Fréttir af Loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna – COP27 – mánudagurinn 14. nóvember

Auður Önnu Magnúsdóttir skrifar frá Loftslagsráðstefnu Sameinuðu Þjóðanna
Auður framkvæmdastjóri Landverndar sækir COP27 ráðstefnuna í Sharm-El-Sheik í Egyptalandi. Hún deilir með okkur því sem henni finnst markvert. Mánudagurinn 14. nóvember:

Hver á að borga?

Fyrirferðarmestu umræður dagsins í dag eins og fyrri daga ráðstefnunnar snúast um loftslagsréttlæti og þá sérstaklega hver skuli greiða fyrir þann skaða sem hamfarahlýnun veldur nú þegar. Skv. grunnreglum umhverfisréttar ættu það að vera þeir aðilar sem sögulega hafa losað mest af gróðurhúsalofttegundum, hafa þannig valdið hamfarahlýnun og grætt á því. Verstu afleiðingar loftslagshamfara lenda á fátæku fólki sem ekki hefur átt þátt í að skapa hamfarahlýnunina. Í því ljósi verður erfitt að verja málstað iðnríkjanna sem ekki styðja fátækari ríki svo þau geti a) aðlagast verstu afleiðingum loftslagsbreytinga og b) aukið raforkuframleiðslu sína án jarðefnaeldsneytis.

Annað stórt atriði sem er mikið rætt í dag er fjármögnun alls sem þarf að gera. Flest eru á því að einkaaðilar geti fjármagnað ný orkuver sem ekki byggja á jarðefnaeldsneyti en erfiðara er að fjármagna réttlát umskipti og náttúruverndarsvæði.

Evrópa án jarðefnaeldsneytis

Í Skála Evrópusambandsins var orkudagurinn þar sem farið var yfir þær ótalmörgu áskoranir sem felast í því að losa Evrópu við jarðefnaeldsneyti. Rætt var um að ekki mætti skilja viðkvæma hópa eftir, að starfsfólk í t.d. kolaiðnaði yrði að fá þjálfun í nýju starfi. Þessa þjálfun yrði vart hægt að fjármagna með einkaframtaki, heldur þurfi að finna aðrar leiðir. Auður telur þó að auðvelt sé að skattleggja fyrirtæki sem menga og nýta þá skatta til þess að tryggja að engin séu skilin eftir.

Orkunýtni og orkusparnaður

Einnig var mikið rætt um orkunýtni á orkudegi Evrópusambandins. Orkunýtni og orkusparnaður eru langódýrasta og langauðveldasta leiðin til þess að draga úr losun. Kadri Simson orkumálaráðherra Evrópusambandsins telur að orkunýtni sé mjög vannýtt aðferð til þess að ná markmiðum Parísarsáttmálans en án orkusparnaðar og orkunýtni verður 1,5°C markinu ekki náð. Hún sagði einnig að skýr takmörk væru á því hve mikla orku yrði hægt að framleiða, með og án jarðefnaeldsneyta, og að þau þau mörk yrði að virða.

Framkvæmdastjóri orkumála hjá Evrópuráðinu Ditte Jul Jörgensen segir að orkunotkun verði að minnka á þeim sviðum þar sem orkunotkunin er mest og lofar því að aukin notkun kolaorku í evrópu núna sé aðeins tímabundin vegna innrásar Rússa í Úkraínu. Réttast og fljótlegast væri auðvitað að bregðast við orkukrísunni í Evrópu með því að draga úr orkunotkun iðnaðar og stærri heimila.

Einnig var kallað eftir virkari þátttöku neytenda á orkumarkaði á orkudeginum.

Áhugaverðar nýjungar

Fleiri áhugaverða viðburði og skála er að sjálfsögðu að finna í dag eins og aðra daga. Nefna má , t.d. LIFE for environment í skála Indlands. Sameinuðu arabísku furstadæmin eru með risastóran skála þar sem þeir verða gestgjafar ráðstefnunnar á næsta ári. Áhugaverð áherslubreyting hefur orðið hjá Saudi-Arabíu því fyrir örfáum árum var landið eitt af fáum sem, í félagi við Bandaríkin og Ástralíu, reyndi að skemma fyrir samningaviðræðum aðildarríkja loftslagssamningsins Nú kynna þeir losunarminnstu farþegaþotu í heimi, vetnissamfélag, ný verðlaun fyrir sjálfbærni (þar sem Ólafur Ragnar er í dómnefnd) og nýja tækni í álvinnslu. Skálinn þeirra minnti á flottasta bílaumboð eða mótttöku á mjög fínu hóteli.

Í skála Japana var kynnt ný tegund af mótor sem gæti auðveldað rafvæðingu flugflotans.

Gamlar klisjur enn á kreiki

Í heildina eftir fyrsta dag segir Auður að mikið sé um gamlar klisjur eins og „act now“ leave no-one behind“ og boðskapur um að einhver útgáfa af sólar- og vindorku mun bjarga okkur. Klisjurnar hafa þó vart merkingu lengur því þær hafa verið svo mikið notaðar án þess að gjörðir hafi fylgt. Mjög mikið er fjallað um vetni sem orkubera. Það er gaman að vera í Afríku en líklega er þessi 27. ráðstefna ekki að fara að breyta miklu, hér er mjög mikið af orðum. Reyndar er metnaður Sameinuðu Arabísku furstadæmanna jákvæður (þó trúverðugleikann skorti) og líka jákvætt að fólk sé yfir höfuð að tala um fleira en renewable energy.

Sjáum hvað setur næstu daga!

Ert þú í Landvernd?

Taktu afstöðu með náttúrunni og gakktu í Landvernd