Yfirveguð og sanngjörn umræða er lykillinn að árangri í umhverfismálum. Þess vegna langar mig að bregðast við grein Önnu Hrefnu Ingimundardóttur, aðstoðarframkvæmdarstjóra Samtaka atvinnulífsins, sem birtist í Viðskiptablaðinu 21. júní s.l. þar sem fullyrt var að vegna markmiða Íslands í loftslagsmálum væri kostnaðarsamt stórslys í uppsiglingu.
Loftslagsbreytingar af mannavöldum eru að mínu mati og að mati alþjóða vísindasamfélagsins það efnahagslega, vistfræðilega og félagslega stórslys sem er í uppsiglingu og er það þegar hafið. Milljónir manna um allan heim eru þegar farnar að finna fyrir neikvæðum afleiðingum stærri og tíðari öfgaveðuratburða vegna loftslagsbreytinga og hefur kostnaðurinn vegna náttúruhamfara aldrei verið meiri. Fyrir hverja gráðu sem loftslagið hlýnar verður kostnaðurinn u.þ.b. 12% af vergri heimsframleiðslu skv. Alþjóðaefnahagsráðinu. Við getum því ráðgert að kostnaður vegna loftslagsbreytinga haldi áfram að aukast þar til gripið verður til róttækra aðgerða til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda á heimsvísu.
Ísland er eitt ríkasta land heims og ber því mikla siðferðislega ábyrgð þegar kemur að því að leggja sitt af mörkum í baráttunni gegn loftslagskrísunni. Við höfum fjármagnið, þekkinguna og tæknina til þess en það skortir hugrekkið til að ráðast í stórar að gerðir sem skila nægum samdrætti í losun.
Græn orkuframleiðsla ekki afsökun fyrir aðgerðaleysi
Í grein Önnu Hrefnu kemur fram að Ísland sé fremst í flokki þegar kemur að umhverfisvænni framleiðslu. Hins vegar losar Ísland hvað mest magn gróðurhúsalofttegunda á íbúa í heiminum, meira að segja ef losun vegna landnotkunar, umfangsmestu losunaruppsprettu Íslands, er dregin frá. Því er sérkennilegt að fullyrða að Ísland sé framúrskarandi í umhverfisvænni framleiðslu og vísa til þess forskots sem við höfum þegar kemur að nýtingu grænnar orku. Nýting grænnar orku og lítil losun gróðurhúsalofttegunda virðist nefnilega alls ekki alltaf haldast í hendur á Íslandi. Við framleiðum mesta raforku á hvern íbúa í heiminum en samt erum við meðal þeirra ríkja sem losa hvað mest af gróðurhúsalofttegundum á hvern íbúa.
Það sem gleymist síðan oft í umræðunni um loftslagsaðgerðir og kostnað við þær er að langflestar þessara nauðsynlegu aðgerða verða einnig til bóta fyrir samfélagið óháð ávinningum fyrir loftslagið. Sem dæmi má nefna að ef við myndum stórefla almenningssamgöngur myndi bílaumferð líklega dragast saman og þar með heilsufarsvandamál vegna svifryks og annarra loftmengunarefna. Annað dæmi er endurheimt votlendis sem gæti skilað umtalsverðum samdrætti í losun og í leiðinni bætt vatnsbúskap, varðveitt næringarefni jarðvegsins, búið til búsvæði fyrir votlendisfugla og eflt líffræðilega fjölbreytni. Bæði dæmin myndu einnig draga úr kostnaði fyrir samfélagið til lengri tíma því það verður minna álag á heilbrigðiskerfið með minni loftmengun og heilbrigðari votlendisvistkerfi veita okkur fjölbreytta vistkerfisþjónustu, t.d. fersk vatn, varnir gegn flóðum og frjóan jarðveg.
Loftslagsaðgerðir skynsöm fjárfesting
Loftslagsaðgerðir eiga það langflestar sammerkt að vera efnahagslega ábatasamar fyrir samfélagið til lengri tíma þó að þær kunni að vera íþyngjandi fyrir einstök fyrirtæki til skemmri tíma. Því er mikilvægt að hagsmunir einstakra fyrirtækja séu ekki eina leiðarljósið í ákvarðanatöku um loftslagsmál heldur mótum við stefnur og reglur út frá hagsmunum heildarinnar.
Einnig hefur það lengi verið ljóst að kostnaðurinn við aðgerðaleysi verður ávallt margfaldur á við kostnaðinn við aðgerðirnar sjálfar. Því fyrr sem við grípum til loftslagsaðgerða sem skila raunverulegum samdrætti í losun, því lægri verður heildarkostnaðurinn fyrir samfélagið.
Það að draga úr metnaði loftslagsmarkmiða Íslands, eða að „breyta um kúrs“ og „skilgreina okkar eigin raunhæfu markmið“ eins og það var orðað í grein Önnu Hrefnu, er ekki skynsöm nálgun. Framtíðarhagkerfi heimsins eru lágkolefnishagkerfi og þau lönd og fyrirtæki sem ekki taka þátt í loftslagsvegferðinni af fullum krafti munu einfaldlega dragast aftur úr þegar kemur að samkeppnishæfni.
Það sem væri skynsamlegast fyrir íslensk stjórnvöld og atvinnulífið að gera er að stórauka fjármögnun loftslagsaðgerða til að tryggja nægan samdrátt í losun og tryggja samtímis að samkeppnishæfni íslensk atvinnulífs viðhaldist eða jafnvel aukist á næstu árum. Ef okkur er alvara um að varðveita samkeppnishæfni okkar á alþjóðamarkaði myndum við ekki líta á loftslagsaðgerðir sem íþyngjandi heldur sem skynsama fjárfestingu.
Greinin birtist fyrst í Viðskiptablaðinu, 16. júlí 2024.