Framkvæmdir á Kili

Frá Kili, mynd Guðmundur Ingi Guðbrandsson, landvernd.is
Kjölur og næsta nágrenni eru hluti af gersemum miðhálendisins. Kjalvegur er þar meginsamgönguæð og við hann eru mörg fjölsótt svæði sem hafa hátt náttúruverndargildi. Að mati Landverndar ætti svæðið að vera hluti af miðhálendisþjóðgarði og allar skipulagsákvarðanir að taka mið af því.

Undanfarin ár hafa staðið yfir vegaframkvæmdir á svæðinu og nýverið var hafist handa við hótelbyggingu í Kerlingarfjöllum. Landvernd hefur tekið undir ábendingar Ferðamálastofu í þessum tveimur málum varðandi þörf á heildarstefnu um uppbyggingu ferðamannastaða á hálendinu og mat á heildaráhrifum framkvæmda þar.

Pylsuskurður Vegagerðarinnar

Haustið 2015 ákvað Landvernd að bera undir úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála þá ákvörðun Skipulagsstofnunar að ekki þyrfti að meta umhverfisáhrif vegagerðar um Kjöl. Umrædd ákvörðun tók aðeins til 3 km vegspotta norðan Hvítár. En þar með er ekki öll sagan sögð. Frá árinu 1995 hefur Vegagerðin í misstórum áföngum unnið að breytingum á um 40 km kafla Kjalvegar, allt frá Gullfossi og langleiðina að Árbúðum. Um er að ræða uppbyggðan veg sem víða er utan eldra vegstæðis. Vegagerðin hefur ekki látið fara fram mat á umhverfisáhrifum þessara framkvæmda og ekki heldur tilkynnt þær til Skipulagsstofnunar eins og lög kveða á um. Sveitarfélagið samþykkti framkvæmdina og hefur sú ákvörðun einnig verið borin undir úrskurðarnefndina.

Með því að búta vegaframkvæmdirnar niður í áfanga án þess að tilkynna um heildarframkvæmdina til Skipulagsstofnunar beitir Vegagerðin alþekktri aðferð, s.k. „salami slicing“ eða „pylsuskurði“, til þess að skjóta sér undan mati á umhverfisáhrifum. Hver framkvæmdakafli er styttri en svo að skylt sé að umhverfismeta hann. „Pylsuskurður“ stenst ekki löggjöfina um umhverfismat að mati Landverndar og um það vitna fjölmargir dómar

Evrópudómstólsins, sem Skipulagsstofnun var bent á. Landvernd telur Vegagerðina ekki eiga að vera einráða um endurbyggingu Kjalvegar. Úrskurða er beðið í málum um Kjalveg.

Hótelbygging í Kerlingarfjöllum

Fannborg ehf. hefur rekið gistiaðstöðu í Kerlingarfjöllum um langt árabil. Nú fyrirhugar fyrirtækið að auka við starfsemina og reisa í áföngum gistiaðstöðu fyrir tæplega 350 manns, þar af 240 manns í 120 tveggja manna herbergjum.

Skipulagsstofnun komst að þeirri niðurstöðu í júlí 2015 að ekki þyrfti að umhverfismeta fyrsta áfanga hótelbyggingarinnar, en það þyrfti varðandi síðari tvo áfanga hennar. Gekk sú niðurstaða gegn rökstuddu áliti Ferðamálastofu, sem taldi “nauðsynlegt að taka til alvarlegrar skoðunar” að meta áhrif framkvæmdarinnar á umhverfið. Ferðamálastofa nefndi meðal annars í umsögn nauðsyn þess að meta áhrif fjölgunar ferðamanna á náttúruminjasvæði og gagnrýndi útlitshönnun bygginga er viki frá uppbyggingu í anda fjallaskála. Að mati Landverndar ber afdráttarlaust að meta áhrif framkvæmdarinnar sem heildar. Ljóst er að um grundvallarbreytingu á umfangi og yfirbragði gistiaðstöðunnar í Kerlingarfjöllum yrði að ræða, sem kynni um margt að verða fordæmisgefandi fyrir uppbyggingu annarra hálendismiðstöðva.

Landvernd bar ákvörðun Skipulagsstofnunar undir úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála í ágúst 2015. Sveitarfélagið samþykkti framkvæmdina og hefur Landvernd einnig borið þá ákvörðun undir úrskurðarnefndina og gert kröfu um stöðvun framkvæmda á meðan málið er til umfjöllunar. Úrskurða er beðið.

Ert þú í Landvernd?

Taktu afstöðu með náttúrunni og gakktu í Landvernd