Þann 22,janúar síðastliðinn var friðlýsing Laugarnes staðfest við hátíðlega athöfn í Listasafni Sigurjóns Ólafssonar á Laugarnestanga, með aðild, ríkis, borgar og Minjastofnunar Íslands.
Laugarnes er friðlýst á grunni mjög merkra menningarminja en jafnhliða er um að ræða friðlýsingu sem mun verja mikilvæga náttúru. Laugarnestangi hefur mikið náttúruverndargildi innan borgarmarka meðal annars í ljósi fyrri röskunar á strandlengju höfuðborgarsvæðisins. Friðlýsing þessi mun tryggja að náttúruleg strandlengja ásamt jarðlögum á Laugarnestanga verður ekki raskað frekar og sömuleiðis verður unnið að því að endurheimta og styðja við líffræðilega fjölbreytni og sporna gegn útbreiðslu ágengra tegunda sem ógnað hafa bæði náttúru- og menningarminjum innan svæðisins.
Í lýsingu á vef Minjastofnunar Íslands kemur fram að um mikilvægt útivistarsvæði borgarbúa sé að ræða þar sem er að finna einu óröskuðu fjöruna sem eftir er við norðurströnd Reykjavíkur.
Í verndaráætlun um Laugarnes kemur meðal annars fram:
„Náttúrufarið á Laugarnesi gerir svæðið einstakt í Reykjavík þar sem hægt er að horfa yfir nesið og út í Viðey án truflunar frá mannvirkjum nútímans. Mikilvægt er að halda í þetta merkilega menningarlandslag, samspil náttúru og minja, sem er hvergi að finna annars staðar í Reykjavík.“
Opinn aðgangur og almennar umgengnisreglur
Óheftur aðgangur að verndarsvæðinu.
Til þess að auka líkur á ánægjulegri upplifun gesta og minnka líkur á því að minjum og náttúru sé stofnað í hættu skulu gestir og íbúar fylgja þeim almennu umgengnisreglum sem hér fara á eftir:
-
Gangið um verndarsvæðið með nærgætni og virðingu
-
Raskið hvorki menningar- né náttúruminjum
-
Gangið snyrtilega um svæðið, ekki er leyfilegt að henda eða urða rusl á svæðinu
-
Gangið á göngustígum eða eftir stikuðum slóðum sé þess nokkur kostur
-
Gróðursetjið ekki eða dreifið á annan hátt trjáplöntum eða öðrum plöntum sem geta haft áhrif á minjarnar og/eða eru ekki náttúrulegar/upprunalegar á svæðinu
Landvernd óskar íbúum Reykjavíkur innilega til hamingju með friðlýsinguna og síðast en ekki síst Minjastofnun Íslands og Lauganesvinum sem hafa um langt árabil barist fyrir verndun Laugarnes.




