Fjögur ráð við loftslagskvíða

Hvað er loftslagskvíði?

Tilfinning sem felur í sér kvíða, áhyggjur eða óvissu vegna loftslagsbreytinga. Fólk með mikinn loftslagskvíða óttast til dæmis að jörðin og heimurinn séu alveg að líða undir lok vegna mengunar og loftslagsbreytinga.

Hugtakið umhverfiskvíði er sambærilegt. Fólk með umhverfiskvíða hefur miklar áhyggjur af umhverfismálum.19% Íslendinga finnur fyrir miklum eða mjög miklum umhverfiskvíða.

 

Fjögur ráð við loftslagskvíða

1.Verum meðvituð um eigin tilfinningar

Þegar við upplifum vonleysi, þá þurfum við að minna okkur á það sem við getum raunverulega gert.

Hóflegar áhyggjur af einhverju geta hjálpað okkur að bregðast við og gera eitthvað, en ef við höfum of miklar áhyggjur er hætta á því að okkur geti farið að líða mjög illa og drögum okkur í hlé.

 

2.Greinum áhyggjur okkar

Spáum í hvort við getum gert eitthvað í stöðunni eða ekki. Við getum oft gert meira en við höldum en við þurfum að brjóta það niður og ákveða hvað er raunhæft að hverju sinni. 

 

ahyggjutred, landvernd.is

3.Setjum okkur raunhæf markmið

Einbeitum okkur að því að breyta rétt í þágu umhverfisins á þann hátt sem við treystum okkur til. Setjum okkur nokkur markmið til skemmri tíma og bætum síðan ofan á þau þegar vel hefur tekist.

 

4.Gleymum ekki að njóta lífsins

Það er vissulega mjög mikilvægt að gera eitthvað í málunum.

Til þess að geta gert það þurfum við líka að hlúa að okkur sjálfum og njóta lífsins. Við megum skemmta okkur, gleyma okkur, hlæja, sinna áhugamálunum og hugsa um eitthvað annað en loftslagsmálin. 

Fyrirmyndin Jane Goodall

Heimsfræga vísindakonan Jane Goodall hefur hvatt fólk til þess að leggja sitt af mörkum í þágu umhverfis og loftslagsmála. Ef öll myndu leggja eitthvað af mörkum væri staðan örugglega betri en ef fá eru að gera allt 100% rétt og flest að gera lítið.

Ef við ætlum okkur að taka hverja einustu ákvörðun fullkomlega rétt fyrir umhverfið er hætta á að við verðum örþreytt og gefumst upp. Við verðum að geta veitt okkur svigrúm upp að einhverju marki og lifað lífi okkar.

Það að reyna að finna sátt við það að sumt getum við haft áhrif á en ekki allt. Vandinn er ekki einstaklingsins að leysa heldur samfélagsins í heild. Stjórnvöld þurfa að axla ábyrgð.

Það er þó margt sem við getum gert í þágu umhverfisins. Það reynist mörgum gagnlegt að setja sér nokkur markmið til skemmri tíma og bæta síðan ofan á þau þegar vel hefur tekist.

Enginn getur gert allt en allir geta eitthvað.

Ert þú í Landvernd?

Taktu afstöðu með náttúrunni og gakktu í Landvernd