Stjórn Landverndar gerir alvarlegar athugasemdir við tillögu Samvinnunefndar miðhálendisins um breytingar á skipulagi svæðis sunnan Hofsjökuls, sem auglýst var 13. janúar s.l. Tillagan felur í sér að náttúruverndarsvæðum yrði umbreytt í virkjunarsvæði.
Í tillögunni, sem auglýst var 14. janúar s.l., er lagt til að heimila Norðlingaöldulón í allt að 567,5 m.y.s., Jafnframt á að heimila setlón með veitu við Þjórsárjökul, við friðlandsmörkin austan við Arnarfell. Þetta er að mati stjórnar Landverndar ekki í samræmi við markmið svæðiskipulags miðhálendisins þess efnis að almennt beri að halda hverskonar mannvirkjagerð á Miðhálendi Íslands í lágmarki og þess í stað að beina henni á jaðarsvæði hálendisins. Þá gengur tillagan þvert á álit Umhverfisstofnunar (sem fram kemur í tillögu að Náttúruverndaráætlun vorið 2003), mats tveggja viðurkenndra erlendra sérfræðinga og niðurstöðu 1. áfanga rammaáætlunar. Auk þess liggur fyrir að góðar líkur eru á því að svæðið sé svo einstakt að það gæti átt heima á heimsminjaskrá UNESCO. Þá telur stjórnin að sýnt hafi verið fram á að umrædd framkvæmd hefði óhjákvæmilega áhrif innfyrir núgildandi friðlandsmörk.
Stjórn Landverndar vill benda á að Umhverfisstofnun og tveir viðurkenndir erlendir sérfræðingar hafa staðfest að friðlandsmörkin eru algjörlega ófullnægjandi. Þá hefur Samvinnunefnd um miðhálendið sjálf staðfest í bókun að landslagsheild Þjórsárvera nái langt útfyrir núverandi mörk friðlands og því er framkvæmdin í heild sinni mikið umhverfisrask á stóru svæði. Komi til virkjanaframkvæmda verður ekki mögulegt að stækka friðlandið þannig að það nái til þeirra náttúruverðmæta sem svæðið býr yfir.
Stjórnin vill vekja athygli á þeirri skoðun Samvinnunefndar miðhálendisins að framangreindar framkvæmd yrðu ,,umfangsmiklar og óafturkræfar” og að nefndin teldi að ekki hefði verið gert mat ,,á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar í heild sinni”. Í ljósi þessarar skoðunar Samvinnunefndarinnar, sem bókuð var á fundi hennar 13. janúar s.l., vekur það furðu að tillagan skuli hafa verið auglýst.
Að mati stjórnar Landverndar hníga öll rök að því að það sé eitt brýnasta verkefnið í náttúruvernd á Íslandi í dag að stækka verndarsvæðið þannig að það falli að náttúrulegum mörkum Þjórsárvera. Jafnframt er mikilvægt að líta til hugmynda um verndun þeirra fjalla og jökla sem móta stórbrotna umgjörð svæðisins. þ.e. Kerlingafjöll í vestri og Hofsjökull í norðri. Samtímis er ástæða til að taka upp viðræður við skrifstofu Heimsminjaskrár UNESCO í þeim tilgangi að kanna hvort þetta svæði eigi ekki heima á Heimsminjaskrá.