Náttúran er lykillinn að lausn
Í dag var dagur náttúrunnar á COP 27 – Dagur líffræðilegrar fjölbreytni. Augljóslega gengur ekki að leysa eina krísu með annarri krísu. Ef loftslagskrísan er leyst með aðgerðum sem eyða náttúru og skaða vistkerfi verður mjög stutt í næstu krísu sem ógnar framtíð mannkyns.
Náttúran er ómetanleg því hún er undirstaða lífsins á jörðinni, hún er lífið á jörðínni. Á þessari og síðustu COP ráðstefnu er áhersla á náttúruna bæði sem fyrirbæri sem dregur úr loftslagsbreytingum en verður líka fyrir áhrifum af henni.
Aldrei aftur verður haldin loftslagsráðstefna þar sem náttúran er á hliðarlínunni því án hennar verður ómögulegt að ná kolefnishlutleysi. Eftir nokkrar vikur verður ráðstefna samnings Sameinuðu þjóðanna um líffræðilega fjölbreytni og keflið verður borið frá loftslagsráðstefnunni COP27 til COP15 um líffræðilega fjölbreytni um samtengdar krísur loftslags og náttúru.
Jöklarnir á dagskrá
Ísland setti nýtt bandalag í loftið með Chile, sem fleiri lönd standa að. Það fjallar um verndun og rannsóknir á jöklum og var kynnt á málstofu í Cryosphere skálanum. Þetta vakti takmarkaða athygli á ráðstefnunni, líklega því verkefnið kemur 10 árum (hið minnsta) of seint. Hopun jökla er nú þegar mjög hröð og engum vafa undirorpið að afleiðingar hamfarahlýnunar á jöklana munu eyða þeim.
Fleiri lönd banna olíuleit
Ríkisstjórn Chile tilkynnti líka að þau ætla sér að vera með í BOGA – bandalagi þjóða sem banna vinnslu og leit að olíu í sinni lögsögu. BOGA fór af stað á síðustu COP ráðstefnu og nú tilkynntu margar þjóðir formlega eða óformlega aðild sína að bandalaginu, t.d. Kenya, Fiji eyjar, Portúgal og Tuvalu ásamt Washingtonfylki í USA og Montreal í Kanada.
Stuðningur við þá sem líða vegna hamfarahlýnunar
Samningar náðust um fjárhagslega aðstoð til þeirra landa sem verst verða fyrir barðinu á afleiðingum hamfarahlýnunar. Margar þjóðir finna nú þegar illilega fyrir hamfarahlýnun vegna þurrka, flóða og hækkunar sjávarborðs.
Af hamfarahlýnun og falsspám
Á málstofum í norræna skálanum tóku margir Íslendingar þátt. Fulltrúar ungra umhverfissinna voru algjörlega með puttann á púlsinum en hið sama verður ekki sagt um þingmanninn Bergþór Ólason sem hélt því fram að á öllum ráðstefnum loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna fram til þessa hefði heimsendi verið spáð á næstu 6-10 árum. Það er auðvitað kolrangt því alltaf hefur verið vitað að afleiðingarnar kæmu fram á þessari öld. Í raun eru afleiðingar hamfarahlýnunar sem við sjáum nú ekki í takt við fyrri spár því þær hafa komið hraðar fram en við var búist.
Hvað verður um 1,5 gráðurnar?
Nokkuð er um að haldið sé á lofti slagorðinu um að halda hlýnun innan 1,5°C. Mjög margir orða það þó þannig að við munum að öllum líkindum fara yfir það mark innan 10 ára. Ekki hefur náðst samstaða um að heimurinn losi sig við jarðefnaeldsneyti, EU hefur aukið kolanotkun sína í ár vegna innrásar Rússa í Úkraínu og sama gildir um fleiri þjóðir sem hafa haldið á lofti markmiðum um samdrátt í losun.
Best er að horfa á heiminn eins og hann er en ekki eins og við óskum þess að hann sé og því er rétt að viðurkenna að allar líkur eru á því að heimurinn muni mjög fljótlega hlýna meira en 1,5°C miðað við upphaf iðnbyltingarinnar – með enn hryllilegri afleiðingum fyrir íbúa jarðarinnar.