvæðum eða verulega neikvæðum áhrifum. í verndarmiðaðri nýtingu var gert ráð fyrir einni samfelldri verndarheild og stofnun þjóðgarðs.
– þá sýndi skoðanakönnun sem 13 náttúruverndarfélög létu vinna í október 2011 að 56% þjóðarinnar er fylgjandi stofnun þjóðgarðs á miðhálendi íslands, þvert á stjórnmálaflokka.
– Með einni verndarheild fæst mun skýrari yfirsýn yfir miðhálendið sem heild og mikilvæga auðlind okkar íslendinga. öllum frekari virkjunum ætti að halda utan miðhálendisins sem og orkuflutningskerfum, enda sýna kannanir að fólki finnst þetta ekki fara saman
Frekari uppbygging í tengslum við ferðaþjónustu ætti af fara fyrst og fremst fram í jöðrum hálendisins, en annars á þeim stöðum sem fyrir eru. Vegir verði látlausir í landslaginu og ekki uppbyggðir, en jafnframt styrktir á meginleiðum um Kjöl og Sprengisand. Skilgreint verði gaumgæfilega hvar má leyfa vélknúna umferð og hvar ekki, til að draga úr núningi milli ferðamanna sem vilja njóta náttúru og kyrrðar öræfanna á mismunandi hátt. þá er mikilvægt að svæðið verði í umsjón ríkisins eða stofnunar á vegum þess til að samræma betur heildarsýn og athafnir mannanna á miðhálendinu, í stað þess að það sé í höndum margra sveitarfélaga. Mun líklegra er að nauðsynlegri reglu verði komið á skipulag og landnýtingu, svo sem verndarflokkun, stýringu ferðamanna, landvörslu og eftirliti, gróðurvernd o.s.frv. ef það er á hendi einnar stofnunar, en vissulega í nánu samstarfi við sveitarfélög. það ætti að vera keppikefli ferðaþjónustunnar og náttúruverndarsamtaka að hvetja stjórnvöld til að laga þessa þætti í landsskipulagsstefnu, en allir eru þeir afar mikilvægir fyrir aðgengi, umgengni og framtíð ferðamannastaða á hálendinu.

Að lokum
Um leið og ég þakka aftur fyrir að fá að koma hér í dag og koma á framfæri sjónarmiðum Landverndar varðandi framtíð ferðaþjónustunnar, þá vil ég hvetja til mun meira samstarfs náttúruverndarhreyfingarinnar, ferðaþjónustunnar og leiðsögumanna. Við eigum sameiginlegra hagsmuna að gæta, en rödd okkar þarf að verða mun sterkari. T.d. finnst mér ekki hafa heyrst nærri nógu mikið í ferðaþjónustuaðilum varðandi rammaáætlun, þar sem að fyrirhugað er að setja í nýtingarflokk fjölda mikilvægra svæða fyrir ferðaþjónustuna. ég brýni ykkur hér með til þess að láta meira til ykkar taka í þessum efnum.

Hér má síðan sjá eina ályktun Náttúruverndarþings frá í apríl sem náttúruverndarfélögin stóðu að. þar stjórnaði Landvernd málstofu um náttúruvernd og ferðaþjónustu og sú málstofa ályktaði eftirfarandi:
– að komið verði á samvinnu um mótun eftirfylgni við markmið um ferðamennsku og útivist í sátt við umhverfi og náttúru
– að stórauka rannsóknir og þekkingu á áhrifum ferðamennsku og útivistar, m.a. að auka mælingar og vöktun á umhverfislegum og félagslegum þolmörkum svæða og stórauka fræðslu um mikilvægi náttúrunnar sem hornsteins ferðaiðnaðarins
– móta stefnu um og efla menntun leiðsögumanna og landvarða þannig að hún verði einnig til á háskólastigi
– veita stórauknu fé til rannsókna tengdum áhrifum ferðamennsku á náttúru og umhverfi. þess má geta að þrátt fyrir að ferðaþjónustan skili um 20% af útflutningstekjum þjóðarinnar, þá fær hún einungis 0,5% af sameiginlegu opinberu rannsóknafé atvinnuveganna.

Nú alveg að lokum vil ég vekja athygli fundargesta á verkefni sem Landvernd ýtti úr vör á þessu ári um sjálfbæra ferðamennsku og náttúruvernd á háhitasvæðum.

Kynningin Sérstaða íslenskrar náttúru 

Ert þú í Landvernd?

Taktu afstöðu með náttúrunni og gakktu í Landvernd