Fréttatilkynning vegna framkvæmda í Gálgahrauni

Fern náttúruverndarsamtök mótmæla harðlega að framkvæmdir séu hafnar við nýjan Álftanesveg á sama tíma og Vegamálastjóra hefur verið stefnt vegna framkvæmdanna.

Fern náttúruverndarsamtök, Landvernd, Náttúruverndarsamtök Íslands, Náttúruverndarsamtök Suðvesturlands og Hraunavinir höfðuðu sameiginlega dómsmál í vor til þess að fá skorið úr um lögmæti fyrirhugaðrar framkvæmdar við lagningu svokallaðs nýs Álftanesvegar um þvert Gálaghraun, sögufrægt eldhraun sem er á náttúruminjaskrá.

Samtökin halda því fram að framkvæmdin sé ólögmæt þar sem framkvæmdaleyfi sem gefið var út árið 2009 til eins árs sé löngu útrunnið. Framkvæmdir hafi óumdeilanlega aldrei hafist á gildistíma leyfisins.

Þá sé umhverfismat fyrir framkvæmdinni, sem hafi 10 ára gildistíma að lögum, útrunnið, en umhverfismatið er nú orðið rúmlega 11 ára gamalt. Að auki sé sú framkvæmd sem nú sé verið að hefja allt önnur framkvæmd en sú sem lagt var mat á fyrir 11-14 árum og forsendur allt aðrar.

Aldrei hafi reynt á lögmæti framkvæmdarinnar fyrir dómi, en tveir úrskurðir sem gengið hafa á stjórnsýslustigi hafi snúist um formhlið málsins en ekki efni. Þeir hafi einnig verið milli allt annarra aðila og hafi haft aðra nálgun og hafi því ekkert fordæmisgildi eða forspárgildi um niðurstöðu dómsmáls um lögmæti framkvæmdarinnar, á það hafi einfaldlega aldrei reynt.

Því hafi stefnendur talið ófært annað en að láta reyna á lögmætið fyrir dómi. Umhverfisverndarsamtök á borð við þau sem hér um ræðir starfa ekki einungis eftir lögum, heldur hafa þau einnig veigamiklu hlutverki að gegna á sínu fagsviði sem öryggis- og eftirlitsaðili.

Það kom því stefnendum gersamlega í opna skjöldu þegar í ljós kom að vegamálastjóri virti málssóknina að vettugi. Stefnendur, sem og málssóknina í heild, bera að taka af fullri alvöru.

Sú valdníðsla og valdhroki vegamálastjóra að skrifa undir verksamning við ÍAV tveimur vikum eftir þingfestingu málsins á sér sem betur fer engin þekkt fordæmi. Vonandi eru þessar aðfarir ekki boðberi þess sem koma skal á Íslandi, þá væri réttarríkinu stefnt í voða.

Að lokum er þess að geta að svo virðist vera sem vegamálstjóri sé með þessum vinnubrögðum að reyna skapa pressu með því að kalla yfir sig og eftirá hugsanlega skaðabótaskyldu. Þegar stefna máls þessa var þingfest var ekki búið að undirrita neinn verksamning og því vandséð að embættið hefði bakað sér bótaskyldu þó beðið hefði verið dómsniðurstöðu. Nú kann þetta hins vegar að horfa öðru vísi við eftir frumhlaup vegamálstjóra sem er auðvitað alfarið á hans ábyrgð.

Stefnendur hafa skýra og einfalda stefnu í máli þessu; Í gegnum hraunið verður aldrei farið með lögmætum hætti fyrr en að gengnum dómi um lögmætið.

Stöðvi vegamálastjóri ekki framkvæmdir þær sem hófust á föstudag þegar í stað verður leitað leiða til þess að knýja hann til þess, sem verður auðvitað að skoðast sem afarkostur þegar í hlut eiga opinberir og hálfopinberir aðilar.

Gálgahrauni, 19. ágúst 2013.

Ert þú í Landvernd?

Taktu afstöðu með náttúrunni og gakktu í Landvernd