Friðlýsingar: Ekki gera ekki neitt!

Stöðva verður hernaðinn gegn íslensku lindánum, Tungnafljót í Biskupstungum. Mynd: Magnús Jóhannsson, landvernd.is
Það er óskandi að áframhaldandi vitundarvakning um náttúruvernd hjá almenningi og ráðamönnum þjóðarinnar verði til þessi að við getum staðið vörð um náttúruperlur landsins og verndað þær til framtíðar.

„Ekki gera ekki neitt” hefur glumið í sjónvarpstækjum landsmanna undanfarin ár, auglýsing tryggingafélags til að næla sér í fleiri viðskiptavini með þann boðskap að þú tryggir ekki eftir á þegar skaðinn er skeður. Þessi frasi getur einnig átt við um friðlýsingar því þegar náttúru er raskað er yfirleitt ekki hægt að endurheimta fyrra ástand.

Rask er rask, sama hversu vel er gengið frá skemmdunum eftir á.

Í 1. gr. laga um náttúruvernd stendur: „Markmið laga þessara erað vernda til framtíðar fjölbreytni íslenskrar náttúru […]“. Þetta er göfugt markmið en núna erum við heldur betur komin í kapphlaup við tímann. Rannsókna- og framkvæmdaleyfi eru gefin út án afláts í því skini að nýta náttúruauðlindir og hraði framkvæmda er mikill. Aftur á móti ganga friðlýsingar afar hægt fyrir sig ef marka má árangur undangenginna ára. Mörg ár virðist taka að vernda mikilvæg náttúrusvæði þrátt fyrir að Alþingi hafi lagt blessun sína yfir friðlýsingu þeirra.

Til að varpa ljósi á alvarleika málsins fylgir hér með stutt samantekt um framgang friðlýsinga á síðustu 15 árum.

Þessi samantekt á við þau svæði sem þingið hefur samþykkt með þingsályktunum að skuli friðlýsa, en vissulega hafa önnur svæði verið friðlýst á tímabilinu að beiðni sveitarfélaga.

  • Í þingsályktun um náttúruverndaráætlun 2004-2008 voru sett fram 12 svæði til friðlýsingar. Af þeim hefur Skerjafjörður verið friðlýstur sem hluti af stærra svæði. Vestmannaeyjar og Látrabjarg hafa farið í kynningarferli en eru enn ekki friðlýst. Önnur svæði hafa hvorki farið í kynningarferli eða verið friðlýst og einu þeirra, Eldvörpum á Reykjanesskaga, hefur verið raskað óafturkræft með rannsóknarborunum vegna jarðvarmavirkjunar.
  • Samhliða setningu nýrra laga um Mývatn og Laxá árið 2004 voru tilgreind 11 svæði sem skyldi friðlýsa fyrir árslok 2007. Af þessum svæðum hafa aðeins Þrengslaborgir, Hverfell og Dimmuborgir verið friðlýst en ekki t.d. Lúdent og Lúdentsborgir. Tveimur þeirra svæða sem átti að friðlýsa fyrir 2007, Leirhnjúkshrauni og Jarðbaðshólum, hefur í dag verið raskað óafurkræft vegna framkvæmda.
  • Í þingsályktun um náttúruverndaráætlun 2009-2013 voru sett fram 13 svæði til friðlýsingar. Af þeim lista hefur einungis búsvæði tjarnarklukku á Hálsum í Djúpavogshreppi verið friðlýst.
  • Í þingsályktun um rammaáætlun frá árinu 2013 eru nefnd 13 svæði sem ber að friðlýsa fyrir orkuvinnslu en ekkert af því hefur enn gengið eftir. Í september 2018 lagði Umhverfisstofnun þó fram til kynningar tillögur að friðlýsingu þriggja svæða á hálendinu sem byggja á grunni rammaáætlunar. Svæðin eru Hólmsá, Tungnaá, Jökulfall og Hvítá. Þar að auki hafa Kerlingarfjöll verið í friðlýsingarferli frá 2016 en þau voru áður á náttúruminjaskrá.
  • Í apríl 2018 skilaði Náttúrufræðistofnun tillögum um val svæða á B-hluta náttúruminjaskrár. Valin voru alls 112 svæði í net verndarsvæða fyrir vistgerðir, fugla og jarðminjar. Þessar tillögur, sem eru hinar fyrstu eftir að ný náttúruverndarlög tóku gildi árið 2015, eru í vinnslu hjá Umhverfisstofnun.

Náttúra Íslands er einstök og við verðum að gera mun betur í friðlýsingarmálum en gert hefur verið á síðustu árum. Við bindum miklar vonir við núverandi umhverfis- og auðlindaráðherra sem hefur mikla reynslu og þekkingu í náttúruvernd og vitum að hann mun gera sitt besta. 

Á síðustu árum hefur almenningur smátt og smátt verið að átta sig á því að orðið náttúruauðlind á ekki eingöngu við um orku- og jarðefnanýtingu heldur eru raunveruleg verðmæti falin í óraskaðri náttúru Íslands. Aukin vitundarvakning í umhverfismálum og eflaust líka hrifning erlendra ferðamenna af náttúru landsins hafa átt þátt í því að vekja menn til umhugsunar um þessi verðmæti. 

Síðasta sumar kom ánægjuleg tilkynning frá umhverfis- og auðlindaráðherra um átak í friðlýsingum fyrir árin 2018–2020. Settar voru 36 milljónir króna árlega í þennan málaflokk auk 12 milljóna króna í undirbúning stofnunar miðhálendisþjóðgarðs. Þá lét umhverfis- og auðlindaráðuneytið gera rannsókn á efnahagslegum áhrifum 12 friðlýstra svæða og nærsamfélaga þeirra. Niðurstöður voru kynntar á Umhverfisþingi í nóvember 2018. Rætt var við rúmlega 3000 ferðamenn sumarið 2018. Í ljós kom að innan þeirra svæða sem rannsökuð voru eyða ferðamenn árlega samtals um 10 milljörðum króna, sem þýðir að fyrir hverja eina krónu sem ríkið lagði til svæðanna skiluðu 23 krónur sér til baka. Þetta sýnir að friðlýst svæði landsins eru ekki bara náttúrufarslega mikilvæg heldur einnig efnahagslega mjög arðbær, að ekki sé talað um heilsueflandi áhrif þeirra. 

Við byggjum allt okkar á náttúru landsins; hreint vatn úr jarðlögum, rafmagn og hiti úr fallvötnum og háhitasvæðum, byggingarefni úr ármöl og jökulgörðum, gjöful fiskimið umhverfis landið, landbúnaðarvörur af gróðurlendum og svona má lengi telja. Við þurfum að fara vel með náttúru okkar og temja okkur sjálfbærni. Íslenski málshátturinn „eyðist það sem af er tekið“ á við um alla hluti og hugsunarlaus auðlindanýting er ekki í boði lengur á tímum loftslagsbreytinga sem geta haft ófyrirséðar afleiðingar fyrir náttúru og samfélög jarðarinnar. Það er óskandi að áframhaldandi vitundarvakning um náttúruvernd hjá almenningi og ráðamönnum þjóðarinnar verði til þessi að við getum staðið vörð um náttúruperlur landsins og verndað þær til framtíðar. 

Stöndum saman og gerum góða hluti í þágu náttúruverndar. Ekki gera ekki neitt!

Ert þú í Landvernd?

Taktu afstöðu með náttúrunni og gakktu í Landvernd